Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 278/1980
Gjaldár 1977 og 1978
Lög nr. 40/1978, ákvæði til bráðabirgða VI Lög nr. 68/1971, 21. gr.
Spariskírteini ríkissjóðs — Vextir — Verðbætur — Tengsl eldri laga og yngri — Skattalaga-framkvæmd — Kröfugerð — Lögskýring — Lögskýringargögn — Jafnræðisreglan
Kærð eru álögð opinber gjöld gjaldárin 1977 og 1978.
Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 11. apríl 1979, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri „að taka skattframtöl yðar 1977 og 1978 til endurálagningar og færa yður til tekna skattskylda vexti og vísitölubætur af sölu verðtryggðra spariskírteina ríkissjóðs, en um skattskyldu þeirra fer á sama hátt og sparifé, þ.e. samkvæmt 21. gr. laga nr. 68/1971.“ Var kærandi krafinn ýmissa upplýsinga er vörðuðu verðbréfin svo sem um kaupdag, kaupverð, útgáfuár og flokk, sundurliðun vaxtatekna og vísitölubóta eftir árum og skuldastöðu hans á söludegi bréfanna. Kærandi svaraði ekki bréfi þessu og var honum þá með bréfi skattstjóra dags. 21. maí tilkynnt um hækkun opinberra gjalda gjaldárin 1977 og 1978 vegna tekjufærslu á vöxtum og verðbótum af seldum verðtryggðum spariskírteinum ríkissjóðs. Kærandi kærði endurálagningu þessa til skattstjóra, sem hinn 27. júlí 1979 kvað upp kæruúrskurð í málinu. Staðfesti skattstjóri þar fyrri ákvörðun sína, en gerði þó í úrskurðinum minniháttar reikningslegar leiðréttingar.
Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 14. ágúst 1979. f kærunni segir m.a.: „Vegna fjarveru úr bænum verð ég að áskilja mér frekari frest til útreikninga og greinargerðar, enda mun þurfa til sérfræðiaðstoð.
Sérstaklega er vakin athygli á að gerð er breyting vegna vaxta og verðbóta 1973.
Nánari greinargerð verður send við fyrstu hentugleika.“
Ríkisskattstjóri hefur í bréfi dags. 29. maí 1980 gert svofelldar kröfur: „Með því að ekki verður ráðið af kærunni á hvaða málsástæðum hún er reist þykir, að svo komnu, bera að gera þá kröfu að henni verði vísað frá í ríkisskattanefnd.“
Á skattframtölum sínum árin 1976, 1977 og 1978 hefur kærandi gert skýra grein fyrir spariskírteinaeign sinni og sölu þeirra. Af kröfum hans og skýringum í kæru sinni til skattstjóra þykir vera augljóst hverjar kröfur hans séu fyrir ríkisskattanefnd, þrátt fyrir að hann vísi kröfum sínum til stuðnings til greinargerðar, sem eigi hefur enn borist. Með vísan til þessa er eigi fallist á kröfur ríkisskattstjóra um frávísun kæru kæranda að svo stöddu. Er kæran því tekin til efnismeðferðar.
Í ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, eru svohljóðandi ákvæði:
„Komi í ljós á skattframtali fyrir tekjuárið 1979 að skattaðili hafi ekki talið fram til skatts á liðnum árum eignir sem um ræðir í 78. gr. eða tekjur af þeim, sem skattfrjálsar hafa verið við viss skilyrði, skal eigi lagður eignarskattur vegna fyrri ára á hinar óframtöldu fjárhæðir né tekjuskattur á tekjur af fjármunum þessum, enda hafi eignir þessar myndast fyrir ársbyrjun 1978.“
Í greinargerð með frumvarpinu til greindra laga segir svo um bráðabirgðaákvæði þetta:
„Frumvarp þetta gerir ráð fyrir þeirri grundvallarbreytingu að sparifé verði undantekningarlaust framtalsskylt að fullu en hins vegar verði ekki verulegar breytingar á ákvæðum um skattfrelsi þess. Ákvæði þetta er sett til þess að auðvelda þau umskipti sem hin almenna framtalsskylda hefur í för með sér. Það felur í sér að eignarskattur verður ekki lagður á innstæður þessar og verðbréf aftur í tímann né heldur tekjuskattur á vexti af þeim eða verðbætur fyrir liðinn tíma. Hins vegar felst ekki í ákvæðinu nein sakaruppgjöf að því er varðar tilurð þessara eigna. Skattyfirvöld gætu þannig endurákvarðað skattaðila tekjuskatt ef í ljós kemur að hann hefur vanframtalið tekjur fyrri ára, enda þótt hann hafi komið hinum vantöldu tekjum fyrir í formi hér um ræddra eigna.“
Það er ótæk niðurstaða að þeir sem talið hafa fram til skatts verðtryggð spariskírteini ríkissjóðs eigi að vera verr settir að skattalögum en þeir sem vanrækt hafa framtalið og af þeim sökum komist hjá því að greiða rétt opinber gjöld af þessum tilteknu eignum. Þykir í því sambandi ekki eiga að skipta máli þótt skattaðilar hafi verið skattlagðir samkvæmt efnisreglum eldri skattalaga og í gildistíð þeirra. Þá þykir bera að hafa í huga skattalega meðferð eigna þessara í reynd. Einnig ber að líta til þess að þegar skattstjóri tók umrædda ákvörðun höfðu lög nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, verið samþykkt sem lög frá Alþingi. Mátti honum því vera ljós vilji löggjafarvaldsins í þessum efnum. Ber samkvæmt þessu að verða við kröfum kæranda.