Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 30/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 11. gr., 37. gr., 41. gr.  

Bifreiðakostnaður — Bifreiðastyrkur — Sönnun — Áætlun — Síðbúin kæra — Óviðráðan-leg atvik — Ófullnægjandi kröfugerð

Skattstjóri lækkaði gjaldfærðan rekstrarkostnað bifreiðar kæranda gjaldárið 1979 um 406 823 kr. eða úr 1 006 823 kr. í 600 000 kr. Bifreiðakostnað þennan færði kærandi til lækkunar á framtöldum tekjum á móti fengnum bifreiðastyrkjum frá vinnuveitendum, Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli og Samtökum grásleppuhrognaframleiðenda. Samtals námu bifreiðastyrkirnir 1 006 823 kr. eða sömu fjárhæð og kærandi gjaldfærði sem bifreiðakostnað.

Skattstjóri taldi, að útlagður kostnaður kæranda vegna aksturs í þágu vinnuveitenda væri ekki svo mikill sem kærandi tilgreindi og í hluta bifreiðastyrkja væru því fólgin skattskyld laun.

Samkvæmt skýrslu kæranda um bifreiðastyrk og bifreiðarekstur á árinu 1978 nam heildarrekstrarkostnaður bifreiðar kæranda 1 225 813 kr. og þar af taldi kærandi vera vegna aksturs í þágu vinnuveitenda rúmlega 82%. Heildarakstur tilgreindi kærandi 35 400 km, þar af í þágu vinnuveitenda 29 865 eða 84,36%. Einkaakstur í vinnu og utan er tilgreindur alls 5 535 km.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að gjaldfærður bifreiðakostnaður á framtali verði tekinn til greina. Er vísað til framlagðra greinargerða vinnuveitenda, er sýni mikla akstursnauðsyn kæranda í störfum sínum. Þá er bent á að í eigu kæranda sé önnur bifreið, er notuð sé í einkaþarfir og skýringar gefnar að öðru leyti á litlum einkaakstri þeirrar bifreiðar, er notuð sé í starfi.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist, að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd, þar sem svo virðist sem hún sé of seint fram komin.

Með hliðsjón af skýringum þeim, er umboðsmaður kæranda gefur í kæru um ástæður þær, er leiddu til þess, að kæra barst eigi fyrr, þykir eftir atvikum mega taka kæruna til efnisúrlausnar. Er fram kominni frávísunarkröfu því hafnað.

Skattstjóri hefur eigi vefengt tilfærðan rekstrarkostnað bifreiðarinnar samkvæmt skýrslu kæranda um bifreiðastyrk og bifreiðarekstur á árinu 1978. Á hinn bóginn þykir kærandi eigi hafa nægilega rökstutt akstursskiptingu í þágu vinnuveitenda og einkaþarfir, en tilgreindur einkaakstur bifreiðarinnar verður að teljast afbrigðilega lítill. Af virtum skýringum kæranda á hinum umþrætta kostnaði og með hliðsjón af gögnum málsins þykir eftir atvikum mega heimila kæranda til frádráttar sem bifreiðakostnað 800 000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja