Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 394/1992
Gjaldár 1988
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 59. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. Lög nr. 46/1987 — 4. gr. 3. mgr.
Reiknað endurgjald — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Eigin atvinnurekstur — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Reiknað endurgjald, ákvörðun skattstjóra — Ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Launatekjur, yfirfærðar — Yfirfærðar launatekjur — Skattlagning hluta reiknaðs endurgjalds sem yfirfærðra launatekna — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra til ákvörðunar á reiknuðu endurgjaldi — Viðmiðunarflokkur reiknaðs endurgjalds — Andmælareglan — Rökstuðningur — Rökstuðningur ákvarðana skattstjóra — Rökstuðningi áfátt — Málsmeðferð áfátt
I.
Málavextir eru þeir, að kærandi, sem stundar vörubifreiðarakstur, reiknaði sér endurgjald vegna vinnu sinnar við þessa starfsemi gjaldárið 1988 1.298.308 kr. sem hann færði sér til tekna í skattframtali sínu árið 1988. Fjárhæð reiknaðs endurgjalds kæranda gjaldárið 1987 vegna sömu starfsemi nam 400.000 kr.
Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 11. desember 1989, og að fengnu svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 14. desember 1989, boðaði skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 31. janúar 1990, skattlagningu á hluta reiknaðs endurgjalds gjaldárið 1988 sem yfirfærðra tekna, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í bréfinu tók skattstjóri hins vegar fram, að fyrirhugað væri „að lækka reiknað endurgjald yðar í kr. 928.000.- sem er hið hæsta lögleyfða fyrir bifreiðarstjóra og er í samræmi við kæru yðar frá 25.08. 1988“. Ekki verður séð, að þessu bréfi hafi verið svarað af hálfu kæranda. Hinn 23. febrúar 1990 tilkynnti skattstjóri kæranda um framkvæmd hinnar boðuðu breytingar og endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1988, sem leiddi af henni. Af málsgögnum sést, að skattstjóri hefur í raun lækkað fjárhæð reiknaðs endurgjalds um 370.308 kr. og hækkað hreinar tekjur kæranda um þá fjárhæð. Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 3. mars 1990. Með kæruúrskurði, dags. 17. maí 1990, vísaði skattstjóri kærunni frá sem vanreifaðri.
II.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur frávísunarúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 24. maí 1990, og boðað, að nánari greinargerð yrði send síðar. Í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 4. júlí 1990, er gerð grein fyrir kröfum og rökstuðningi. Krafan er sú, að breyting skattstjóra verði felld úr gildi. Byggir umboðsmaðurinn í fyrsta lagi kröfu sína á því, að málsmeðferð skattstjóra hafi verið þeim ágöllum haldin, að þegar af þeim sökum beri að ómerkja breytinguna. Í því sambandi telur umboðsmaðurinn, að á skorti um rökstuðning fyrir hinni kærðu breytingu svo sem hann gerir nánari grein fyrir. Í öðru lagi telur umboðsmaðurinn, að ákvörðun fjárhæðar reiknaðs endurgjalds gjaldárið 1988 af hendi kæranda sé innan þeirra marka, sem sett eru í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda.
III.
Með bréfi, dags. 25. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„Þess er krafist að ríkisskattanefnd hafni kröfu kæranda og að skattlagðar verði yfirfærðar tekjur kæranda skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987 eins og skattstjóri ákvarðaði þær.“
IV.
Við meðferð máls þessa hefur skattstjóri ýmist byggt á því, að reiknað endurgjald kæranda gjaldárið 1988 væri efnislega ofmetið, sbr. 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eða að um yfirfærðar tekjur hafi verið að ræða, er skattleggja beri samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Slíkir meinbugir voru því á málsmeðferð skattstjóra að óhjákvæmilegt er að hnekkja hinni kærðu breytingu af þeim sökum.