Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 232/1980

Gjaldár 1978

Reglugerð nr. 81/1962, 7. gr.   Lög nr. 8/1972   Reglugerð nr. 245/1963, 27. gr.   Lög nr. 68/1971, 11. gr.  

Rekstrarkostnaður — Risna — Villandi heiti á frádráttarlið — Aðstöðugjald — Fjölþætt starfsemi — Ófullnægjandi greinargerð um aðstöðugjaldsstofn

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1978 að lækka gjaldfærðan „þróunarkostnað“ á rekstrarreikningi fyrir árið 1977 um 350 000 kr. eða úr 487 354 kr. í 137 354 kr. Með bréfi, dags. þann 5. febrúar 1979, krafði skattstjóri kæranda m.a. um sundurliðun og greinargerð um gjaldalið þennan. Í svari kæranda, dags. þann 16. febrúar 1979, kom fram, að hinn umdeildi gjaldaliður var að mestu leyti vegna áfengis- og tóbakskaupa hjá Á.T.V.R. vegna aðalfundar kæranda svo og heimsókna innlendra og erlendra viðskiptavina. Í framhaldi af svarbréfi kæranda lækkaði skattstjóri kostnað þennan um 350 000 kr. vegna áætlaðra einkanota og með tilliti til ófullnægjandi svars.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að allur hinn gjaldfærði kostnaður verði að fullu tekinn til greina svo sem hann var tilgreindur í rekstrarreikningi að undanskildum 36 960 kr., er kærandi fellst á að fellt sé niður. Vísar kærandi til þess, að hann reki útflutningsverslun og flytji út lýsi og mjöl til 155 viðskiptaaðila í 63 löndum og hafi auk þess með höndum umfangsmikla umboðssölu fyrir innlenda aðila. Megi ljóst vera, að rekstur sem þessi kalli óhjákvæmilega á útgjöld á borð við þau og um er þrætt í máli þessu. Þá fer kærandi fram á lækkun álagðs aðstöðugjalds um 7 247 kr. vegna tvífærslu til gjalda við leiðréttingu vegna mistaka í bókhaldi svo sem nánar sé gerð grein fyrir í svarbréfi kæranda til skattstjóra, dags. þann 16. febrúar 1979.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Fyrirspurn skattstjóra um þann hluta gjaldfærðra útgjalda er gegnir heitinu „þróunarkostnaður“ í ársreikningum kæranda var svolátandi:

„Með tilvísun til laga um tekjuskatt og eignarskatt, er hér með skorað á yður að láta í té skýringar á neðanskráðum atriðum varðandi skattframtal yðar árið 1978.

Upplýsingar um þróunarkostnað:

a. Sundurliðun á þróunarkostnaði.

b. Nánari greinargerð varðandi þróunarkostnað, þ.e. skýringar á nauðsyn hvers kostnaðarliðar skv. sundurliðuninni og tengslum við þá aðila, sem notið hafa þróunarkostnaðar hjá fyrirtækinu.“

Af sundurliðun kæranda og svari varð séð að 443 534 kr. af 487 354 kr. kostnaði þessum var vegna viðskipta kæranda við áfengisverslanir og kvað kærandi hann stafa af kostnaði við aðalfund sinn og „heimsóknir“ viðskiptavina á árinu 1977.

Samkvæmt samtalningsblaði hlutafjár eru hluthafar kæranda fjórir þannig að kostnaður við fund þeirra fjórmenninganna getur vart hafa verið mældur í hundruðum þúsunda króna. Því verður að gera ráð fyrir að mestur hluti kostnaðarins sé vegna tengsla við viðskiptamenn, en á því fylgir engin sundurliðun eða skýring.

Á það skal bent að rekstur kæranda virðist fólginn í framleiðslu, sölu og umsýslu með tiltölulega einhæfa vörutegund og gera verður ráð fyrir að viðskiptasambönd kæranda séu vart þess eðlis að viðhald þeirra og trygging hafi krafist mjög verulegs kostnaðar á árinu 1977.

Með vísan til framanritaðs og að öðru leyti til allra málsgagna og upplýsinga er sú krafa gerð að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda virðist mat hans á ófrádráttarbærum hluta hins umdeilda kostnaðar hóflegt með hliðsjón af atvikum málsins.“

Kærandi hefur í rekstrarreikningi sínum fyrir árið 1977 fært til gjalda 487 354 kr. og er sá liður nefndur „Þróunarkostnaður“. Af kærugögnum er ljóst, að hér sé átt við ætlaða risnu vegna atvinnurekstrar kæranda. Í rekstrarreikningi fyrir árið 1976 er sambærilegur gjaldaliður nefndur „Risna“. Orðið „þróunarkostnaður“ er villandi í þeirri merkingu, er kærandi notar það.

Kærandi hefur að kröfu skattstjóra gert sundurliðaða greinargerð fyrir nefndum kostnaðarlið. Hefur hann upplýst, að 443 534 kr. sé tiltekinn kostnaður „vegna aðalfundar félagsins, svo og vegna heimsókna innlendra og erlendra viðskiptavina“. Ekki er gerð grein fyrir því, hve mikill hluti af kostnaði þessum sé vegna aðalfundar félagsins. Þó hefur kærandi upplýst, að 36 960 kr. séu vegna eplagjafa til starfsfólks og hefur hann fallist á, að hér sé um ófrádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða.

Kærandi þykir ekki hafa gert þá grein fyrir nefndum kostnaði, að hann teljist allur til kostnaðar við öflun tekna í atvinnurekstri hans skv. A-lið 11. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. og 2. ml. H-liðar 27. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með hliðsjón af öllu framansögðu er úrskurður skattstjóra staðfestur varðandi þennan lið í kæru kæranda.

Kærandi óskar eftir því, að ríkisskattanefnd leiðrétti álagt aðstöðugjald og lækki það um 7 247 kr. Við athugun á ársreikningi kæranda kemur í ljós, að hann hefur auk sölu afurða sinna haft tekjur af umboðslaunum og útleigu eigna. Þessi starfsemi er eigi í sama gjaldstigi og aðalstarfsemi kæranda er í. Hefur ekki verið tekið tillit til þess við álagningu aðstöðugjalds, enda hefur kærandi ekki gert fullnægjandi grein fyrir hvað af útgjöldum hans tilheyra hverjum einstökum gjaldflokki. Þá hefur við útreikning á aðstöðugjaldsstofni eigi verið tekið tillit til birgðaminnkunar, endurgreidds kostnaðar og þeirra leiðréttinga, er kærandi óskar eftir að gerðar verði. Eins og framtalsgerð kæranda er háttað verður aðstöðugjaldsstofn ekki fundinn út með öruggum hætti að því er varðar skiptingu milli rekstrarútgjalda vegna afurða sölu annars vegar og öflunar umboðslaunatekna og leigutekna hins vegar. Verður því að áætla þessa skiptingu, sbr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 81/1962, um aðstöðugjald. Þykir mega miða skiptingu rekstrarútgjalda, annarra en vöru- og umbúðanotkunar svo og annars áætlaðs beins kostnaðar vegna aðalstarfsemi kæranda, milli kostnaðar við vörusölu og kostnaðar við öflun umboðslauna og leigutekna við hlutfallið milli brúttótekna af vörusölu annars vegar og umboðslaunatekna og leigutekna hins vegar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja