Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 115/1980

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 11. gr. A-liður, 37. og 38. gr.  

Málsmeðferð áfátt — Rekstrarkostnaður — Ferða- og risnukostnaður

Kærðar eru eftirtaldar breytingar sem skattstjóri gerði á framtali kæranda gjaldárið 1978:

1. Ferðakostnaður lækkaður um 250 000 kr. — eða úr 576 868 kr í 326 868 kr. Kærandi upplýsti að hluti af þessum kostnaði sé vegna viðskiptaferðar framkvæmdastjóra og eiginkonu hans. Skattstjóri taldi, að ferðakostnaður vegna eiginkonu framkvæmdastjóra væri ekki frádráttarbær og áætlaði hann 250 000 kr.

Umboðsmaður kæranda mótmælir þessu og krefst þess að tilgreindur ferðakostnaður verði að fullu tekinn til greina, en til vara, að ófrádráttarbær hluti ferðakostnaðar verði ákvarðaður 150 000 kr.

2. Risnukostnaður var lækkaður úr 665 115 kr. í 265 115 kr. Þessu er mótmælt af hálfu umboðsmanns kæranda og þess krafist að tilgreindur risnukostnaður verði að öllu leyti tekinn til greina.

3. Þá er gerð sú krafa, að fullt varasjóðstillag verði reiknað af þeim tekjum sem endanlega ákvarðast.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur:

„Fallist er á að varasjóðstillag reiknist af hinum kærðu hækkunum en að öðru leyti er gerð krafa um staðfestingu hins kærða úrskurðar.

Röksemdir:

1. Með því að ekki verður talið að sýnt sé að kostnaður við margrædda ferð framkvæmdastjóra kæranda ásamt eiginkonu framkvæmdastjóra til Danmerkur hafi verið alfarið vegna teknaöflunar kæranda og þar eð ekki liggur fyrir nægilega ítarleg greinargerð um nánara eðli kostnaðarins verður ekki annað séð en að frádráttarbær hluti hans hafi verið hæfilega metinn af skattstjóra.

2. Risnukostnaður kæranda á árinu 1977 verður að teljast afbrigðilega hár og nánast óskýrður. Mati skattstjóra á ófrádráttarbærum hluta hans virðist í hóf stillt.

3. Enda þótt ráðstöfun fjár með þeim hætti sem í máli þessu greinir sé í eðli sínu „varasjóðsbrot“, hafa gengið úrskurðir frá ríkisskattanefnd, eldri, varðandi það að heimilt sé að færa til varasjóðs hlutfall slíkra bakfærðra útgjalda.“

Ekki verður það ráðið af bréfi skattstjóra dags. 5. febrúar 1978 einu saman, að hann hefði þá þegar haft í hyggju að taka áður álögð opinber gjöld á kæranda gjaldárið 1978 til nýrrar meðferðar. Í tilkynningu skattstjóra um tekjuhækkunina kemur ekki nægilega skýrt fram af hvaða ástæðum skattframtalinu er breytt. Þá er á það að líta, að þegar litið er til þeirra skýringa, sem fram hafa komið af hálfu kæranda og umfangs og eðlis starfsemi hans, er ekki ástæða til að hinn umdeildi kostnaður hljóti aðra meðferð en annar rekstrarkostnaður. Þá ber að líta til þess, að eiginkona framkvæmdastjóra félagsins situr í stjórn þess. Með vísan til þess sem nú hefur verið rakið og ákvæða 1. mgr. 38. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt eru kröfur kæranda teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja