Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 281/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 11. gr.  

Rekstrarkostnaður — Starfsmannakostnaður — Orlofsgreiðslur

Kærð eru álögð opinber gjöld á kæranda gjaldárið 1979.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi fram til skatts gjaldárið 1979 og skilaði undirrituðu og staðfestu skattframtali. Var það móttekið af skattstjóra hinn 7. maí 1979, en til þess tíma hafði kæranda verið veittur viðbótarframtalsfrestur. Þann 25. maí s.á. reit skattstjóri kæranda bréf og krafði hann skýringa og athugasemda um nokkur þar greind atriði er vörðuðu nefnt skattframtal hans. Var 14 daga svarfrestur veittur frá dagsetningu bréfsins. Þann 15. júní móttók skattstjóri svarbréf kæranda, sem dagsett er 10. júní. Er í því bréfi gerð grein fyrir þeim atriðum er skattstjóri krafði skýringa á. Með bréfi dags. 22. júní tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði í hyggju að gera tvær breytingar á skattframtalinu. Voru þær í fyrsta lagi að lækka gjaldfærð laun um 16 127 251 kr. og hins vegar að lækka gjaldfærðan kostnað vegna starfsmanna um 3 000 000 kr. Er í bréfi skattstjóra gerð grein fyrir ástæðum þessara breytinga. Í bréfi sínu tilkynnir skattstjóri jafnframt eftirfarandi: „Skriflegar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar þurfa að hafa borist innan 7 daga frá dagsetningu þessa bréfs. Berist ekki athugasemdir innan tiltekins frests, má vænta þess, að umræddar breytingar verði gerðar án frekari viðvörunar. Kærufrestur er þá 14 dagar eftir framlagningu skattskrár.“ Þann 17. júlí móttók skattstjóri svarbréf kæranda og er það dagsett 12. júlí. Var það bréf tekið sem kæra, en skattskrá var lögð fram í skattumdæmi kæranda þann 12. júlí 1979. Við álagningu opinberra gjalda á kæranda þá gerði skattstjóri þær breytingar á skattframtalinu er hann boðaði með bréfinu frá 22. júní, en auk þess gerði hann nokkrar breytingar er hann hafði boðað með bréfi dags. 25. maí og leiddu af svarbréfi kæranda dags. 10. júní. Af bréfi kæranda, dags. 12. júlí, verður ráðið að hann yndi eigi þeim breytingum er skattstjóri hafði boðað með bréfi dags. 22. júní. Hinn 4. október kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í málinu. Segir svo í forsendum úrskurðarins:

„1. Í kærubréfi heldur kærandi fram því sjónarmiði, að áðurnefndar 16 127 251 kr. séu ógreitt orlof vegna fastráðinna tímavinnumanna vegna tímabilsins 30. maí—31. desember 1978, áætlað út frá unnum tímum.

Í bréfinu frá 22. júní 1979 hafnaði skattstjóri ofanrituðu sjónarmiði kæranda algjörlega með vísan til þess að umrædd upphæð hefði ekki verið tekjufærð hjá viðkomandi starfsmönnum né gefin upp á launamiðum útgefnum af kæranda. Er það sjónarmið ítrekað hér. Enn má minna á að sá háttur sem kærandi hefur á um atriði þetta virðist hvorki samrýmast ákvæðum reglugerðar um orlof nr. 150/1972 um skil á gjaldföllnu orlofsfé né góðri bókhaldsvenju. Skattstjóri sér því ekki ástæðu til að verða við kröfu kæranda að þessu leyti.

2. Á rekstrarreikningi kæranda 1978 er m. a. gjaldfærður „Annar starfsmannakostnaður" 5 357 212 kr.

Með bréfinu frá 10. júní lagði kærandi fram sundurliðun á kostnaðarlið þessum. Þar kom m.a. fram óskilgreind greiðsla til bókaforlags 2 072 000 kr., innrömmun á myndum 414 000 kr., blóm o.fl. 373 447 kr. og prentun á starfsmannablaði 212 737 kr. Auk þess var kostnaður við árshátíð starfsmanna og gjafir til ýmissa líknar- og menningarfélaga.

Skattstjóri leit svo á, að hinar tilgreindu upphæðir væru ekki rekstrargjöld í skilningi stafliðar A í 11. gr. laga nr. 68/1971 og tilkynnti kæranda því lækkun þessa kostnaðarliðar um 3 000 000 kr. í bréfi frá 22. júní 1979.

Í kærubréfi útskýrir kærandi ekki nánar þau tilefni sem gáfust til áðurnefndra útgjalda né rökstyður að þau séu nauðsynleg til tekjuöflunar nema með því að ræða almennt um nauðsyn góðra tengsla milli starfsmanna og fyrirtækis sem eigi í harðri samkeppni á starfssviði sínu.

Er raunar vandséð án nánari útskýringa, hvernig útgjöld eins og greiðslan til bókaforlagsins eða kostnaður við innrömmum stuðla að slíkum tengslum. Sú venja virðist hafa skapast á seinni árum, að þátttaka fyrirtækis eða vinnuveitanda í kostnaði við árshátíð starfsmanna megi teljast rekstrargjöld og um gjafir til líknar- og menningarmála liggja fyrir bein fyrirmæli laga og reglugerða.

Skattstjóri telur sig því hafa veitt kæranda lögmætan frádrátt í þessu tilviki. Varðandi hina umdeildu gjaldaliði hafi kærandi ekki komið fram með nein þau ný rök eða sjónarmið, sem breyti fyrri afstöðu og verði því að hafna kröfu kæranda að þessu leyti.“

II.

Kærandi hefur skotið máli þessu til ríkisskattanefndar með kærubréfi dagsettu 11. október 1979. Gerir hann þar svofellda kröfugerð:

„Ég leyfi mér að fara fram á að lækkun skattstjóra á ógreiddu orlofi fastra tímavinnumanna, 16 127 251 kr., vegna tímabilsins 30. maí til 31. desember 1978 verði tekið með gjöldum 1978 eins og fram kemur í framtali fyrirtækisins.

Ég leyfi mér að ítreka upplýsingar þær, sem sendar voru Skattstofu Norðurlands eystra varðandi þetta atriði. Orlofið er áætlað út frá unnum tímum, en síðan greitt samkvæmt þeim launum, sem í gildi eru þegar starfsmaður tekur leyfið.

Eins og augljóst má vera eru orlofsgjöld þessi sannanlega fallin á rekstur fyrirtækisins á árinu 1978, þó svo að greiðsluhæfi orlofsins til starfsmannanna sé ekki fyrr en eftir 15. maí árið eftir.

Ég leyfi mér að halda fram að gjaldfærsla þessi sé í samræmi við 11. gr.laga nr. 68, 1971 og teljist því rétt.

Þá leyfi ég mér að gera þá kröfu, að annar starfsmannakostnaður verði allur tekinn til greina sem gjöld 1978.

Eins og fram hefur komið í bréfum S h.f. til Skattstofu Norðurlands eystra hefur félagið lagt í kostnað vegna starfsmanna sinna til að efla samhug starfsmanna og velvild þeirra í garð fyrirtækisins. Kostnaður þessi, sem á engan hátt getur talist kaupauki má líkja við auglýsingakostnað fyrirtækisins, sem snýr að kynningu á fyrirtækinu út á við.

Kostnaður sá er Skattstjóri Norðurlands eystra leyfir sér að fella niður af rekstrargjöldum og við gerum kröfu til að verði tekin til greina með gjöldum er eftirfarandi.

Bækur sem dreift var til starfsmanna .......................................................................... 2 072 000
Innrömmun á myndum af S h.f. er dreift var til starfsmanna....................................... 414 000
Blóm o. fl. sem send voru til einstakra starfsmanna á merkisafmælum þeirra .......... 373 447
Prentun á starfsmannablaði, sem fyrirtækið gefur út og dreifir meðal starfs-
manna. í bæklingi þessum eru birtar ýmsar upplýsingar til starfsmanna
varðandi fyrirtækið og vinnu starfsmanna ....................................................................... 212 757

3 072 184

Við viljum taka fram ef um kaupauka hefur verið að ræða hefur hann verið útgreiddur með launum starfsmanna og gefinn upp með launum þeirra sem laun.

Að síðustu vil ég ítreka að gjaldhæfi starfsmannakostnaðar sé í samræmi við 11. gr. aga nr. 68, 1971, en geti ekki talist til tekna hjá starfsmönnum samkvæmt A-lið 16. gr. reglugerðar nr. 245, 31. desember 1963.

Þess má og geta að starfsmannafjöldi félagsins árið 1978 var um 450 starfsmenn en í árslok voru þeir 272.“

III.

Ríkisskattstjóri hefur gert svofellda kröfugerð í bréfi dagsettu 18. mars 1980: „Í málinu kemur fram að ógreitt orlof vegna launa 1978 hefur ekki verið gefið upp á launamiðum vegna launagreiðslna það ár og því ekki tekjufært hjá viðkomandi launþegum. Þykir því bera að gera kröfu um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur um það efni, svo og hvað varðar kostnað vegna gjafa til starfsmanna fyrirtækisins, enda verður ekki séð að hann sé rekstrarkostnaður sem nauðsynlegur er til teknaöflunar fyrirtækisins.“

IV.

Kröfur kæranda fyrir ríkisskattanefnd eru annars vegar að honum verði talið heimilt að gjaldfæra og færa til frádráttar tekjum ársins 1978 áður en skattur er á þær lagður áætlað ógreitt áunnið orlof fastra starfsmanna vegna tímabilsins 30. maí til 31. desember 1978 og hins vegar að allur annar gjaldfærður starfsmannakostnaður verði leyfður til frádráttar.

IV.1. Samkvæmt lögum um orlof eiga allir þeir sem starfa í þjónustu annarra gegn launum rétt á orlofsgreiðslum. Greiðslur þessar fara fram með tvennum hætti. Fastir starfsmenn fá orlofslaun, þ.e. þeir fá greidd venjuleg laun meðan þeir eru í orlofi, en aðrir starfsmenn fá hins vegar greitt orlofsfé. Hjá föstum starfsmönnum skal orlofið vera tveir dagar fyrir hvern unninn mánuð á síðasta orlofsári, en orlofsárið er frá 1. maí til 30. apríl. Almenna orlofstímabilið er frá 2. maí til 15. september.

Við það þykir bera að miða að orlof sé þáttur í launakjörum starfsmanna og stofnist réttur þeirra til þess, þegar launuð vinna er leyst af hendi í þágu atvinnurekanda. Á orlofstímabilinu fellur á skylda atvinnurekanda til að veita starfsmanni áunnið orlof fyrir síðasta orlofsár. Nánar ræðst orlofsréttur starfsmanna og orlofsskylda atvinnurekenda af ákvæðum laga og reglugerða um orlof, kjarasamningum svo og eftir atvikum af samningum milli atvinnurekenda og einstakra starfsmanna.

Eðlilegast þykir að líta svo á að orlof það, sem fastir starfsmenn kæranda höfðu áunnið sér vegna vinnu sinnar frá 1. maí til 31. desember 1978 sé ógjaldkræfar launakröfur þeirra í árslok, en sama fjárhæð sé ógjaldfallin skylda kæranda til greiðslu þeirra launa. Þykir því rétt að fallast á þær kröfur kæranda að áætlaða fjárhæð áunnins orlofs fastra starfsmanna megi telja til rekstrarkostnaðar þess rekstrarárs, þegar orlofskrafa þeirra stofnaðist á hendur kæranda, óháð því hvenær sú greiðsluskylda hans féll á, enda hefur hann í bókhaldi sínu gjaldfært þennan kostnað er hann féll á. Er það í besta samræmi við góða reikningsskilavenju. Þykir og vera um að ræða þann þátt í teknaöflun kæranda á rekstrarárinu 1978 að 11. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, heimili þann kostnað til frádráttar þeim tekjum áður en tekjuskattur er á þær lagður. Það þykir ekki eiga að skipta hér máli, þó að starfsmönnum sé ekki skylt að telja sér til tekna orlofið fyrr en á því ári sem það er tekið.

Í kærumáli þessu er eigi deilt um fjárhæð áunnins orlofs fastra starfsmanna kæranda og kemur hún því eigi til skoðunar hér. Það athugast þó, að eigi liggur nægilega ljóst fyrir, hvernig fjárhæð sú, er um getur í kæruúrskurði skattstjóra og kærugögnum kæranda, verði rakin til einstakra liða í ársreikningi þeim, er fylgir skattframtali kæranda árið 1979.

IV. 2. Kostnað kæranda við prentun á starfsmannablaði, 212 757 kr., þykir bera að telja til frádráttarbærs rekstrarkostnaðar hans í skilningi 11. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Hins vegar þykir kærandi eigi hafa sýnt fram á nauðsyn kostnaðar alls að fjárhæð 2 859 427 kr. vegna bóka, mynda og blóma, er dreift var til starfsmanna í þágu teknaöflunar hans á árinu 1978. Er kröfu kæranda um frádráttarbærni þeirrar fjárhæðar því synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja