Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 391/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður — 74. gr. 1. tl. 1. mgr. — 80. gr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Vaxtabætur — Vaxtabætur, skerðing miðað við eignir — Íbúðarhúsnæði — Vaxtagjöld — Eignarskattur — Eignarskattsstofn — Fasteign — Fasteignamatsverð — Eignarskattsverð — Leiðrétting — Leiðrétting skattframtals — Leiðréttingarbeiðni skattaðila á framtali — Kæruheimild — Kæranleiki

Málavextir eru þeir, að kæranda voru ákvarðaðar 2.994 kr. í vaxtabætur gjaldárið 1990 við álagningu það ár. Var sú fjárhæð byggð á tilgreindri fjárhæð vaxtagjalda í reit 87 52.879 kr. í skattframtali kæranda árið 1990, sbr. og upplýsingar í greinargerð um vaxtagjöld (RSK 3.09), er fylgdi framtalinu.

Í kæru til skattstjóra, dags. 22. ágúst 1990, fór kærandi fram á leiðréttingu eignarskattsstofns til lækkunar. Laut leiðréttingin að færslu íbúðar að X til eignar. Hafði kærandi fært eign þessa við 2.172.000 kr. en fasteignamatsverð íbúðarinnar, mannvirkis og lóðar, nam skv. fasteignamatsseðli 2.125.000 kr. Kærandi gat þess, að eignarhlutdeild hans í íbúðinni væri 60%. Í sambandi við leiðréttingu þessa fór kærandi fram á, að fjárhæð vaxtabóta yrði endurskoðuð, en skv. álagningarseðli væri eignarskattsstofn til útreiknings vaxtabóta ákvarðaður 2.069.900 kr. Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 10. október 1990. Sagði svo í úrskurðinum: „Leiðrétting á eignarskattsstofni kr. 2.061.090.- hefur engin áhrif á vaxtabætur. Vaxtabætur eru því óbreyttar.“

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 18. september 1990, hefur kærandi krafist leiðréttingar á eignarskattsstofni og endurskoðun á fjárhæð vaxtabóta til hækkunar af því tilefni.

Með bréfi, dags. 20. febrúar 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Taka ber kröfu kæranda um leiðréttingu eignarskattsstofns til meðferðar svo sem kæran stendur til en því atriði hefur skattstjóri ekki veitt viðhlítandi úrlausn. Samkvæmt gögnum málsins og skýringum kæranda verður eignarskattsstofn hans gjaldárið 1990 333.869 kr. Samkvæmt 2. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, byrja vaxtabætur einstaklings að skerðast fari eignir hans skv. 73. gr. laganna að frádregnum skuldum skv. 76. gr. þeirra fram úr 2.500.000 kr. gjaldárið 1990. Samkvæmt þessu leiðir leiðrétting á eignarskattsstofni kæranda ekki til hækkunar vaxtabóta, enda náði óleiðréttur stofn ekki skerðingarfjárhæð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja