Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 124/1980
Gjaldár 1979
Reglugerð nr. 245/1963, 31. gr. B-liður Lög nr. 68/1971
Fasteignagjöld — Frádráttarbærni — Óarðberandi fasteign
Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda gjaldárið 1979 að fella niður frádrátt vegna fasteignagjalda af K-landi að fjárhæð 64 454 kr. Taldi skattstjóri gjöld þessi ófrádráttarbær, þar sem um óarðbæra eign væri að ræða.
Af hálfu kæranda er þess krafist, að hinn umdeildi frádráttarliður verði tekinn til greina. Um sé að ræða landssvæði er hafi verið óskipulagt og heimild til sölu lóða ekki fyrir hendi, þar sem viðkomandi sveitarfélag hafi ekki heimilað byggingar á landinu. Nú hafi hins vegar verið gengið frá skipulagi þannig að unnt sé að hefja sölu lóða. Þá vísar kærandi til þess, að hann sé eini eigandi að landi þessu, sem ekki hafi fengið þennan frádrátt og sé því um mismunun að ræða.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:
„Eigi er mótmælt að umdeildur fasteignaskattur er af landi sem kærandi hefur ekki tekjur af. Með vísan til þess að hvergi í lögum um tekju- og eignarskatt er að finna heimild til að draga frá tekjum slík gjöld, þykir bera að krefjast staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.“
Úrskurður skattstjóra er staðfestur með vísan til forsendna hans.