Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 83/1980
Gjaldár 1979
Lög nr. 68/1971, 5. gr., 37. gr.
Sameignarfélag — Málsmeðferð áfátt — Firmaskrá — Skattskil — Leiðbeining ríkisskattanefndar — Verksvið ríkisskattanefndar
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.
Málavextir eru þeir, að kærandi (K), er hafði rekið verslunarstarfsemi sem einstaklingsfyrirtæki með ótakmarkaða ábyrgð undir firmaheitinu H, stofnaði ásamt öðrum aðila sameignarfélag um rekstur þennan undir sama firmaheiti. Tilkynnt var um stofnun félagsins til Firmaskrár Reykjavíkur með tilkynningu, dags. þann 20. febrúar 1979, er birtist í Lögbirtingablaði nr. 34/1979. Tekið var fram í tilkynningunni, að sameignarfélagið skyldi vera sjálfstæður skattaðili. í samræmi við þetta var skilað skattframtali fyrir sameignarfélagið H fyrir árið 1979 vegna rekstrarársins 1978.
Við álagningu gjaldárið 1979 sameinaði skattstjóri eignir og tekjur H s.f. eignum og tekjum kæranda, er var aðaleigandi sameignarfélagsins að eignarhlutdeild 88%. Taldi skattstjóri með tilliti til fyrrnefndrar tilkynningar um stofnun félagsins til firmaskrárinnar, að félagið hefði ekki getað talist sjálfstæður skattaðili á árinu 1978. Bæri að miða við dagsetningu tilkynningar til firmaskrár í þeim efnum.
Af hálfu kæranda er þess krafist, að álagningu verði hagað í samræmi við innsend framtöl. Á H s.f. verði lagt sem sjálfstæðan skattaðila á grundvelli framtalsskýrslu félagsins, enda liggi fyrir félagssamningur um stofnun félagsins, dags. þann 5. janúar 1978, er sýni að stofnunin hafi verið ráðin til lykta í ársbyrjun 1978. Þá verði álögð gjöld á kæranda leiðrétt í samræmi við þetta. Með bréfi, dags. þann 7.5.1980, barst frekari greinargerð kæranda og nánari rökstuðningur svo og frumrit nefnds félagssamnings.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur og athugasemdir:
„1. Athugasemd um hugsanlegan formgalla:
Skattskýrsla K fyrir árið 1979 er undirrituð 2. apríl 1979 og skattskýrsla firmans H 29. maí 1979. Verður að gera ráð fyrir að skýrslurnar hafi borist skattstjóra fljótlega eftir undirritunardaga þeirra.
Skattskrá var lögð fram í Reykjavík 26. júlí 1979.
Af skattstjóra hálfu var skattskýrslu firmans hafnað sem slíkri en skattskýrslu eigandans breytt í stórvægilegum atriðum og breytti þannig í raun skattaálagningargrundvelli eigandans.
Ekki verður af gögnum málsins ráðið að skattstjóri hafi birt þessa ákvörðun sína aðilum málsins fyrr en við útkomu skattskrár og þá með óbeinum hætti. Virðist sem að breytingar þær sem skattstjóri gerði á framtölunum hafi verið þess eðlis að 3. mgr. 1. málsl. 37. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 7. gr. laga nr. 60/1972, taki til þeirra, þ.e.a.s. að fyrir útkomu skattskrár hefði skattstjóra borið að tilkynna kæranda sem talsmanni firmans og eiganda um breytingarnar. Af kæranda hálfu er ekki vikið að því að hann telji málið formgallað. Hefur af hans hálfu hvorki á skattstjórastigi né nú hjá ríkisskattanefnd verið bent á eða borin fyrir sig formgölluð afgreiðsla.
2. Kröfugerð ríkisskattstjóra varðandi efnisþátt málsins:
Telji ríkisskattanefnd að ekki beri að hnekkja gjaldaákvörðun skattstjóra á grundvelli framangreinds meints formlegs annmarka í meðferð skattstjóra á málinu gerir ríkisskattstjóri þá kröfu að ákvörðun skattstjóra um að synja um að færa firmað H á skattskrá Reykjavíkur fyrir gjaldárið 1979, vegna rekstrar á skattárinu 1978, verði staðfest. Jafnframt er þess og krafist að þær breytingar sem skattstjóri gerði á skattskýrslu kæranda, K, í samræmi við ákvörðun um synjun um að skattleggja firmað sérstaklega verði alfarið látnar óbreyttar standa.
Fyrir ríkisskattanefnd hefur verið lagt fram óstaðfest ljósrit af samningi sem tjáðist hafa verið gerður í ársbyrjun 1978. Frumrit liggur ekki fyrir. Í málinu kemur ekki neitt fram um það að raunveruleg formbreyting á rekstri firmans H hafi átt sér stað í ársbyrjun 1978 eins og haldið er fram af kæranda hálfu. Skal t.d. bent á að söluskattsskírteini og greiðslur á sölugjaldi eru gerðar í nafni kæranda K allt árið 1978. í tilkynningu til firmaskrár sem dagsett er í apríl 1979 kemur ekkert fram um upphaf starfsemi firmans. Virðast og ýmis atriði, m. a. tímasetning tilkynningar og ýmislegt í reikningum kæranda og firmans geta bent til þess að ákvörðun um að láta skrá firmað sem sjálfstæðan skattaðila hafði verið tekin þegar ársuppgjör 1978 lá fyrir. Skal einnig til dæmis bent á að ársfjórðungsleg launaskattsuppgjör vegna vinnulauna sem eigendum voru greidd hefðu átt að liggja fyrir o. fl.
Í ljósi þessara atriða virðist sem firmaskrártilkynning sú sem tjáðist byggja á félagssamningi gerðum ríflega ári áður en tilkynning var dagsett, ekki geta orðið til þess að skattstjóra hefði borið að taka firmað á skattskrá eftir reglum C-liðar 5. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 2. gr. laga nr. 7/1972.“
Skattstjóri lagði eigi á umrætt sameignarfélag sem sjálfstæðan skattaðila gjaldárið 1979 og skattlagði eignir þess og tekjur með eignum og tekjum kæranda, K. Skattstjóri fór með breytingar þær, er um er deilt í máli þessu, eftir ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. í þessu tilviki bar að gefa kæranda kost á að koma að skýringum og andsvörum, áður en ákvörðun var tekin um breytingarnar, sbr. 4. málsl. 1. mgr. sömu greinar. Með vísun til þessa ber að taka kröfu kæranda til greina. Skattstjóra er rétt að ákveða að nýju skatta á kæranda og nefnt sameignarfélag að gættum réttum aðferðum.
Það athugast að gjöld þau, er kærandi færði til frádráttar á rekstraryfirliti sínu fyrir árið 1978 og fylgdi framtalinu, leyfast ekki til frádráttar launatekjum við ákvörðun útsvars gjaldárið 1979. Kæranda er hins vegar rétt að telja gjöld þessi meðal rekstrarútgjalda ársins 1977.