Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 303/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 8/1972, 23. gr.   Lög nr. 68/1971, 2. gr. og 7. gr. C-liður  

Takmörkuð skattskylda — Reiknaðar húsaleigutekjur — Lögskýring

Á skattframtali sínu 1979 taldi kærandi fram eignarhluta 12,975% í húseigninni hér í borg ásamt 12,975% af bílskúr og hlutdeild í leigulóð. Hins vegar taldi kærandi sem dvelst erlendis, ekki fram arð af þessari eign á framtalinu. Skattstjóri reiknaði kæranda til tekna eigin leigu 1,5% af framtöldu fasteignamati íbúðar, lóðar og bílskúrs og gerði kæranda að greiða tekjuskatt af skattgjaldstekjum að fjárhæð 53 116 kr.

Umboðsmaður kæranda kærði til skattstjóra hinn álagða tekjuskatt til niðurfellingar. Benti hann á, að umbjóðandi sinn hefði engar tekjur haft af eignarhlutanum í nefndri húseign. Eignarhlutann hefði umbjóðandi sinn fengið í arf á sínum tíma.

Skattstjóri hafnaði með úrskurði dags. 29. október 1979 kröfu kæranda. Breytingar sínar á framtali kæranda taldi skattstjóri í úrskurðinum vera í samræmi við fyrirmæli frá ríkisskattstjóra, sbr. og ákvæði C-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Hins vegar hefði átt að leyfa kæranda til frádráttar fyrningu 0,20%, eða 5 854 kr., af íbúð og bílskúr. Þá hefði gleymst að leggja útsvar, sjúkratryggingagjald og kirkjugarðsgjald á kæranda.

Með úrskurði skattstjóra voru skattgjaldstekjur kæranda lækkaðar um áðurnefndar 5 854 kr. og tekjuskattur lækkaður um 1 195 kr., en honum gert að greiða útsvar, sjúkratryggingagjald og kirkjugarðsgjald að fjárhæð 6 633 kr. alls.

Úrskurði þessum skaut umboðsmaður kæranda til ríkisskattanefndar með kærubréfi dags. 6. nóvember 1979.

Umboðsmaðurinn mótmælir því að umbjóðanda sínum séu reiknaðar tekjur eftir ákvæðum C-liðar 7. gr. skattalaga, þar sem þessi ákvæði eigi ekki við í þessu tilviki. Umbjóðandi sinn hafi hvorki haft tekjur af eigninni né látið hana öðrum í té án endurgjalds. Hér sé um arfshluta að ræða, sem standi inni vegna gjaldeyrishafta.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur fyrir gjaldkrefjenda hönd:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Kærandi, sem ber takmarkaða skattskyldu hér á landi, er eigandi hluta í tiltekinni fasteign í Reykjavík og er um arfshluta hans að ræða. Af hálfu kæranda hefur engin grein verið gerð fyrir nýtingu eignarhlutans á árinu 1978, en ætla verður að hann hafi verið nýttur til íbúðar. Á skattframtali kæranda árið 1979 er ekki gerð grein fyrir neinum tekjum eða gjöldum af eignarhluta hans á árinu 1978. Á skattframtölum hans árin 1977 og 1978 hefur skattstjóri fært til tekna áætlaða eigin húsaleigu og hefur það eigi sætt andmælum af hálfu kæranda.

Í máli þessu þykir verða við það að miða, að kærandi hafi á árinu 1978 látið öðrum í té til afnota húseignarhluta sinn án endurgjalds. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt, sem hér á við, ber þeim manni sem eigi er heimilisfastur hér á landi en á hér fasteign sem hann hefur tekjur af, að greiða skatt af þeim tekjum. Rétt þykir að skýra svo málsgrein þessa, að með tekjum samkvæmt henni sé átt við þær tekjur sem taldar eru skattskyldar samkvæmt 7. gr. nefndra laga. í C-lið þessarar greinar segir m.a., að til skattskyldra tekna skuli teljast leiga af húsum sem eigendur láta öðrum í té án eðlilegs endurgjalds. Nánari útlistun á ákvæði þessu er að finna í A-lið 14. gr. reglugerðar nr. 245/1963 um tekjuskatt og eignarskatt. Samkvæmt þessu ber að reikna kæranda til tekna eigin húsaleigu við ákvörðun tekjuskatts á árinu 1979.

Samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 23. gr. laga nr. 8/1972 um tekjustofna sveitarfélaga ber að draga frá útsvarsskyldum tekjum eigin húsaleigu áður en stofn til útsvars er ákvarðaður. Nýtur kærandi þess ákvæðis.

Áður álögð opinber gjöld kæranda vegna gjaldársins 1979 breytast til samræmis við niðurstöðu þessa.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja