Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 176/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 37. og 38. gr.  

Vefenging skattframtals — Framfærslueyrir — Viðskipti nákominna

Málavextir eru þeir, að skattstjóri hækkaði tekjur kæranda um 1 500 000 kr. auk 25% viðurlaga 375 000 kr. eða alls um 1 875 000 kr. vegna afbrigðilega lágs framfærslueyris. Byggði skattstjóri á því að framfærslueyrir kæranda hefði verið neikvæður um 1 547 411 kr. þegar tillit hefði verið tekið til gjalda og eignabreytinga. Ekki féllst skattstjóri á skýringar kæranda, er einkum lutu að hlutdeild föður hans í viðskiptum með bifreiðar. Að teknu tilliti til þeirra skýringa hefði framfærslueyrir kæranda talist jákvæður um 702 589 kr.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að teknaviðbót skattstjóra verði niður felld. Er í fyrsta lagi vísað til yfirlýsinga kæranda og föður hans, dags. þann 22. júní 1979 viðvíkjandi bifreiðaviðskiptum. Skiptir í því efni máli sú staðhæfing að kærandi hafi átt helmingshlut í bifreiðinni R-..., sem er Volvo árg. 1974, keypt á árinu 1977 á kr. 2 200 000 og seld 1. ágúst 1978 á 2 800 000 kr. og eru viðskipti þessi tilgreind á framtali föður kæranda. Þá er föður kæranda talinn eignarhluti að fjórðungi í bifreiðinni Ö-... Fiat 132 árg. 1978 keyptri á árinu 1978 fyrir 3 400 000 kr. Kaup á bifreið þessari eru tilgreind á framtali kæranda 1979. Að teknu tilliti til þessara atriða nemur framfærslueyrir kæranda 702 589 kr. Á þessum framfærslueyri er einkum sú skýring gefin að kærandi sé einhleypur og hafi að miklu leyti dvalist á heimili foreldra sinna.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Kærandi styður kröfu sína engum þeim gögnum sem sanna hlut föður hans í bifreiða-viðskiptum. Þykir því bera að krefjast staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

Svo sem gögn málsins liggja fyrir þykir eigi nægjanlegt tilefni til þess að vefengja framkomnar skýringar um sameiginlega þátttöku kæranda og föður hans í viðskiptum með bifreiðar þær, er í málinu greinir. Með vísan til þessa og með hliðsjón af aðstæðum kæranda svo sem þeim er lýst í gögnum málsins þykir mega fella niður hinn umdeilda tekjuauka alls 1 875 000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja