Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 225/1980

Gjaldár 1979

Reglugerð nr. 245/1963, 34. gr.   Lög nr. 68/1971, 12. gr., 13. gr.  

Réttindaflutningur milli lífeyrissjóða — Lífeyrissjóður — Frádráttarbærni — Vaxtagjöld

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar á framtali sínu kostnað vegna flutnings réttinda milli lífeyrissjóða, úr Lífeyrissjóði Verkfræðingafélags íslands í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Nam fjárhæð þessi 415 417 kr. Skattstjóri skipti greiðslu þessari til frádráttar á fimm árum með hliðsjón af ákvæðum 3. mgr. D-liðs 13. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 4. mgr. B-liðs 34. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Í samræmi við þetta lækkaði skattstjóri hinn tilfærða frádrátt um 332 334 kr. eða úr 415 417 kr. í 83 083 kr. til frádráttar gjaldárið 1979.

Kærandi krefst þess aðallega, að umrædd fjárhæð 415 417 kr. verði leyfð til frádráttar í einu lagi gjaldárið 1979, þar sem hér hafi verið um að ræða flutning réttinda, en ekki réttindakaup svo sem eftirgreind sundurliðun frádráttarliðar þessa sýni:

Kr.
„Mism. iðgjalda (eigið framlag 4,25% á móti 4%) ......................... 21 985
Reksturskostn. lífeyrissjóðs VFÍ ..................................................... 52 766
Vextir (mismunur vaxta, útgjöld) .................................................... 340 666
415 417‘‘

Til vara gerir kærandi þá kröfu, að litið verði á mismun iðgjalda, 21 985 kr., sem réttindakaup til afskriftar á 5 árum, en reksturskostnað lífeyrissjóðs VFÍ og vaxtakostnað, 52 766 kr. og 340 666 kr., sem kostnað til afskriftar á einu ári.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Ekki verður annað séð en að um kæruefnið séu ákvæði reglugerðar nr. 245/1963 4. mgr. B-liðar 34. gr. svo afdráttarlaus að það þykir ekki annað fært en að krefjast staðfestingar á úrskurði skattstjóra.“

Í lögum um tekju- og eignarskatt er ekki bein heimild til að draga frá tekjum á einu ári greiðslur slíkar er um ræðir í þessu máli. Hins vegar þykir mega heimila hina umþrættu greiðslu til frádráttar á næstu 5 árum frá því hún var innt af hendi, enda verður litið svo á, að hér sé ekki um að ræða eiginleg vaxtagjöld heldur sérstaka útreikningsaðferð við réttindaflutning milli lífeyrissjóða.

Í tilefni af varakröfu kæranda skal tekið fram, að eigi verður talið, að hér sé um frádráttarbær vaxtagjöld að ræða, heldur skuli með fara eftir reglum um kaup lífeyrissjóðsréttinda. Með þessum athugasemdum er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja