Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 127/1980
Gjaldár 1979
Reglugerð nr. 245/1963, 36. gr. Lög nr. 68/1971, 12. gr. D-liður
Gjafir til trúfélaga — Frádráttarbærni
Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda gjaldárið 1979 að fella niður gjöf til Reglu Jötusystkina að fjárhæð 127 500 kr., er kærandi hafði fært til frádráttar tekjum sínum. Ákvörðun sína byggði skattstjóri á því, að ríkisskattstjóri hefði ekki veitt nefndum gjafþega heimild til að þiggja gjafir með þeim áhrifum, að gefandi öðlist rétt til frádráttar gjafa að vissu marki frá tekjum til tekjuskatts, sbr. 36. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt.
Af hálfu kæranda er þess krafist, að umrædd gjöf verði viðurkennd til frádráttar svo sem verið hafði gjaldárið 1978. Af vangá hefði fallið niður að veita heimild þessa gjaldárið 1979 og verið sé að ráða bót á þeim mistökum.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur:
„Ríkisskattstjóri veitti ekki heimild til að gjafir til Jötusystkina yrðu frádráttarbærar á gjaldárinu 1979 sbr. 36. gr. reglugerðar nr. 245 31. des. 1963 um tekju- og eignarskatt, því verður að krefjast staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.“
Með vísan til 36. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. D-lið 12. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.