Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 276/1980

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 15. gr., 36. gr., 37. gr., 38. gr.  

Flýtifyrning — Gengistap — Rekstrarkostnaður — Risnukostnaður — Viðhaldskostnaður — Upplýsingaskylda — Vefenging skattframtals — Endurákvörðun — Áritun löggilts endurskoðanda

Kærðar eru eftirgreindar breytingar, er skattstjóri gerði á skattframtali kæranda gjaldárið 1977:

1. Skattstjóri felldi niður gjaldfærða flýtifyrningu gengistaps 230 496 kr. Kærandi fyrnti gengistap vegna m/s L um 15% + 6% eða alls 21%. Skattstjóri taldi óheimilt að flýtifyrna gengistap, þar sem flýtifyrning næði einungis til eigna, sem fyrna bæri eftir 1.—3. tl. C-liðs 15. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Gengistap þetta væri sérstakur eignaliður, sem fyrntist eftir vali skattþegns annað hvort á fimm árum eða á eftirstöðvum fyrningartíma hlutaðeigandi eignar og ekki skipti máli hvor leiðin væri valin að því er snerti heimild til flýtifyrningar, þar sem gengistapið fyrntist eftir ákvæðum 5. mgr. C-liðs 15. gr. skattalaga. Þá synjaði skattstjóri þeirri kröfu kæranda, að nefnt gengistap yrði fyrnt á fimm árum eða um 20% á ári eftir nefndri heimild í 5. mgr. C-liðs 15. gr. skattlaga og lækkun fyrningar yrði því aðeins 1% eða 38 416 kr. Byggði skattstjóri ákvörðun sína á þeirri forsendu, að fyrningarreglu yrði ekki breytt á fyrningartíma.

Kærandi ítrekar kröfu sína um að leyft verði að fyrna gengistapið á fimm árum (20%) þannig að offærðar fyrningar verði að þessu leyti aðeins taldar nema 38 416 kr. og tekjuhækkun skattstjóra lækkuð í samræmi við það.

  1. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að fella niður frádráttarliðinn „önnur risna“ að fjárhæð 1 437 800 kr. á þeim forsendum, að svar kæranda við fyrirspurn um þennan lið væri ófullnægjandi. Kærandi krefst þess með vísan til framlagðra skýringa í gjaldalið þessum og með vísan til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 137, dags. 9. mars 1979, að kostnaðarliður þessi verði að fullu tekinn til greina.
  2. Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að lækka gjaldfærðan viðhaldskostnað fasteigna um 5 000 000 kr. vegna ófullnægjandi svars við fyrirspurn um kostnað þennan, er nam samkvæmt rekstrarreikningi samtals 34 396 578 kr. Af hálfu kæranda er þess krafist, að allur gjaldfærður viðhaldskostnaður verði að fullu tekinn til greina.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur: „Í tilefni af kæru ofangreinds aðila til ríkisskattanefndar, dags. 7. júní 1979, en mótt. af ríkisskattstjóra 27. júlí 1979, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur f. h. gjaldkrefjanda.

  1. Fallist er á að kæranda sé heimilt að gjaldfæra gengismun eftir reglum lokamálsliðar 5. mgr. C-liðar 15. gr. laga nr. 68/1971.
  2. Greinargerð kæranda um svonefndan risnukostnað hans virðist ekki með þeim hætti að af henni verði ráðin óhjákvæmileg tengsl kostnaðarins við tekjuöflun og viðgang tekna. Um þennan þátt kæru er því gerð krafa um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda virðist mat hans á frádráttarbærum hluta hins umdeilda kostnaðar hæfilegt sé miðað við umfang starfsemi kæranda og eðli rekstrar þess sem hann hefur með höndum.
  3. Af svokölluðum viðhaldskostnaði, 31 270 957 kr., hefur skattstjóri bakfært 5 000 000 kr. Greinargerð kæranda um þetta atriði er nánast engin. Með hliðsjón af því er sú krafa gerð að úrskurður skattstjóra verði staðfestur enda virðist mat hans á ófrádráttarbærum hluta hins umdeilda kostnaðar hóflegt með hliðsjón af atvikum málsins.“

Um 1. tl. Krafa kæranda er tekin til greina.

Um 2. og 3. tl. Með bréfi, dags. þann 10. febrúar 1978, tilkynnti skattstjóri kæranda um, að fyrirhugað væri að gera ýmsar breytingar á skattframtali hans árið 1977 vegna tilgreindra atriða og gaf honum kost á að koma að athugasemdum sínum. Jafnframt krafði skattstjóri kæranda í sama bréfi um sundurliðanir, greinargerðir og gögn varðandi ýmsa aðra liði í skattframtali hans árið 1977. Þar á meðal var krafist sundurliðunar á gjaldfærðum risnukostnaði og óskað eftir því að reikningar fyrir kostnaðarliðnum „önnur risna“ 1 437 800 kr. yrðu lagðir fram. Þá var krafist sundurliðunar eftir stöðum og skýringa á viðhaldi á þvottaplönum og húsum o. fl. 31 270 957 kr. Gerð skyldi nákvæm grein fyrir því, hvers vegna liður þessi væri svo hár. Þá skyldi leggja fram reikninga fyrir viðhald á H-götu 33, 3 125 621 kr. Ýmissa fleiri upplýsinga, er ekki varða hin kærðu atriði, var og krafist.

Bréfi þessu var af hálfu kæranda svarað með bréfi, dags. þann 30. maí 1978. Vísaði kærandi til sundurliðunar risnukostnaðar, er lægi fyrir í endurskoðunarskýrslu og gaf skýringar á gjaldaliðnum „önnur risna“. Kærandi gerði grein fyrir viðhaldskostnaði að H-götu 33. Varðandi gjaldfært viðhald 31 270 957 kr. á bensínafgreiðsluhúsum og þvottaplönum tók kærandi fram, að undir þessum lið væri slíkur fjöldi færslna og fylgiskjala, að hann treystist ekki til að eyða vinnu til nákvæmrar sundurliðunar á því, en vísaði til bókhalds félagsins til könnunar á gjaldalið þessum. Að svari kæranda fram komnu tilkynnti skattstjóri honum með bréfi, dags. þann 12. september 1978, m.a. um að framtali hans hefði verið breytt vegna nefndra atriða og tekjur hækkaðar, sbr. 2. og 3. lið hér að framan.

Eigi verður það ráðið af bréfi skattstjóra, dags. þann 10. febrúar 1978, að hann hefði þá þegar haft í hyggju að taka áður álögð opinber gjöld á kæranda gjaldárið 1977 til nýrrar meðferðar vegna nefndra atriða. Átti kærandi þess því ekki kost að koma að athugasemdum sínum og andsvörum, áður en skattstjóri ákvað tekjuhækkunina og breytti framtalinu vegna þessara atriða. Í tilkynningu skattstjóra, dags. þann 12. september 1978, kemur ekki nægilega ljóst fram, hvaða atriði í svarbréfi kæranda varðandi nefnd atriði töldust ófullnægjandi að mati skattstjóra. Þá er á það að líta, að ársreikningur kæranda fyrir rekstrarárið 1976 er saminn af löggiltum endurskoðanda, sem í áritun sinni getur þess, að þeir séu samdir eftir bókum kæranda að aflokinni endurskoðun. Er áritun þessi fyrirvaralaus. Skattframtal kæranda árið 1977 er byggt á ársreikningi fyrir árið 1976 og var það lagt óbreytt til grundvallar ákvörðun opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1977. Skattframtalið, er ekki var vefengt, gaf ekki sjálft tilefni til þeirra umfangsmiklu upplýsinga úr bókhaldi kæranda varðandi kæruatriði þessi, er skattstjóri krafðist í bréfi sínu, dags. 10. febrúar 1978, sbr. 4. ml. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. M.t.t. umfangs rekstrar kæranda var eðlilegast, að skattstjóri neytti heimildar 3. mgr. 36. gr. nefndar laga, hyggðist hann kanna réttmæti einstakra liða skattframtals hans árið 1977 og gæta síðan reglna 38. gr., sbr. 37. gr., sömu laga, teldi hann einstaka liði þess vera ranga.

Með tilvísan til alls framanritaðs þykir bera að fella hinar kærðu breytingar úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja