Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 156/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 30/1970, 11. og 12. gr.   Lög nr. 68/1971, 37. gr.  

Málsmeðferð áfátt — Skyldusparnaður skv. lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins

Kærð er sú breyting skattstjóra á framtali kæranda gjaldárið 1979 að strika út skyldusparnað kr. 1 107 226 sem færður var til frádráttar á framtali.

Í fyrsta lagi krefst umboðsmaður kæranda þess, að breyting þessi verði felld úr gildi, þar eð skattstjóri hafi ekki gætt ákvæða 37. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í öðru lagi tekur umboðsmaður kæranda fram, að þrátt fyrir að kærandi hafi fengið úthlutað lóð fyrir hús á árinu 1977 og þá hafið framkvæmdir við grunn, eigi ákvæði 11. og 12. gr. laga nr. 30/1970 ekki við í tilviki kæranda, enda hafi kærandi ekki verið undanþeginn sparnaðarskyldu árið 1978.

Af hálfu ríkisskattstjóra er gerð svofelld krafa:

„Ljóst er að kærandi er að byggja sér íbúðarhúsnæði, og hófust framkvæmdir á árinu 1977 og er haldið áfram á árinu 1978. Má því ljóst vera að hann er undanþeginn sparnaðarskyldu. Þykir því bera að krefjast staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

Í máli þessu er upplýst, að skattstjóri tilkynnti kæranda ekki um þá breytingu, er hann gerði á framtali kæranda. Þessi málsmeðferð er andstæð 3. ml. 1. málsgr. 37. gr. laga nr. 68/1971. Ber því að taka kröfu kæranda til greina og ógilda breytingu skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja