Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 275/1980

Gjaldár 1980

Lög nr. 68/1971, 9. gr.  

Varasjóður

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1978.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri hækkaði skattskyldar tekjur kæranda um 2 276 006 kr. með því að hann taldi, að kærandi hefði ekki haldið skilyrði 9. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, um meðferð skattfrjáls varasjóðs. Fjárhæð þessa felldi skattstjóri til skattgreiðslu með 20% álagi samkvæmt ákvæðum tilvitnaðrar greinar, er nam þannig 455 201 kr. Nam hin kærða tekjuhækkun því samtals 2 731 207 kr. Ákvörðun sína reisti skattstjóri á því, að fram kæmi í framtalsgögnum kæranda, að kærandi hefði veitt einum hluthafa lán, er væri allnokkru hærra lán en flestir viðskiptamenn kæranda nytu.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að ákvörðun skattstjóra verði hrundið, enda verði með engu móti á það fallist, að nefnd skuld eins hluthafa við kæranda geti varðað við ákvæði 9. gr. skattalaga um skattskylda ráðstöfun varasjóðs. Kærandi gerir þá grein fyrir skuld þessari, að hér sé um að ræða skuld eins hluthafa vegna vöruúttektar. Kærandi reki m. a. verslun með byggingarvörur og veiti viðskiptavinum sínum lán í því sambandi, svo sem fram komi í reikningum. Hafi hluthafinn í þessum efnum notið hliðstæðrar fyrirgreiðslu og almennt er veitt viðskiptavinum fyrirtækisins og ekkert umfram það. Hluthafinn hafi staðið í byggingu íbúðarhúss og átt viðskipti við fyrirtækið um kaup á byggingarvörum í því sambandi. Þá er á það bent, að vöruúttektin hafi verið sérstaklega vel tryggð, þar sem hluthafinn hafi jafnframt

verið starfsmaður fyrirtækisins. Af þeim sökum og með vísan til hags fyrirtækisins, svo sem hann liggi fyrir í ársreikningi, sé því víðs fjarri, að hagsmunum fyrirtækisins hafi verið stefnt í nokkra tvísýnu með þessum viðskiptum. Þá er á það bent, að umræddur hluthafi sé eigandi að 5% af heildarhlutafé í félaginu.

Ljóst megi því vera, sbr. niðurlagsákvæði A-liðs 1. mgr. 9. gr. laga nr. 68/1971, að hér hafi verið um að tefla viðskipti, er hafi verið í beinum tengslum við rekstur kæranda. Þá er lánssamanburði skattstjóra alfarið andmælt. Viðskipti nefnds hluthafa hafi verið færð á viðskiptayfirlit, er fylgt hafi skattframtölum, en skuldunautar og víxileign hafi verið gefin upp í ósundurliðaðri tölu, og ekki verði séð að skattstjóri hafi kynnt sér, hvernig sú tala sé saman sett. Hafi umrædd upphæð numið 331 051 507 kr. í árslok 1977 og megi fullyrða, að þar sé að finna margar tölur eins háar og hærri en margnefnd skuld.

Þá er af hálfu kæranda upplýst í kæru, að hin umþrættu viðskipti hluthafans og kæranda hafi verið gerð upp að fullu.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur:

„Ákvæði skattalaga, sjá 9. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 4. gr. laga nr. 7/1972, setja þröngar skorður á félög til ráðstöfunar á varasjóði án þess að til skattskyldu hans komi. Með vísan til þess og að öðru leyti til allra gagna málsins er sú krafa gerð að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Að virtum atvikum máls þessa verður eigi séð, að viðskipti þau, er málið snýst um séu óeðlileg eða rekstri kæranda óviðkomandi. Þykir því eigi leitt í ljós, að með þeim hafi kærandi brotið gegn ákvæðum A-liðs 1. mgr. 9. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 4. gr. laga nr. 7/1972, um breyting á þeim lögum. Ber samkvæmt þessu að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja