Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 184/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 37. og 47. gr.  

Svar við fyrirspurn — Svarfrestur — Málsmeðferð — Bifreiðakostaður — Sönnun

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda gjaldárið 1979 að fella niður gjaldfærðan bifreiðakostnað að fjárhæð 162 000 kr.

Af hálfu kæranda er þess í fyrsta lagi krafist, að breyting skattstjóra verði úr gildi felld þar sem ekki hafi verið gætt þess að tilkynna kæranda um útstrikun hins umdeilda gjaldaliðs og ákvæði 1. mgr. 37. gr. skattalaga því ekki virt. Í öðru lagi er þess krafist, að gjaldfærður bifreiðakostnaður verði að fullu tekinn til greina, enda hafi kærandi veruleg not bifreiðarinnar til beinnar tekjuaukningar við rekstur tannlækningastofu og sem starfandi skólatannlæknir.

Af hálfu ríkisskattastjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur: „Ekkert kemur fram í kærunni sem gæti gefið tilefni til breytinga á áður gerðum úrskurði skattstjóra, og er því krafist staðfestingar á honum.“

Með bréfi sínu dags. 21. júní 1979 tilkynnti skattstjóri að fyrirhugað væri „að strika út frádreginn bifreiðakostnað 162 000 kr.“ Var svarfrestur veittur til 29. júní s.m. Kærandi svaraði bréfi þessu með bréfi dags. 27. júní. Hefur skattstjóri skráð eftirfarandi á bréfið: „Mótt. 3/7 ‘79. Kæra.“ Í bréfinu gerir kærandi grein fyrir notkun bifreiðarinnar í þágu teknaöflunar sinnar.

Með bréfi dags. 20. júlí 1979 tilkynnti skattstjóri kæranda svofellda breytingu á skattframtali hans: „Frádreginn bifreiðakostnaður 162 000 kr. hefur verið strikaður út.“ Skattskrá var lögð fram hinn 25. júlí 1979. Með bréfi dags. 30. júlí 1979 krafðist kærandi ógildingar á ákvörðun skattstjóra. Skattstjóri skráði á bréf þetta: „Kæra — mótt. 8/8 '79.“ Hinn 24. september s.á. kvað skattstjóri upp kæruúrskurð, sem kærandi hefur skotið til ríkisskattanefndar.

Svarbréf kæranda við fyrirspurnarbréfi dags. 21.júní barst skattstjóra eftir veittan svarfrest og bar því skattstjóra að taka svarið sem kæru, hvort sem breytingin var gerð eftir álagningu eða ekki, sbr. þá reglu sem fram kemur í 1. ml. 6. mgr. 47. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt.

Að þessu athuguðu og að öðru leyti með hliðsjón af gangi málsins, sem rakinn er hér að framan, verður að telja að skattstjóri hafi gætt reglna 1. mgr. 37. gr. nefndra laga er hann framkvæmdi umræddar breytingar á skattframtali kæranda.

Svo sem gögn máls þessa liggja fyrir þykir kærandi eigi hafa sannað nægilega notkun bifreiðar í þágu þeirrar sjálfstæðu starfsemi, sem hann hefur með höndum. Þykir því bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja