Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 104/1980

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 36., 37. og 38. gr.  

Rekstrarkostnaður — Ferðakostnaður — Risnukostnaður — Málsmeðferð áfátt — Teknasundurliðun — Meginregla skattalaga — Upplýsingaskylda skattaðila — Bókhald — Ársreikningur — Áritun löggilts endurskoðanda — Sönnun — Vefenging skattframtals — Fyrirspurn skattstjóra — Viðurlög

Með bréfi dags. 6/11 1978 óskaði skattstjórinn í Reykjavík eftir því við kæranda, að látnar yrðu í té vegna skattframtals 1978 upplýsingar um risnukostnað, gjafakostnað og upplýsingar um ferðakostnað. Þá var beðið um útfyllingu eyðublaðs yfir sundurliðun brúttótekna. Ennfremur var óskað uppgjafar á greiðslum fyrir reikningslega aðstoð, tölvuþjónustu, sérfræðilega aðstoð og lögfræðilega aðstoð á launamiðum.

Með bréfi dags. 5/12 1978 voru skattstjóra sendar sundurliðanir yfir sölu, risnukostnað, ferðakostnað svo og launamiðar vegna verktaka.

Þann 9/3 1979 óskaði skattstjóri eftir því, að kærandi gerði grein fyrir misræmi milli launamiða frá nokkrum aðilum og sundurliðaðra upplýsinga um sölu kæranda. Á afrit bréfsins frá 9/3 hefur verið ritað: „ósvarað 27/3 1979“.

Skattstjóri tilkynnti síðan kæranda með ódags. og óundirrituðu bréfi, að tekjur hans á skattframtali 1978 hefðu verið hækkaðar um 6 259 831 kr. og með skattbreytingarseðlum, dags. 3/4 1979, voru kæranda tilkynntar hækkanir samtals að fjárhæð 2 231 308 kr. á álögðum tekjuskatti, skyldusparnaði og sérstökum skatti af atvinnurekstri gjaldárið 1978.

Ástæður fyrir hækkuninni á tekjum kæranda taldi skattstjóri vera í framhaldi af fyrirspurnarbréfi 6/11 1978: „Af risnukostnaði 310 980 kr., sem eru ófrádráttarbærar, afmælis-gjafir 32 000 kr. og jólagjafir 208 980 kr., auk áætlað af „vegna ýmissa viðskiptaaðila“ 70 000 kr. v/ófullnægjandi svars við fyrirspurn (nauðsyn hvers kostnaðarliðar og tengsl við aðila ekki tilgreind) og einkanota.

Vegna ósvaraðs fyrirspurnarbréfs frá 9/3 1979 4 759 081 kr. + 25% 1 189 770 kr.“

Með bréfi dags. 17/4 1979 var teknahækkunin kærð til skattstjóra. Í bréfinu koma fram skýringar varðandi fyrirspurnarbréf skattstjóra frá 9/3 1979.

Skattstjóri synjaði kærunni með svofelldri forsendu:

„Sá mismunur sem fram kemur á launamiðum og tekjusundurliðun telur kærandi vera framtalinn annað hvort í tekjuliðnum „Ýmsir lægri en 100 000 kr.“ eða vera frá árinu 1976. Engin tekjusundurliðun fylgir reikningum 1976 og því er erfitt fyrir skattstofuna að kanna þessa fullyrðingu kæranda, en honum hefði verið leikur einn að staðfesta þetta annað hvort með tekjusundurliðun fyrir árið 1976 eða ljósritum af viðkomandi reikningum. Hvorugt hefur kærandi gert.

Þar eð ekki þykir næg grein gerð fyrir hinum um spurða mismun á tekjusundurliðum og framkomnum launamiðum verður að synja kæru þessari.“

Úrskurði skattstjóra var með kærubréfi, dags. 8/6 1979, skotið til ríkisskattanefndar og ítrekuð fyrri kröfugerð með enn frekari skýringum og gögnum.

Af ríkisskattstjóra hálfu eru gerðar svofelldar kröfur og athugasemdir: „Með hliðsjón af fram komnum og fengnum skýringum þykir að svo stöddu mega fallast á nokkra lækkun teknaviðbótar skattstjóra að því leyti sem hún stafar frá óskýrðum mismun á tekjusundurliðun og launamiðum. Að öðru leyti er krafist staðfestingar á hinum kærða úrskurði.“

Í bréfi sínu, dags. 6. nóvember 1978, krafði skattstjóri kæranda um greinargerðir og sundurliðanir varðandi einstaka liði í ársreikningi ársins 1977. Var bréfi þessu svarað af hálfu kæranda. Með bréfi skattstjóra dags. 9. mars 1979 var kærandi krafinn skýringa á misræmi því, er reyndist vera á tekjum samkvæmt innsendum launamiðum frá verkkaupum og tekjusundurliðun kæranda. Bréfi þessu lét kærandi ósvarað. Að svo förnu tilkynnti skattstjóri kæranda um tekjuhækkun, sem annars vegar var á því reist, að svar við fyrirspurn dags. 6. nóv. 1978 um tiltekna kostnaðarliði teldist ófullnægjandi og hins vegar á því, að fyrirspurn dags. 9. mars 1979 var látið ósvarað. Ekki verður það ráðið af þessum fyrirspurnarbréfum skattstjóra einum saman, að hann hefði þá þegar haft í hyggju að taka áður álögð opinber gjöld á kæranda gjaldárið 1978 til nýrrar meðferðar. Það hefur verið talin vera meginregla laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, að skylt sé að gera skattaðila viðvart, áður en skattframtali hans er breytt honum í óhag og honum veitt færi á að skýra málið frá sínu sjónarmiði og bera fram ný gögn ef svo ber undir, sbr. 38. gr. og 37. gr. nefndra laga. Skiptir þetta skattaðila miklu máli, þar sem óhægari er aðstaða hans til þess að fá þegar ákveðna tekjuhækkun lækkaða, en að koma í veg fyrir hana, eða of háa tekjuhækkun, með skýringum á skattframtali sínu. Skattstjóri gætti ekki þessarar skyldu við breytingar á skattframtali kæranda árið 1978.

Á það er að líta, að ársreikningar kæranda rekstrarárin 1976 og 1977 eru samdir af löggiltum endurskoðanda, sem í áritun sinni getur þess, að þeir séu samdir eftir bókum kæranda og endurskoðun hafi verið framkvæmd. Er áritunin fyrirvaralaus. Skattframtal kæranda árið 1978 er byggt á ársreikningi 1977 og var það lagt óbreytt til grundvallar ákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1978. Þá hefur skattframtal kæranda árið 1977 ekki verið vefengt. Með bréfi sínu dags. 6. nóvember 1978 krafðist skattstjóri allítarlegra upplýsinga úr bókhaldi kæranda árið 1977. Skattframtal hans árið 1978 gaf ekki sjálft það tilefni til þessarar kröfu sem lýst er í 4. ml. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum. Með tilliti til umfangs starfsemi kæranda og þeirra upplýsinga, sem krafist var af honum með umræddu fyrirspurnarbréfi, var eðlilegast að skattstjóri neytti heimildar 3. mgr. 36. gr. nefndra laga, er hann hugðist kanna réttmæti einstakra liða skattframtals kæranda árið 1978 og gæta síðan reglna 38. gr., sbr. 37. gr. sömu laga, reyndist einstakur liður þess vera rangur. Kærandi hefur í kærum sínum til skattstjóra og ríkisskattanefndar gert ítarlega grein fyrir þeim mismun er skattstjóri taldi vera á innsendum launamiðum frá verkkaupum og upphaflegri tekjusundurliðun kæranda. Hefur kærandi fullyrt, að hluti þess mismunar sé tekjufærður í ársreikningi 1977, hluti stafi af röngum launamiðum og hluti séu framtaldar tekjur í ársreikningi árið 1976. Hefur hann því til stuðnings látið fylgja með kæru sinni til ríkisskattanefndar tekjusundurliðun ársins 1976. Hvorki skattstjóri né ríkisskattstjóri hafa hrakið þessar fullyrðingar kæranda.

Af framangreindum ástæðum verður að fella niður hinar kærðu breytingar skattstjóra. Eru kröfur kæranda því teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja