Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 305/1980

Gjaldár 1977 og 1978

Lög nr. 67/1971, 36. gr.   Lög nr. 14/1965, 2. gr.   Lög nr. 10/1960, 2. gr.   Lög nr. 8/1972, 36. gr.   Lög nr. 68/1971, 7. gr. A-liður  

Atvinnurekstur — Aðstöðugjaldsskylda — Söluskattsskylda — Tilkynningarskylda samkvæmt söluskattslögum — Launaskattsskylda

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárin 1977 og 1978 svo og álagning söluskatts árin 1976 og 1977.

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. þann 16. nóvember 1978, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú starfsemi hans að kaupa notaða bíla og bifhjól, gera við og selja aftur, teldist falla undir sjálfstæðan atvinnurekstur og væri þáttur viðgerðarstarfseminnar söluskattsskyldur og bæri að telja hann fram á söluskattsskýrslum. Var þess óskað, að úr því yrði bætt vegna áranna 1975, 1976 og 1977. Þá óskaði skattstjóri eftir framlagningu nótna vegna starfsemi þessarar. Í sama bréfi tilkynnti skattstjóri og kæranda, að fyrirhugað væri að leggja á hann slysatryggingargjald og launaskatt vegna eigin vinnu við viðgerðir svo og aðstöðugjald fyrir árin 1975, 1976 og 1977.

Með bréfi, dags. þann 24. nóvember 1978, var ráðagerðum skattstjóra alfarið mótmælt af hálfu kæranda með þeirri höfuðröksemd, að nefnd starfsemi væri ekki þess eðlis, að hún gæti talist falla undir sjálfstæðan atvinnurekstur í skilningi skattalaga. Starfsemin væri óveruleg og ekki atvinna kæranda og tekjur af þessari starfsemi óverulegur þáttur í tekjuöflun hans. Væri hér fremur um tómstundaiðju að ræða. Fengi engu um þetta breytt, þótt ökutækin hefðu þarfnast viðgerðar, er kærandi hefði innt af hendi. Í þeim tilvikum, þar sem um söluhagnað hefði verið að ræða, hefði hann verið talinn fram til skatts. Í svarbréfi kæranda er gefin svofelld lýsing á hinni umdeildu starfsemi:

„Árið 1975 er keypt ein bifreið ónýt eftir tjón, vélin seld, en bifreiðin síðan rifin og afskráð. Um endursölu er ekki að ræða og eintómur kostnaður samfara kaupunum. Sama ár er selt eitt bifhjól, keypt árið áður. Gert er við hjólið, það notað af umbj.m. og síðar selt. Hér er um dæmigert tómstundagaman að ræða, óskylt öllum atvinnurekstri.

Árið 1976 er keypt ein bifreið og eitt bifhjól, skemmd eftir tjón. Við þau er gert og þau endurseld. Söluhagnaður er óverulegur miðað við tekjur umbj.m. af atvinnu sinni. Hér er einnig um dæmigerða tómstundaiðju að ræða.

Árið 1977 eru viðgerðar og seldar tvær bifreiðar, þar af önnur keypt árið áður.

Ein bifreið og eitt bifhjól er til viðgerðar, ætlað til sölu í framtíðinni, einn lögreglubíll er keyptur og seldur án viðgerðar og eitt bifhjól keypt. Þá selur umbj.m. einkabifreið sína og kaupir aðra í hennar stað, sem þarfnast viðgerðar.

Í engum tilvikum er um að ræða sölu á sama ári á fleiri en tveim ökutækjum fyrir utan bifreiðar til eigin afnota, og söluhagnaður er í öllum tilvikum lítill miðað við tekjur af atvinnu umbj.m.

Með vísan til framanritaðs telur umbj.m. ljóst, að hér sé ekki um atvinnurekstur að ræða og sér því óskylt að leggja fram umbeðnar söluskattsskýrslur, en nótur og afsöl v/nefndra bifreiða og bifhjóla fylgja hjálagt yður til athugunar.“

Með bréfum, dags. þann 13. febrúar 1979, tilkynnti skattstjóri kæranda, að skattframtöl hans árin 1977 og 1978 hefðu verið tekin til endurálagningar með tilliti til sjálfstæðrar atvinnustarfsemi, sbr. bréf skattstjóra frá 16. nóvember 1978 og með vísan til 8. mgr. E-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Stofn til álagningar aðstöðu- og iðnlánasjóðsgjalds gjaldárið 1977 ákvarðaði skattstjóri 743 454 kr., aðstöðugjald 7 400 kr. og iðnlánasjóðsgjald 4 500 kr. Þá lagði skattstjóri á kæranda launaskatt að fjárhæð 9 679 kr. vegna eigin vinnu svo og slysatryggingariðgjald að fjárhæð 1 326 kr. Gjöld þessi voru engin áður. Gjaldárið 1978 lækkaði skattstjóri framtalinn kostnað vegna viðgerða á bifreiðinni Y- ...., er seld var 2. september 1977, um 15 400 kr. vegna þess að nótu vantaði og vegna tryggingar eftir söludag um 18 285 kr. Að þessu breyttu var stofn til aðstöðugjalds og iðnlánasjóðsgjalds ákveðinn 2 039 908 kr. og gjöld þessi 20 400 kr. og 12 200 kr. Launaskatt vegna eigin vinnu ákvarðaði skattstjóri 17 853 kr. og slysatryggingariðgjald 2 132 kr. Gjöld þessi voru engin áður. Þá hækkaði skattstjóri álagðan tekjuskatt um 10 211 kr. og útsvar um 3 700 kr. vegna ofangreindrar lækkunar kostnaðarverðs seldrar bifreiðar.

Með bréfum, dags. þann 15. febrúar 1979, tilkynnti skattstjóri kæranda um ákvörðun vanreiknaðs sölugjalds og viðurlög á það fyrir 1976 og 1927, sbr. bréf skattstjóra frá 16. nóvember 1978. Sölugjald fyrir árið 1976 var ákveðið 46 089 kr. og viðurlög 24 657 kr. Sölugjald fyrir árið 1977 var ákveðið 79 397 kr. og viðurlög 42 477 kr.

Breytingar þessar voru af hálfu kæranda kærðar til skattstjóra með bréfum, dags. 23. febrúar 1979, á þeim forsendum, að ekki væri um sjálfstæða atvinnustarfsemi að ræða í skilningi skattalaga og starfsemin væri ekki sölugjaldsskyld. Þá voru gjöldin jafnframt kærð sem of há. Með úrskurðum, dags. þann 21. júní 1979 og 27. júlí 1979, ákvað skattstjóri að hin kærðu gjöld skyldu óbreytt standa, og þess sérstaklega getið í forsendum auk fyrri sjónarmiða, að ekki væri um aðkeypta vinnu að ræða við endurbætur ökutækja, heldur ynni kærandi að þeim sjálfur, en hann starfaði sem bifvélavirki í sínu aðalstarfi.

Í kæru til ríkisskattanefndar er þess af hálfu kæranda krafist, að öll framangreind gjöld verði niður felld með röksemdum, er fram hafa komið af hans hálfu á fyrri stigum málsins og getið er hér að framan. Þá er því sérstaklega mótmælt, að verkkunnátta kæranda, atvinna hans svo og það, að endurbætur voru unnar af honum sjálfum en ekki aðkeyptar, geti ráðið úrslitum um það, hvort tómstundaiðja hans skuli teljast sjálfstæð atvinnustarfsemi eða ekki. Líta beri einungis til þess, hvort iðjan sé stunduð gagngert í tekjuöflunarskyni og þá sem verulegur þáttur í heildartekjuöflun viðkomandi, er taki umtalsverðan hluta af starfstíma. Svo sé ekki varðandi kæranda. Hann hafi eðlilegar atvinnutekjur í starfi sínu sem launamaður og sé það fullt starf. Hagnaður vegna bifreiðaviðskipta sé óverulegur hluti af heildartekjum. Um sé að ræða fá ökutæki hverju sinni og öll vinna við þau unnin utan venjulegs vinnutíma.

Með bréfi, dags. 27. maí 1980, eru af hálfu ríkisskattstjóra gerðar svofelldar kröfur í máli þessu:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Umrædd viðgerðar- og sölustarfsemi virðist eftir málsgögnum að dæma hafa verið verulegur þáttur í teknaöflun og framfærslu kæranda á árunum 1977 og 1978. Sjá í þessa veru yfirlit um starfsemina með skattskýrslum kæranda. Lagarök verða því að teljast fyrir hendi til ákvörðunar sölugjalds af vinnuandvirði og aðstöðugjalds ásamt iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjaldi á umkostnað við hina sjálfstæðu starfsemi kæranda.“

Samkvæmt gögnum málsins keypti kærandi á árinu 1976 þrjár bifreiðar og eitt vélhjól. Eina þessara bifreiða og vélhjólið seldi kærandi á því ári. Aðra seldi hann á árinu 1977. Það ár keypti kærandi þrjár bifreiðar og eitt vélhjól og seldi tvær þessara bifreiða á því ári. Jafnframt seldi kærandi á því ári bifreið er hafði verið í eigu hans frá 15. ágúst 1974. í árslok 1977 voru í eigu kæranda tvær bifreiðar og eitt vélhjól. Þá kemur og fram í gögnum málsins, að árið 1974 keypti kærandi eina bifreið, er seld var á árinu 1977, svo og eitt vélhjól, er selt var á árinu 1975. Á árinu 1975 keypti kærandi og bílflak og úr því seld vélin á sama ári. Kærandi lagði í kaup varahluta, vélaviðgerða o. fl. vegna ökutækja árið 1976 397 397 kr. og árið 1977 685 431 kr. Skattskyldan hagnað vegna bifreiðaviðskipta færði kærandi til tekna á skattframtölum sínum, þ. e. 276 546 kr. á framtali árið 1977 og 476 407 kr. á framtali árið 1978. Brúttótekjur samkvæmt framtölum námu 2 133 334 kr. tekjuárið 1976 og 2 627 759 kr. tekjuárið 1977.

Með kaupum og sölum nefndra bifreiða og vélhjóla árin 1976 og 1977 þykir kærandi, er enga sjálfstæða starfsstöð rak um viðskipti þessi svo að vitað sé, eigi hafa stundað viðskipti þessi í þeim mæli að líta beri á þau sem atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í skilningi 1. mgr. 36. gr. laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga. Þykir því bera að fella niður álagt aðstöðu- og iðnlánasjóðsgjald gjaldárin 1977 og 1978. Af sömu ástæðum þykir bera að fella niður álagðan launaskatt og slysatryggingariðgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur. Þá verður og eigi talið svo sem atvikum málsins er háttað, að kærandi hafi stundað atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í merkingu söluskattslaga, þannig að honum hefði borið að tilkynna söluskattsskylda starfsemi til skattyfirvalda. Er því eigi á það fallist með skattstjóra, að um söluskattsskyldan þátt hafi verið að ræða í margnefndum viðskiptum kæranda. Þykir því bera að fella niður álagðan söluskatt fyrir árin 1976 og 1977, samtals að fjárhæð 125 486 kr. og viðurlög að fjárhæð 67 134 kr.

Hækkun skattstjóra á skattskyldum söluágóða bifreiðarinnar Y-.... um 33 685 kr. gjaldárið 1978 vegna offærðs kostnaðarverðs þykir bera að staðfesta.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja