Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 43/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 37. gr.  

Sönnun — Sönnunarbyrði — Frádráttarbærni — Viðhaldskostnaður íbúðarhúsnæðis — Vanreifun — Frávísun

Áfrýjað er úrskurði skattstjóra dags. 20.8.1979 varðandi tekjuskatt gjaldárið 1979. Kæruefnið samkvæmt úrskurði var lækkun viðhaldskostnaðar íbúðarhúsnæðis. Kærandi færði til frádráttar kostnað við viðhald húseignar sinnar 2 066 068, kr. en skattstjóri lækkaði þessa upphæð í 296 242 kr. vegna ætlaðra endurbóta. Kærandi telur þetta mat skattstjóra rangt. Íbúðarhús hans sé 30 ára gamalt og krefst hann þess að gjaldfærður viðhaldskostnaður verði hækkaður.

Af hálfu ríkisskattstjóra er gerð svofelld krafa:

„Með tilliti til aldurs húss og fjárhæðar þess kostnaðar sem um ræðir virðist mat skattstjóra á frádráttarbærum viðhaldskostnaði fyllilega fá staðist. Þykir því bera að krefjast staðfestingar á úrskurði hans með tilvísun til forsendna.“

Í málinu liggja hvorki fyrir reikningar yfir hinn umdeilda viðhaldskostnað né glögg lýsing á ástandi húseignarinnar fyrir og eftir að viðgerð fór fram eða í hverju hún var fólgin í einstökum atriðum. Var sérstök ástæða fyrir kæranda til slíkrar greinargerðar með tilliti til fjárhæðar ætlaðs viðhaldskostnaðar. Þykir því bera að vísa kærunni frá að svo stöddu vegna vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja