Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 31/1980

Gjaldár 1979

Skyldusparnaður — Frádráttarbærni

Kærð er sú breyting, er skattstjóri gerði á skattframtali kæranda gjaldárið 1979, að lækka gjaldfærðan skyldusparnað samkvæmt lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins um 226 212 kr. eða úr 339 212 kr. í 113 000 kr. Ákvörðun sína byggði skattstjóri á því, að fyrir lægi, að kærandi hefði fest kaup á íbúð þann 19. apríl 1978 og hefði hann því heimild til að taka út skyldusparnað sinn. Væri einungis sá hluti sparnaðarins, er hefði verið lagður inn fyrir kaupdag íbúðarinnar, frádráttarbær. Með því að kærandi hefði ekki gefið umbeðnar upplýsingar um fjárhæð keyptra sparimerkja fram til kaupdags, taldi skattstjóri bera að áætla frádráttarbæran hluta skyldusparnaðarins.

Kærandi krefst þess, að tilfærð skyldusparnaðarfjárhæð verði að fullu tekin til greina. Kærandi kveður sparnaðarskyldu ekki hafa verið létt af sér þar sem hann hafi ekki verið búinn að fá afsal. Hafi hann því sparað áfram og geri enn, enda sé afsal ekki enn fengið. Þá bendir kærandi á að ekkert hafi verið úttekið af skyldusparnaðarinnistæðu fyrr en í febrúar 1979.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Ljóst er í máli kæranda að hann gerir kaupsamning vegna íbúðarkaupa 19. apríl 1978 og á þar með kost á að hætta skyldusparnaði. Því virðist úrskurður skattstjóra fyllilega réttur og þykir því bera að krefjast staðfestingar á honum.“

Samkvæmt e-lið 1. málsgr. 12. gr. laga nr. 30/1978, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, eru þeir, sem kaupa eða byggja íbúðir til eigin þarfa undanþegnir sparnaðarskyldu þeirri, er á er lögð með nefndum lögum. Með vísan til þessa þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja