Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 392/1992

Virðisaukaskattur 1. sept-15. nóv. 1990

Lög nr. 50/1988 — 2. gr. 1. mgr. — 3. gr. — 5. gr. — 15. gr. — 16. gr. — 20. gr. — 24. gr. — 26. gr. — 29. gr. 2. mgr.   Reglugerð nr. 501/1989 — 8. gr.   Reglugerð nr. 530/1989  

Virðisaukaskattur — Virðisaukaskattur, grunnskrá — Grunnskrá virðisaukaskatts — Virðisaukaskattsskyld starfsemi — Virðisaukaskattsskyldur aðili — Tikynningarskylda um virðisaukaskattsskylda starfsemi — Tilkynning um virðisaukaskattsskylda starfsemi — Skráningardagur — Stofndagur hlutafélags — Virðisaukaskattsskýrsla — Uppgjörstímabil virðisaukaskatts — Virðisaukaskattskyld velta — Innskattur — Endurgreiðsla virðisaukaskatts — Innskattur sem fellur til fyrir skráningu — Reikningur, formkröfur — Reikningur, formkröfur samkvæmt virðisaukaskattslögum — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Póstlagningardagur — Póstlagningardagur kæruúrskurðar skattstjóra — Komudagur kæru — Kæra, komudagur — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Bifreiðakostnaður — Veitingarekstur

Málavextir eru þeir, að í framhaldi af bréfi sínu, dags. 29. janúar 1991, boðaði skattstjóri hinn 15. febrúar 1991 endurákvörðun virðisaukaskatts kæranda tímabilið 1. september 1990 til 15. nóvember 1990. Samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu kæranda fyrir tímabil þetta nam skattskyld velta án virðisaukaskatts 882.117 kr. Útskattur var tilgreindur 216.135 kr. en innskattur 884.279 kr. Samkvæmt þessu var innskattur því hærri en útskattur á uppgjörstímabilinu og inneign til endurgreiðslu 668.144 kr., sbr. 2. ml. 1. mgr. 15. gr. og 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Í fyrrgreindu bréfi vísaði skattstjóri til þess, að samkvæmt framlögðum bókhaldsgögnum kæranda hefði komið í ljós, að fjárhæðum á virðisaukaskattsskýrslu bæri ekki saman við fjárhæðir samkvæmt athugun rannsóknardeildar skattstofunnar á bókhaldsgögnunum svo sem fram kæmi á fylgiblaði, er fylgdi bréfinu. Samkvæmt fylgiblaði þessu var innskattur álitinn oftalinn um 485.689 kr. Var í fylgiblaði þessu að finna sundurliðun eftir einstökum reikningum og tilgreindar ástæður fyrir því varðandi hvern einstakan reikning, að ekki væri fallist á þá til ákvörðunar innskatts á uppgjörstímabilinu. Að teknu tilliti til leiðréttingar á útskatti úr 216.135 kr. í 216.119 kr. leiddi þessi niðurstaða skattstjóra til þess, að innskattur lækkaði úr 884.279 kr. í 398.590 kr. og inneign varð 183.004 kr. í stað 668.144 kr. Gaf skattstjóri kæranda 10 daga svarfrest til þess að koma að athugasemdum við hina fyrirhuguðu endurákvörðun. Ekki barst svar við bréfi skattstjóra og hinn 15. apríl 1991 hratt skattstjóri hinni boðuðu endurákvörðun í framkvæmd í samræmi við það, sem fram kom í bréfi hans, dags. 15. febrúar 1991.

Af hálfu kæranda var endurákvörðuninni mótmælt í kæru til skattstjóra, dags. 17. apríl 1991. Var gerð grein fyrir aðdraganda að stofnun þess veitingastaðar, er kærandi rekur og greint frá því, að kærandi, sem er hlutafélag hafi ekki verið formlega stofnað fyrr en í október 1990. Húseignin A, Reykjavík, hafi verið tekin á leigu vorið 1990 og hafist handa um innréttingar og breytingar. Þann tíma, sem breytingar og innréttingar hafi staðið yfir hafi efni, þjónusta og aðföng verið keypt út í reikning eiginmanna hluthafa persónulega, er hafi að mestu leyti séð um breytingarnar. Skýri þetta þau fylgiskjöl, sem hafnað hafi verið á þeim grundvelli, að þau hafi verið stíluð á aðra en kæranda sjálfan. Þá var bent á tvo reikninga og skýrt, að innskattur hafi ekki verið reiknaður af þeim. Varðandi athugasemdir við reikningsform og vöntun kassastrimla var vanþekkingu borið við.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 15. maí 1991. Ekki féllst skattstjóri á frádrátt innskatts vegna kaupa á byggingavörum í nafni annarra. Vísaði skattstjóri til 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum þar sem segði m.a: „Við sérhverja sölu eða afhendingu á vöru eða skattskyldri þjónustu skal seljandi gefa út reikning, sbr. þó 21. gr. Á reikningi skal koma fram útgáfudagur, nafn og kennitala kaupanda...“. Þá segði í 7. mgr. sömu lagagreinar, að til sönnunar á innskatti skyldi skattskyldur aðili geta lagt fram reikninga eða önnur gögn í samræmi við ákvæði greinarinnar. Tók skattstjóri fram, að fylgiskjöl, er ekki væru stíluð á kæranda, uppfylltu ekki skilyrði fyrir frádráttarbærni innskatts samkvæmt lagaákvæðum þessum. Skattstjóri féllst á, að innskattur hefði ekki verið reiknaður af 3 fylgiskjölum og næmi fjárhæð 6.445 kr. vegna þessa. Þá féllst skattstjóri á frádráttarbærni innskatts 21.002 kr. skv. tilgreindu fylgiskjali, enda kæmi nafn kæranda fram. Að öðru leyti hafnaði skattstjóri kærunni varðandi annan innskatt ótalinn með vísan til 1. mgr. og 6. tl. 3. mgr. 16. gr. og 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, svo og 8. gr. reglugerðar nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, með síðari breytingum. Samkvæmt þessu, sem hér hefur verið rakið, hækkaði skattstjóri fjárhæð innskatts frá því sem hann hafði áður ákveðið um 27.447 kr. eða úr 398.590 kr. í 426.037 kr. þannig að inneign nefnt uppgjörstímabil varð 209.902 kr.

Með kæru, dags. 14. júní 1991, hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar af hálfu kæranda. Eru ítrekaðar kröfur þær og skýringar, sem fram komu í kæru til skattstjóra, dags. 17. apríl 1991.

Með bréfi, dags. 30. desember 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjanda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin, en lögmæltur 30 daga kærufrestur rann út þann 14. júní 1991. Kærubréfi kæranda barst ríkisskattanefnd hinsvegar ekki fyrr en 20. júní 1991. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.

Telji ríkisskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir ofangreindan formgalla er sú krafa gerð til vara að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Dagsetning samþykkta fyrir hlutafélagið X, kæranda í máli þessu, er 17. október 1990. Þann dag er skattstjóra og send tilkynning um virðisaukaskattsskylda starfsemi, sbr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ríkisskattstjóri lítur svo á að skattskylda (skráningarskylda) kæranda samkvæmt lögum um virðisaukaskatt hafi jafnframt stofnast þann dag, enda þá ljóst að félaginu var ætlað að starfa í atvinnuskyni og velta þess myndi verða yfir lágmarki skv. 3. tölul. 4. gr. laganna. Það leiðir af 4. mgr. 15. gr. sömu laga að kærandi hefur ekki rétt til innskattsfrádráttar vegna kaupa á vöru og skattskyldri þjónustu sem fram fór fyrir þann dag sem skráningarskylda hans miðast við samkvæmt framansögðu, sjá nú einnig 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 81/1991, um innskatt.

Þá ítrekar ríkisskattstjóri það sem fram kemur í úrskurði skattstjóra að skjöl þau sem kærandi leggur til grundvallar innskattsfrádrætti fullnægja ekki skilyrðum lokamálsgreinar 20. gr. laga nr. 50/1988.“

Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, má skjóta úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og er kærufrestur til nefndarinnar 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra. Hinn kærði úrskurður skattstjóra er dagsettur 15. maí 1991 og liggur ekki annað fyrir en hann hafi verið póstlagður þann sama dag. Samkvæmt þessu var síðasti dagur kærufrests kæranda til ríkisskattanefndar 14. júní 1991. Er kæran til nefndarinnar dagsett þann dag. Kæran barst hinsvegar ekki fyrr en 20. júní 1991, en þann dag var bréf það póststimplað, er hafði kæruna að geyma. Samkvæmt þessu þykir óyggjandi, að kæran sé framkomin að liðnum kærufresti. Ber því að vísa henni frá af þeim sökum, enda hefur ekkert komið fram af hálfu kæranda um það, að óviðráðanleg atvik hafi valdið því, að ekki var kært í tæka tíð.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja