Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 21/1980

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 7. gr., 10. gr. A-liður, 36. gr.  

Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis — Makaskipti — Upplýsingaskylda — Lögskýring

Kærð er til niðurfellingar tekjuviðbót að fjárhæð 2 474 454 kr. er skattstjóri gerði kæranda gjaldárið 1978 vegna ætlaðs skattskylds ágóða af sölu íbúðarhúss í smíðum að Flúðaseli X, Reykjavík.

Málavextir eru þeir að skattstjóri krafði kæranda um afrit makaskiptasamnings milli kæranda og M vegna skipta á nefndu íbúðarhúsi kæranda og íbúðar að Vesturbergi X, Reykjavík, en um gerning þennan hafði kærandi getið í D-lið framtals síns. Með því að svar barst ekki áætlaði skattstjóri kæranda söluhagnað að fjárhæð 4 000 000 kr. Með bréfi, dags. þann 6. apríl 1979, sendi umboðsmaður kæranda afrit nefnds makaskiptasamnings og tók jafnframt fram, að endanlegur byggingarkostnaður Flúðasels X lægi ekki enn fyrir. Skattstjóri lagði til grundvallar ákvörðun söluhagnaðar mat eignanna í skiptum samkvæmt samningnum, en hvor eign um sig var metin á 6 000 000 kr. svo og byggingarkostnað Flúðasels X pr. 31.12.1976 3 525 546 kr., en nýrri upplýsingar lágu þá ekki fyrir.

Með kæru til ríkisskattanefndar fylgdi húsbyggingarskýrsla fyrir árið 1977 og er byggingarkostnaður Flúðasels X pr. 31.12.1977 þar tilgreindur alls kr. 7 154 000.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem fram komin húsbyggingarskýrsla er í verulegum mæli tortryggileg og misbrestur á að kærandi hafi sinnt upplýsingaskyldu sinni, sem lögboðin er í 36. gr. 1. 68/1971, gerir málið óljóst. Að auki virðist skorta frekari skýringar, gögn og almennar upplýsingar.“

Með makaskiptasamningi, dags. þann 3. desember 1977, lætur kærandi fokhelt raðhús að Flúðaseli X, Reykjavík, í skiptum fyrir fullbúna íbúð að Vesturbergi X, Reykjavík. Voru eignir þessar metnar að jöfnu í skiptunum. Mismun yfirtekinna veðskulda greiddi kærandi viðsemjanda sínum, M, samkvæmt ákvæðum samningsins. Ákvæði E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, þykja ekki taka til þessara viðskipta að því leyti er til skiptanna tekur svo öruggt megi teljast, enda um að tefla vafa um heimild til skattlagningar. Þá þykir einnig um þetta tilvik bera að taka mið af meginreglu laganna um tekjuskatt og eignarskatt í upphafi A-liðar 10. gr. þeirra. Að þessu athuguðu þykir bera að taka kröfu kæranda til greina, enda fá ætlaðir annmarkar á húsbyggingarskýrslu ekki breytt þessari niðurstöðu sem slíkri.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja