Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 180/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður 4. mgr.  

Söluágóði — Íbúðarhúsnæði — Sönnun

Málavextir eru þeir, að skattstjóri reiknaði kæranda til skattskyldra tekna ágóða af sölu íbúðarhúsnæðis að ...holti, 2 210 666 kr. íbúðarhúsnæði þetta seldi kærandi á árinu 1978 og var söluverð 18 000 000 kr. Veittur afsláttur til kaupanda vegna galla nam 350 000 kr. og kostnaðarverð hússins skv. húsbyggingarskýrslu 7 264 475 kr. Ágóði af sölunni nam skv. þessu 10 885 525 kr. Hið selda íbúðarhúsnæði var 451 m3 að stærð. Kærandi keypti á árinu 1978 hluta í íbúðarhúsnæði að ...götu. Húsnæði þetta var 573 m3 að stærð alls. Lagði skattstjóri til grundvallar, að eignarhlutdeild kæranda hefði numið 62% af hinu keypta húsnæði eða 355 m3 og færði kæranda til skattskyldra tekna ágóða af sölunni hlutfallslega eftir rúmmálsstærðum þessum skv. ákvæðum 4. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. skattalaga.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að skattskyldur söluágóði verði lækkaður, enda hafi eignarhlutdeild kæranda í hinu keypta húsnæði verið meiri að rúmmáli en skattstjóri lagði til grundvallar. Kröfu sinni til stuðnings vísar kærandi til framlagðs vottorðs byggingarfulltrúa ...bæjar, dags. þann 30. október 1979, þar sem hlutur kæranda í hinni keyptu eign er tilgreindur 371 m3.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Eftir atvikum þykir mega gera kröfu um að fallist verði á kröfur kæranda um að skattskyldur söluhagnaður íbúðarhúss verði lækkaður til samræmis við framkomnar upplýsingar um stærð og eignarhlutfall hans í ...götu.“

Fallist er á kröfur kæranda með skírskotun til nú framlagðra gagn a. Með vísan til 4. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, ber að telja kæranda til skattskyldra tekna söluágóða að fjárhæð 1 842 226 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja