Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 273/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 16. gr.  

Námsfrádráttur — Skattmat

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar á framtali sínu árið 1979 greidd skólagjöld vegna náms eiginkonu í Söngskólanum í Reykjavík veturinn 1978—1979 að fjárhæð 108 000 kr., svo og námskeiðsgjöld vegna söngnámskeiðs 10 000 kr. Þá var færður til frádráttar bóka- og gagnakostnaður vegna náms þessa 27 004 kr. Jafnframt óskaði kærandi eftir því í framtali sínu og bréfi, er því fylgdi, að skattstjóri veitti námsfrádrátt vegna náms eiginkonunnar við nefndan skóla, enda væri sýnt, að veita bæri slíkan frádrátt engu síður en t.d. vegna kennaranáms við Tónlistarskólann í Reykjavík. Námsbraut þessi væri ný og því ekki tilgreind í gjaldamati ríkisskattstjóra, B-lið. Þá var þess og óskað, að veittur yrði námsfrádráttur vegna þátttöku eiginkonunnar í 3 vikna ljóðasöngsnámskeiði fyrir atvinnusöngvara (Wiener-Meisterklasse). Væri hér ótvírætt um framhaldsnám að ræða, er frádráttarbært væri. Þátttökugjald hefði numið 3 000 A. sch.

Með úrskurði, dags. þann 10. október 1979, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, þar sem skólavottorð lægi ekki fyrir.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar og ítrekar áður gerðar kröfur. Kæru fylgdi vottorð Söngskólans í Reykjavík, dags. þann 29. október 1979, um námsvist eiginkonu kæranda við kennaradeild skólans veturinn 1978—1979 og jafnframt staðfest, að skólagjöld 108 000 kr. hafi að fullu verið greidd fyrir 31. desember 1978.

Með hliðsjón af námsefni og námskröfum og með tilvísan til fyrrnefnds söngkennaranáms, er virt hefur verið til frádráttar í gjaldamati, fer kærandi fram á, að leyfður verði námsfrádráttur vegna þessa að fjárhæð 305 000 kr.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Ekkert liggur fyrir að um sé að ræða samfellt nám sem atvinnuréttindi veitir. Eins og mál þetta er vaxið verður því að telja að um frádrátt vegna ástundunar söngmenntunar fari eftir reglum c-liðar 6. töluliðar í B-þætti III. kafla skattmats, útgefins 6. janúar 1979, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 68/1971, sjá 8. gr. laga nr. 11/1975.

Skattstjóri hefur þegar veitt frádrátt samkvæmt téðu ákvæði og er þess krafist að niðurstaða hans verði látin standa óhreyfð.“

Að virtu námi eiginkonu kæranda við kennaradeild Söngskólans í Reykjavík svo sem því er lýst í gögnum málsins þykir eftir atvikum mega veita námsfrádrátt vegna náms þessa með hliðsjón af mati ríkisskattstjóra á sambærilegu námi, sbr. skattmat framtalsárið 1979, dags. þann 6. janúar 1979, 1. tl. B-lið III. Samkvæmt þessu ákveðst námsfrádráttur vegna náms þessa 227 996 kr. og hefur þá verið tekið tillit til þess, að skattstjóri hefur þegar veitt til frádráttar bóka- og nótnakostnað vegna námsins 27 004 kr. Þá þykir mega veita frádrátt vegna námskeiðs eiginkonu kæranda erlendis á árinu 1978 er telst hæfilega ákveðinn 50 000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja