Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 121/1980

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 5. gr.  

Hlutafélag — Skattskylda — Upphaf skattskyldu — Félagssamþykktir

Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að hækka tekjur kæranda gjaldárið 1978 um 4 000 000 kr. auk 25% viðurlaga, 1 000 000 kr., á þeim grundvelli, að kærandi hefði verulega vanframtalið tekjur sínar og ekki skilað launamiðum vegna greiddra vinnulauna.

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. þann 15. febrúar 1979, krafði skattstjóri kæranda um ýmsar upplýsingar varðandi skattframtal hans árið 1978, m.a. um sundurliðun tekna og launamiða vegna gjaldfærðra launa. Sundurliðun tekna barst í kærubréfi, en ekki launamiðar. Kærandi tók fram, að X h.f. hefði tekið við öllum rekstri hans hinn 3. maí 1977, þ.m.t. verkum í framkvæmd. Væri því viðbúið, að ýmsir þeir aðilar, er nefnt hlutafélag vann fyrir, hefðu gefið upp laun á kæranda af vangá. Skattstjóri vísaði til þess í úrskurði sínum, að gefnar hafi verið upp greiðslur til kæranda samtals að fjárhæð 4 382 106 kr. vegna vinnu á árinu 1977, er ekki séu tekjufærðar hjá honum. Ekki féllst skattstjóri á, að kærandi gæti látið tekjufæra hjá nefndu hlutafélagi greiðslur fyrir þá vinnu, sem hann var búinn að inna af höndum fyrir stofnun hlutafélagsins, en dagsetning samþykkta þess sé í tilkynningu til hlutafélagaskrár tilgreind 15. desember 1977. Þá taldi skattstjóri með vísan til teknasundurliðunar í kæru, að tekjur að fjárhæð 2 687 210 kr. frá Þ h.f. væru vanframtaldar. Þ h.f. hefði gefið upp á kæranda 8 187 210 kr. gjaldárið 1977, en greitt hefði verið í lok ársins 1976 5 500 000 kr. og verki þá ólokið. Með hliðsjón af skýringum kæranda og verkkaupa hefði mismunurinn ekki verið skattlagður gjaldárið 1977.

Kærandi kveðst hafa haft með höndum sjálfstæða starfsemi 1. janúar—30. apríl 1977. Þann 3. maí 1977 hafi hann hafið störf hjá hlutafélaginu X. Það hlutafélag hafi tekið við öllum viðskiptasamböndum kæranda og yfirtekið þau verkefni, er kærandi hafði með höndum, en ekki byrjaður á. Kærandi hefur lagt fram yfirlýsingar frá þeim aðilum, er gefið hafa upp greiðslur á hann í stað hlutafélagsins, sbr. að framan. Tekjur frá Þ h.f. kveður kærandi fram taldar hjá X h.f. Þá hefur kærandi lagt fram afrit launamiða.

Af hálfu kæranda er á það bent, að allar þær tekjur, er skattstjóri hafi lagt til grundvallar endurálagningu á hann, hafi verið skattlagðar hjá X h.f. Fer kærandi fram á það, að tekjur þessar verði aðeins skattlagðar einu sinni, þ. e. a. s. annað hvort hjá hlutafélaginu eða stjórnendum þess.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eins og fram kemur í úrskurði skattstjóra var stofnun hlutafélagsins fyrst tilkynnt til hlutafélagaskrár í apríl 1978. Ábyrgð og umsjón og arður af þeim verkum sem „félagið“ tók að sér fram að þeim tíma verða því að teljast hafa heyrt kæranda til. Á það skal bent t.d. að aðildar eða t.d. „hlutabréfaeignar“ er í engu getið á skattskýrslu kæranda fyrir skattárið 1977.

Sú greinargerð sem fram hefur komið í málinu af kæranda hálfu um lögskipti þau er rekstur hans varða verður ekki talin til þess fallin að breyta grundvelli teknaáætlunar skattstjóra að því marki að unnt sé að fallast á nú fram komnar kröfur af kæranda hálfu.“

Með tilkynningu, dags. þann 17. apríl 1978, er hlutafélagið X tilkynnt til skráningar í hlutafélagaskrá Kópavogs. Stofnsamningur hlutafélags þessa er dagsettur þann 15. desember 1977. Þótt svo kunni að hafa um samist með kæranda og N.N. og hlutafélagi þessu, að hlutafélagið yfirtæki rekstur kæranda frá og með 3. maí 1977, breytir slíkt samningsákvæði engu að því er skattaðild varðar. Hins vegar þykir með tilliti til framkominna gagna og skýringa og með hliðsjón af ársreikningi X h.f. fyrir árið 1977 eigi tilefni til að gera kæranda hinn umdeilda tekjuauka.

Leggja ber til grundvallar, að rekstur í nafni hlutafélagsins X á árinu 1977 fyrir stofndag þess hafi farið fram á vegum og á ábyrgð þeirra aðila, er að hlutafélagi þessu standa, þar til ný lögpersóna og nýr skattaðili varð til. Með tilliti til þess, hversu langt var liðið á skattárið, er hlutafélagið var stofnað, þykir mega leggja ársreikning félagsins fyrir árið 1977 til grundvallar álagningu í þessum efnum. Tekjur og eignir hlutafélagsins þykir rétt að skattleggja með tekjum og eignum aðalhluthafa félagsins, kæranda í máli þessu og N.N., sbr. neðanskráða yfirlýsingu þeirra, dags. þann 3. janúar 1980, en hvor um sig eiga þeir 46% hluta-fjárins:

„Í framhaldi af skattkæru G ... H ... (kæranda) viljum við hluthafar í hlutafélaginu X, Kópavogi, fara fram á að tekjur hlutafélagsins á árinu 1977, gjaldárið 1978, verði skattlagðar hjá okkur persónulega að jöfnu svo og eignir.

Ástæðan fyrir beiðni þessari er sú að ekki hafði verið gengið frá samþykktum félagsins fyrr en 15. desember 1977.“

Hreinar tekjur X h.f. samkvæmt framtali félagsins árið 1978 nema 1 651 249 kr. og þar við bætast 15% viðurlög, 247 687 kr., eða samtals 1 898 936 kr. Ber því að skattleggja með tekjum kæranda samkvæmt framansögðu 949 468 kr. af tekjum hlutafélagsins. Hrein eign hlutafélagsins í lok ársins 1977 nemur að meðtöldum 15% viðurlögum 1 898 936 kr. og ber að skattleggja þar af með eignum kæranda 949 468 kr. Þá þykir bera að leiðrétta eignahlið framtals með tilliti til hlutafjáreignar. Þá ber að gera kæranda að greiða aðstöðugjald svo og iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald vegna rekstrar á vegum hlutafélagsins á árinu 1977. Aðstöðugjaldsstofn ákveðst að meðtöldum 15% viðurlögum 31 044 285 kr. er að helmingi komi til álagningar hjá kæranda, sbr. ofangreinda yfirlýsingu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja