Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 181/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 10. gr. E-liður  

Vinna við eigin íbúð — Tekjufærsla — Tekjuár

Málavextir eru þeir, að skattstjóri færði kæranda til tekna á framtali árið 1979 eigin vinnu við íbúðarhúsnæði að fjárhæð 445 000 kr. íbúðarhúsnæði þetta seldi kærandi með kaupsamningi, dags. þann 31. október 1977, en afsal fór fram um mánaðarmótin ágúst/september 1978. Vinna þessi var lögð fram árin 1973—1975. Taldi skattstjóri nefnda eigin vinnu falla til skattlagningar við söluna skv. ákvæðum E-liðs 10. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Hins vegar færði skattstjóri kæranda umrædda eigin vinnu til tekna á framtali árið 1979, en fór við ákvörðun tekjuskatts vegna þessarar tekjufærslu eftir þeim reglum, er giltu við álagningu gjaldárið 1978.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að tekjuviðbót vegna eigin vinnu verði niður felld, m.a. með vísan til þess að hann hafi vegna atvinnuþarfa orðið að flytjast búferlum til Akureyrar og selja húseign sína í Kópavogi. Til vara krefst kærandi þess að fjárhæð skattskyldrar eigin vinnu verði lækkuð um helming frá því er skattstjóri ákvað á þeim forsendum, að eiginkona hans hafi innt af höndum helming þeirrar eigin vinnu, er tilgreind hafi verið á húsbyggingarskýrslum.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda verður ekki annað séð en þar sé gengið að kröfum kæranda að því marki sem mögulegt er.“

Skattstjóri færði kæranda til tekna gjaldárið 1979 eigin vinnu við byggingu íbúðar til eigin afnota, er seld var á árinu 1977. Eigi verður talið, að tekjur þessar sé unnt að skattleggja gjaldárið 1979. Þegar af þeirri ástæðu er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja