Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 87/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 29/1980, ákvæði til bráðabirgða   Lög nr. 112/1978   Lög nr. 68/1971, 11. gr.  

Rekstrarkostnaður — Frádráttarbærni — Opinber gjöld

Kærð er álagning sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði skv. lögum nr. 112/1978.

Málavextir eru þeir, að kærandi krafðist þess í kæru til skattstjóra að skattur þessi, er á var lagður árið 1979, yrði heimilaður til frádráttar tekjum rekstrarárið 1978 með vísan til A-liðs 11. gr. og B-liðs 22. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Þessari kröfu hafnaði skattstjóri með þeirri röksemd, að skattur þessi væri bundinn við ákveðnar eignir og því frádráttarbær, sbr. ákvæði B-liðs 27. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, og með hliðsjón af B-lið 12. gr. laga nr. 68/1971, á því ári sem skatturinn væri álagður, þ.e.a.s. á skattárinu 1979 á framtali árið 1980.

Í kæru til ríkisskattanefndar ítrekar kærandi gerðar kröfur með vísan til framkominna röksemda.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Með vísan til ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 29/1980 um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði er úrskurður skattstjóra staðfestur að niðurstöðu til.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja