Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 130/1980
Söluskattur 1978
Lög nr. 10/1960, 13. og 21. gr.
Söluskattur — Viðurlög — Málsmeðferð áfátt
Málavextir eru þeir, að kærandi, sem var rafveita, taldi fram til söluskatts fyrir öll söluskattstímabil ársins 1978. í ágúst 1979 skilaði kærandi söluskattsskýrslu, er tjáðist vera fyrir tímabilið júlí 1979. Sú skýring var gefin á söluskattsskýrslunni, að framtalin velta á henni væri vegna orkusöluuppgjörs 1978. Hinn 30. ágúst 1979 reit skattstjóri kæranda bréf þar sem hann staðfestir móttöku sína á nefndri skýrslu. Síðan segir svo í bréfinu: „Áður en skýrsla þessi verður tekin til úrskurðar, óskast upplýst á hvaða mánuðum ársins 1978 hin söluskattsskylda velta myndaðist og hve mikil upphæð á hverjum mánuði fyrir sig . Skriflegt svar berist skattstjóra innan 10 daga frá dagsetningu bréfs þessa, að öðrum kosti verður áætlað um þetta atriði við ákvörðun viðurlaga.“ Sama dag og bréf skattstjóra er dagsett svaraði kærandi bréfi skattstjóra og segir í því bréfi m.a.:
„Aflgjald, sem er árlegt gjald, er í ársbyrjun áætlað með hliðsjón af aflúttekt fyrra árs og greiðslum jafnað í 12 mánaðarlegar greiðslur og er söluskattur og verðjöfnunargjald jafnóðum greiddur af áætluðu afli.
Við uppgjör reikninga er aflesið mesta mælt afl ársins og mismunur annað hvort endurgreiddur eða krafinn hjá viðkomandi aðilum. Ástæða fyrir því hve há þessi upphæð var á árinu 1978 stafar af að við endurskoðun reikninga kom fram skekkja í mælingu hjá F h.f. Þess má geta að þessi mismunur hefur ekki verið greiddur.“
Hinn 1. nóvember 1979 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í málinu. Segir svo í forsendum úrskurðarorðanna:
„Með bréfi, dags. 30. ágúst 1979, var óskað eftir að þér upplýstuð á hvaða mánuðum ársins 1978 hin framtalda sölugjaldsskylda velta á viðbótarsöluskattsskýrslu yðar myndaðist, að öðrum kosti yrði áætlað um það atriði við ákvörðun viðurlaga. Í svarbréfi yðar, dags. 30. ágúst 1979, skýrið þér ástæður þess að þessi viðbót myndaðist, en ekki á hvaða tímabilum ársins og verður því að áætla um það atriði. Þykir eðlilegt að telja viðbótina hafa myndast jafnt á söluskattstímabilum ársins og viðurlög ákveðin til greiðsludags verða því sem hér segir ...“
Í niðurlagi úrskurðarins segir svo:
„Kærufrestur til ríkisskattanefndar er 21 dagur frá dagsetningu þessa úrskurðar.“
Kærandi hefur skotið málinu til ríkisskattanefndar og er kæran móttekin hinn 12. nóvember 1979. Af kærunni verður ráðið, að kærandi unir ekki beitingu viðurlaga vegna síðbúinna söluskattsskila. Vísar hann í því sambandi til tilhögunar þeirrar, sem er á uppgjöri við raforkukaupendur, svo og til þess, að fram hafi komið mæliskekkja hjá einum þeirra.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur í málinu:
„Meðan ekki liggur fyrir neinn annar hugsanlegur skiptigrundvöllur hinnar vanframtöldu fjárhæðar, t.d. áætlun um orkunotkun umræddrar fiskmjölsverksmiðju, miðuð við árstíma, vertíðir o.þ.u.1., þykir bera að gera kröfu um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Samkvæmt 13. gr. laga nr. 10 frá 22. mars 1960 um söluskatt geta þeir, sem ekki vilja sætta sig við ákvörðun skattstjóra á söluskatti, kært þá ákvörðun til þeirra innan 10 daga frá því að skattur var ákveðinn. Úrskurðum þeirra má skjóta til ríkisskattanefndar innan 15 daga frá dagsetningu úrskurðar skattstjóra.
Samkvæmt gögnum málsins var viðurlagabeiting skattstjóra fyrst ákvörðuð í kæruúrskurði hans. Er það andstætt 1. mgr. 21. gr. og 1. mgr. 13. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt, með síðari breytingum, þar eð kæranda var eigi gefinn kostur á að kæra viðurlagabeitinguna til skattstjóra. Þykir af þeim sökum eigi verða hjá því komist að ómerkja hinn kærða úrskurð og ógilda þannig ákvörðun skattstjóra um beitingu viðurlaga og fjárhæð þeirra. Verður þá ekki nú tekin afstaða til þess hvort heimild 6. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1960 um söluskatt, sbr. 6. mgr. 13. gr. laga nr. 10/1974 um skattkerfisbreytingu, komi til álita um niðurfellingu viðurlaga í tilviki kæranda. Samkvæmt þessari niðurstöðu eru kröfur kæranda teknar til greina og er fjárhæð þeirra viðurlaga sem greinir í hinum kærða úrskurði felld niður.