Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 302/1980
Gjaldár 1977 og 1978
Lög nr. 68/1971, 11. gr.
Ófrádráttarbær kostnaður — Rekstrarkostnaður — Gjöf
Málavextir voru þeir, að skattstjóri gerði m.a. þær breytingar á skattframtölum hlutafélags 1977 og 1978, að leyfa ekki til frádráttar laun greidd aðaleiganda þess, X. Umræddar launagreiðslur voru á skattframtali 1977 2 593 160 kr. og á skattframtali 1978 4 937 577 kr.
Umboðsmaður kæranda mótmælti þessum breytingum í kæru til skattstjóra með svohljóðandi rökstuðningi:
„1. Stjórn félagsins ákvað á stjórnarfundi, sem haldinn var í júní 1976, að verða við tilmælum X, ekkju Y, að greiða henni laun í 4 næstu ár vegna kröfu hennar um að sér yrðu greidd laun vegna þess að eiginmaður hennar, Y, fékk aldrei greidd laun frá félaginu frá því að það var stofnað 6. janúar 1940. Y vann fyrir félagið alla tíð síðan, sá um útleigur, gerði samninga, innheimti húsaleigu, sá um bókhald, viðhald o.s.frv. Launin voru ákveðin 211 779 kr. pr. mánuð, þar að auki var ákveðið að hún skyldi hafa eftirlaun (lífeyri) í 4 ár frá sama tíma, sem grundvallast á því að Y var aldrei í lífeyrissjóði. Skyldu þessi laun nema 60% af fyrrnefndum mánaðarlaunum, þannig að júlílaunin 1976 voru ákveðin 338 846 kr. og skyldu hækka með almennum launahækkunum. Þessi laun hafa verið nefnd eftirlaun, en eru kaupkrafa + eftirlaun.
2. Af skattskyldum hagnaði sem eftir verður, þegar kæruatriði 1 hefur verið tekið til greina, óskast 25% lagt í varasjóð.“
Úrskurður skattstjóra var á þessa leið:
„Greiðslur til X geta ekki talist frádráttarbær rekstrarkostnaður skv. 11. gr. 1. nr. 68/1971 eða III. kafla reglugerðar nr. 245/1963. Þegar vinna sú er launa er nú krafist fyrir var framkvæmd, var ekki gerð krafa um kaupgreiðslur. Fyrirtækið var og er fjölskylduhlutafélag og sá er vinnuna innti af hendi var aðalhluthafi. Hafi engin kaupkrafa verið gerð þegar verkið var unnið og félagið aldrei talið til skuldar ógreidd vinnulaun, getur krafa erfingja þess er vinnuna innti af hendi ekki breytt neinu um frádráttarhæfni nefndra útgjalda. Launagreiðsla til X var talin vera skrifstofuvinna á launamiðum 1977 og 1978. Júlílaun 1978 voru af stjórn S h.f. ákveðin samtals 338 846 kr., en til samanburðar má nefna að laun í hæsta flokki hjá BHM, A-30, voru í júlí 1976 172 149 kr.
Með tilliti til þess að X er aðalhluthafi í S h.f. ásamt börnum sínum er ljós sá grundvöllur sem samþykki stjórnar félagsins á kaupkröfunni byggist á.
Með hliðsjón af atvikum öllum og því, að hvorki finnst í lögum né reglugerð um tekju- og eignarskatt, heimild til þess að telja hinar umdeildu greiðslur frádráttarbærar sem reksturskostnað, þá er aðalkröfu kæranda hafnað, en fallist er á varakröfu hans.“
Með bréfi dags. 16. júlí 1979 skaut umboðsmaður kæranda máli þessu til ríkisskattanefndar. Segir hann m.a. að ekki skipti máli hvort í hlut hafi átt aðalhluthafi. Aðalatriðið sé, að hlutaðeigandi starfsmaður, Y, sem unnið hafði kauplaust hjá félaginu frá stofnun þess, andast og gerir ekkja hans kaupkröfu til félagsins, sem tekið er til greina hjá því, á þann hátt sem kemur fram í úrskurði skattstjóra. Hliðstæður um kaupkröfur starfsfólks, sem virki aftur í tímann hljóta að vera fyrir hendi í atvinnurekstri og séu þær reistar á rökum, sem ekki er unnt að hnekkja, þá eru þær greiddar og þar með orðnar að óumflýjanlegum rekstrarútgjöldum viðkomandi rekstraraðila og þar með frádráttarbærar til skatts, sem skattalög og reglugerð, sem vitnað er til í úrskurði, viðurkenna. Skipti ekki máli hvort viðkomandi aðili sé hluthafi.
Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi frá 27. maí 1980 krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.
Í máli þessu verður ekki byggt á því að um sé að ræða endurgreiðslu á láni eða kröfu um endurgreiðslu á vangreiddum launum vegna vinnuframlags látins starfsmanns kæranda, sem ekkja eftir hann hafi hlotið í arf. Ekki verður heldur byggt á því, að um sé að ræða laun ekkju starfsmannsins eða lífeyris- eða eftirlaunagreiðslur eða ígildi þeirra. Rétt þykir hins vegar að líta á hina umdeildu greiðslu sem gjöf til ekkjunnar og er greiðslan ekki frádráttarbær sem rekstrarkostnaður í skilningi A-liðar 11. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt. Með þessari athugasemd er úrskurður skattstjóra staðfestur.
Skattstjóri synjaði aðalkröfu kæranda, en féllst á varakröfu um 25% tillag í varasjóð.