Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 64/1980

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 11. gr.  

Rekstrarkostnaður — Söluverð — Galli á söluhlut — Viðhaldskostnaður — Efndir kaupsamnings — Rekstrartap

Kærð er álagning opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1978.

Málavextir eru þeir, að þann 19.8.1976 seldi kærandi m/b V og var söluverð 20 000 000 kr. Söluhagnaður 19 256 816 kr. var ekki skattskyldur. Gjaldfært viðhald bátsins á rekstrarreikningi fyrir árið 1976 nam 776 705 kr. Gjöld umfram tekjur það ár námu 899 396 kr. Til gjalda á rekstrarreikningi fyrir árið 1977 færði kærandi hlutdeild í viðgerðarkostnaði bátsins 1 865 600 kr. er greitt var kaupanda samkvæmt sérstöku samkomulagi vegna áætlaðs leynds galla, er fram hefði komið á bátnum. Skattstjóri felldi brott síðastnefndan gjaldalið, enda yrði að líta svo á, að hér hefði verið um að ræða lækkun söluverðs, en ekki rekstrarkostnað kæranda, þar sem hann hvorki ætti né ræki bátinn. Þá lækkaði skattstjóri rekstrarhalla fyrra árs til frádráttar um 776 705 kr. eða úr 899 396 kr. í 122 691 kr. þar sem líta yrði svo á, að gjaldfærður viðhaldskostnaður bátsins á rekstrarreikningi fyrir árið 1976 776 705 kr. hefði fengist greiddur í söluverði hans. Þá vísaði skattstjóri til þess að skipið hefði ekki verið gert út á árinu 1976.

Af hálfu kæranda er þess krafist að ofangreindir gjaldaliðir verði að fullu teknir til greina, enda sé hér um að ræða rekstrarkostnað í skilningi A-liðs 11. gr. skattalaga. Kærandi kveður hinn selda bát ekki hafa verið gerðan út síðan á árinu 1973 og hafi hann verði á söluskrá frá árinu 1974 uns sala fór fram árið 1976. Viðgerðarkostnaður það ár hafi að verulegu leyti verið til þess að gera sölu bátsins mögulega og þar með söluhagnaðinn. Kostnaður á árinu 1977 vegna þátttöku í viðgerð á leyndum galla á bol bátsins samkvæmt samkomulagi dags. 30.3.1977 við kaupanda hafi verið til þess að koma í veg fyrir að kaup gengju til baka og þar með sölutekjur svo og vaxtatekjur, er nú séu eini tekjustofn kæranda. Þá vísar kærandi til ákvæða 4. mgr. D-liðs 15. gr. skattalaga máli sínu til stuðnings.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

,,Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið, sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Gjaldfærður viðhaldskostnaður á rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1977 1 865 600 kr. vegna báts þess er hann seldi á árinu 1976, er greiðsla kæranda til kaupanda bátsins sérstaklega umsamin vegna viðgerðarkostnaðar í tilefni galla, er kom fram á hinu selda og kaupandi bar fyrir sig. Með nefndri greiðslu réð kærandi bót á þeim vanefndum í kaupum þessum er urðu af hans hálfu. Með vísan til þessa og að virtum gögnum málsins verður eigi litið svo á, að hér sé um að ræða frádráttarbæran viðhaldskostnað kæranda. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur að því er þetta kæruatriði varðar.

Skattstjóri lækkaði rekstrartap fyrra árs, þ.e. gjaldársins 1977, til frádráttar gjaldárið 1978 sem svaraði til gjaldfærðs viðhaldskostnaðar bátsins á rekstrarreikningi fyrir árið 1976. Eigi þykja efni til breytinga á úrskurði skattstjóra, einnig að því er þetta kæruatriði varðar og er hann því staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja