Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 129/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 40/1978, 100. gr.   Lög nr. 68/1971, 7. gr. D-liður, 37. gr.  

Vaxtatekjur — Skuldabréf — Málsmeðferð skattstjóra — Athugasemd við málsmeðferð skattstjóra — Viðurlög

Tildrög máls þessa eru þau, að skattstjóri ritaði kæranda fyrirspurnarbréf þar sem þess er farið á leit, að kærandi gerði grein fyrir vaxtatekjum af skuldabréfi, en samkvæmt framtali annars aðila átti kærandi skuldabréf að upphæð 1 545 474 kr., sem hafði borið vexti 373 489 kr. í svari kæranda, sem barst símleiðis, upplýsti hann að þetta tiltekna skuldabréf hafi gengið til kaupa á bifreið, kaupverð 1 150 000 kr. Skuldabréfið hafi verið að upphæð 2 000 000 kr. og hafi seljandi fengið það í hendur. Hins vegar kom ekki fram hvernig eða hvort áföllnum vöxtum var skipt á milli aðila, er kaupin fóru fram. Skattstjóri taldi upplýsingar um þetta atriði svo óljósar, að hann bætti vöxtum að upphæð 373 489 kr. auk 15% viðurlaga við tekjur kæranda.

Umboðsmaður kæranda mótmælir þessu. Kærandi hafi ekki fengið neina vexti greidda af fyrrgreindu skuldabréfi, þeir hafi allir runnið til móttakanda bréfsins. Er þess krafist að umrædd hækkun verði felld úr gildi.

Af hálfu ríkisskattstjóra er gerð svofelld krafa:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Í gögnum málsins kemur fram, að kaupdagur bifreiðarinnar var 22. mars 1978, en gjalddagi skuldabréfsins var 15. júní 1978. Hvorki liggja að öðru leyti fyrir upplýsingar um ákvæði skuldabréfsins né samningskjör kæranda og seljanda bifreiðarinnar. Ætla verður þó, að við greiðslu á andvirði bifreiðarinnar hafi verið tekið tillit til áfallinna en ógjaldfallinna vaxta af skuldabréfinu á kaupdegi hennar. Verður því að telja að kærandi hafi haft á árinu 1978 vaxtatekjur af margnefndu skuldabréfi. Þar sem fjárhæð þeirra liggur ekki fyrir verður að áætla hana. Þykir hún hæfilega áætluð 287 500 kr. og lækkar vaxtafærsla skattstjóra í samræmi við það. Að virtum atvikum þykja eigi efni til beitingar viðbótarálags vegna vanfærslu kæranda á umræddum vöxtum.

Það athugast, að skattstjóri lagði til grundvallar í kæruúrskurði sínum munnlegar skýringar kæranda í símtali hinn 20. apríl 1979. Er það andstætt 4. málslið 1. mgr. 37. gr.laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt, en samkvæmt orðum þess málsliðar þurfa skýringar skattaðila að vera gefnar skriflega.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja