Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 217/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 35/1960, 7. gr.   Lög nr. 68/1971, 25. gr. B-liður, sbr. lög nr. 11/1975, 9. gr.  

Skattlagning sambýlisfólks — Skattumdæmi — Lögheimili

Málavextir eru þeir að kærendur töldu fram til skatts gjaldárið 1979 og skiluðu sameiginlegu skattframtali, sem þau undirrituðu bæði. Var á það skráð, að þau byggju í óvígðri sambúð og væri heimili þeirra í Reykjavík. Upplýstu þau einnig, að þau hefðu átt barn saman á árinu 1978. Við álagningu opinberra gjalda nefnt gjaldár féllst skattstjóri eigi á samsköttun og voru kærendur því sérskattaðir það ár. Skattlagningin fór fram í tveimur skattumdæmum, þar sem kærendur voru skráðir með lögheimili hvor í sínu sveitarfélaginu hinn 1. desember 1978. Ákvörðun skattstjóra var kærð til hans, og kæruúrskurður kveðinn upp hinn 29. ágúst 1979. Staðfesti skattstjóri fyrri ákvörðun sína með vísan til þess að kærendur hefðu ekki átt sameiginlegt lögheimili hinn 1. desember 1978. Kærendur hafa skotið máli þessu til ríkisskattanefndar og krefjast þeir samsköttunar.

Af hálfu ríkisskattstjóra er krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Að virtum aðstæðum kærenda, er fram koma í gögnum málsins, er fallist á kröfur þeirra um samsköttun. Skulu kærendur skattlögð í skattumdæminu Reykjavík vegna gjaldársins 1979 með vísun til 7. gr. laga nr. 35/1960 um lögheimili.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja