Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 194/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 11. og 41. gr.  

Viðhaldskostnaður — Kæruheimild ríkisskattstjóra

Kærandi krefst þess, að veitt verði til frádráttar sem viðhaldskostnaður við íbúðarhúsnæði gjaldárið 1979 eftirgreindir liðir: 1) Kaupverð gólfteppis 203 800 kr. 2) þilplötur, málning o. fl. 86 379 kr. og 3) hluti í sameiginlegu viðhaldi 55 074 kr. eða samtals 345 253 kr. Skattstjóri hafði heimilað kæranda til frádráttar fjárhæð þá, er greinir í 2. tl. hér að framan í samræmi við framlagða reikninga en að öðru leyti synjað um frekari frádrátt, þar sem gögn höfðu ekki borist.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Engin grein er gerð fyrir því í kærunni í hverju sameiginlegt viðhald er fólgið og þykir því bera að krefjast staðfestingar á úrskurði skattstjóra í því efni.

Samkvæmt nótu er kæru fylgir hefur kærandi keypt gólfteppi fyrir 203 800 kr. en gerir enga nánari grein fyrir þeim kostnaði, þó þykir eftir atvikum hægt að krefjast þess að leyfður verði til frádráttar 30% þess kostnaðar sem frádráttarbært viðhald.“

Í gögnum málsins kemur fram, að kærandi eignaðist umrædda íbúð þann 6. maí 1978. Með tilliti til þessa skamma eignarhaldstíma þykir skattstjóri hafa veitt kæranda ríflegan frádrátt sem viðhaldskostnað. Með því að ríkisskattstjóri hefur hvorki neytt heimildar eftir 41. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, til að kæra til hækkunar né gert kröfu um hækkun í þessu máli, þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra að niðurstöðu til.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja