Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 57/1980

Gjaldár 1977 og 1978

Lög nr. 68/1971, 11. gr., 37. gr., 38. gr., 41. gr.  

Rekstrarkostnaður — Málsmeðferð áfátt — Upplýsingaskylda — Meginregla skattalaga — Ófullnægjandi tilkynning — Kröfugerð skattaðila — Sönnunargildi ársreiknings — Áritun löggilts endurskoðanda — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Vanreifun máls

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárin 1977 og 1978.

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. þann 9. janúar 1979, krafði skattstjóri kæranda m. a. um sundurliðanir, upplýsingar og skýringar varðandi eftirgreinda gjaldaliði á rekstrarreikningi fyrir árið 1976: Viðhald véla og tækja; viðhald leiguhúsnæðis; vörukynning og vöruþróun. í sama bréfi krafðist skattstjóri m. a. vegna skattframtals árið 1978 sundurliðunar og greinargerðar varðandi gjaldfærðan viðhaldskostnað véla og tækja svo og leiguhúsnæðis á rekstrarreikningi fyrir árið 1977 svo og gagna um gjaldaliðinn „Risna, móttaka erl. gesta og sérfræðinga“ ásamt greinargerð um nauðsyn risnu í hverju tilviki.

Með bréfi, dags. þann 23. mars 1979, veitti umboðsmaður kæranda svör og gaf skýringar á þeim atriðum er um var spurt og lagði fram gögn. Skattstjóri tilkynnti kæranda um hækkun tekna gjaldárið 1977 um 1 920 000 kr. og gjaldárið 1978 um 980 000 kr. af eftirgreindum ástæðum:

Gjaldárið 1977: Af vöruþróun/ferðakostnaði vegna ætlaðra einkanota 120 000 kr., af viðhaldskostnaði véla og tækja vegna ófullnægjandi svars 1 200 000 kr., af viðhaldskostnaði leiguhúsnæðis vegna ófullnægjandi svars 600 000 kr.

Gjaldárið 1978: Af risnukostnaði 200 000 kr., af viðhaldskostnaði véla og tækja vegna ófullnægjandi svars 360 000 kr., af viðhaldskostnaði leiguhúsnæðis vegna ófullnægjandi svars 420 000 kr.

Í kæru til ríkisskattanefndar krefst umboðsmaður kæranda niðurfellingar tekjuhækkana þessara, en boðar jafnframt, að frekari rökstuðningur kæruatriða verði sendur innan tíðar. Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Af málsskjölum verður ekki ráðið að borist hafi frekari útlistun kæruatriða en sú er greinir í kærubréfi dagsettu 13. júní 1979. Af því bréfi verður ekki ráðið á hvaða rökum kæra er reist eða við hvaða málsástæður er stuðst að öðru leyti. Þykir því bera að gera kröfu um að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem álíta verður kæruna órökstudda og málið vanreifað af hálfu kæranda.

Telji ríkisskattanefnd að taka eigi kæruna til efnislegrar úrlausnar, þrátt fyrir ofangreinda meinta annmarka, óskast kæran send ríkisskattstjóra til endurumsagnar.“

Með bréfi sínu dags. 9. janúar 1979 krafði skattstjóri kæranda um greinargerðir og sundurliðanir varðandi einstaka liði í ársreikningum kæranda árin 1976 og 1977. Var bréfi þessu svarað af hálfu kæranda með bréfi dags. 23. mars 1979. Að svo vöxnu máli tilkynnti skattstjóri um hækkun áður framtalinna tekna á skattframtölum áranna 1977 og 1978. Ekki verður það ráðið af fyrirspurnarbréfi skattstjóra einu saman að hann hefði þá þegar í hyggju að taka áður álögð opinber gjöld á kæranda vegna gjaldáranna 1977 og 1978 til nýrrar meðferðar. Það hefur verið talið vera meginregla laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt að skylt sé að gera skattaðila viðvart áður en skattframtali hans er breytt honum í óhag og honum veitt færi á að skýra málið frá sínu sjónarmiði og bera fram ný gögn ef svo ber undir. Skiptir þetta skattaðila miklu máli, þar sem óhægari er aðstaða hans til þess að fá þegar ákveðna tekjuhækkun lækkaða, en að koma í veg fyrir hana eða of háa tekjuhækkun, með skýringum á skattframtali sínu. Skattstjóri gætti ekki þessarar skyldu áður en hann framkvæmdi breytingar á skattframtölum kæranda árin 1977 og 1978.

Í tilkynningu skattstjóra um breytingar á umræddum skattframtölum kemur ekki nægilega skýrt fram af hvaða ástæðum þeim er breytt og kæranda er ekki gerð grein fyrir því hvaða einstök atriði í svarbréfi hans dags. 23. mars 1979 töldust ófullnægjandi og hvers vegna. Gat kröfugerð af hálfu kæranda orðið áfátt af þeim sökum. Á það er og að líta, að ársreikningar kæranda áranna 1976 og 1977 eru samdir af löggiltum endurskoðanda sem í áritun sinni getur þess að þeir séu samdir eftir bókum kæranda að lokinni endurskoðun. Er áritunin fyrirvaralaus.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan ber að fella niður tekjuhækkanir skattstjóra umrædd ár og eru kröfur kæranda teknar til greina samkvæmt því. Verður þá ekki tekin afstaða til þess nú, hvort í kærunni séu kröfur svo vanreifaðar af hálfu kæranda að vísa beri henni af þeim sökum frá ríkisskattanefnd, eins og krafist er af hálfu ríkisskattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja