Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 309/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 7. gr. B- og G-liður  

Heiðurslaun — Skattfrjálsar tekjur — Gjöf — Lögskýring — Lögskýringargögn

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi heiðursgjöf að fjárhæð 1 000 bandaríkjadali frá forseta Johns-Manville Corporation á árinu 1978. Kærandi taldi gjöf þessa vera að ¾ hlutum undanþegna skattlagningu eftir ákvæðum G-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt. Hann færði því aðeins fjórða hluta fjárhæðarinnar eða 79 425 kr. til tekna á skattframtali 1979.

Skattstjóri gerði kæranda viðvart með bréfi, dags. 21. mars 1979, að til stæði að gera m.a. þær breytingar á skattframtali hans 1979 að telja að fullu til tekna fyrrnefnda heiðursgjöf með því að hún teldist að fullu skattskyld samkvæmt A-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971.

Skattstjóri hækkaði síðan tekjur kæranda um ¾ hluta nefndrar heiðursgjafar eða 238 275 kr.

Breytingu þessari mótmælti kærandi eftir framlagningu skattskrár með kærubréfi dags. 25. júlí 1979 til skattstjóra og krafðist niðurfellingar hennar.

Með úrskurði dags. 22. ágúst 1979 hafnaði skattstjóri kröfum kæranda. Taldi hann gjöfina frá forseta Johns-Manville Corp. vera að fullu skattskyldar tekjur samkvæmt upphafsorðum og A-lið 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kærubréfi dags. 10. september 1979. Hann gerir þá kröfu, að breyting skattstjóra verði niður felld. Kröfu sína styður kærandi með eftirtöldum rökum:

„Ég hef sent skattstjóra ljósrit af bréfi J. Manville sem fylgdi umræddri viðurkenningu. Hér er ekki um að ræða endurgjald fyrir unnin störf sem fellur undir A-lið 1. mgr. 7. gr. skattalaga, enda er ég ekki starfsmaður J. Manville, heldur þótti fyrirtækinu ástæða til að veita okkur starfsmönnum Kísiliðjunnar h.f. viðurkenningu vegna framlaga okkar við þær sérstöku aðstæður sem hér hafa skapast vegna eldsumbrota og jarðskjálfta. Verður ekki annað séð en að slík einskiptis viðurkenning falli undir g-lið 1. mgr. 7. gr. og eigi því að skattleggjast eins og hún var talin fram.“

Af ríkisskattstjóra hálfu eru í málinu gerðar svofelldar kröfur fyrir hönd gjaldkrefjenda í bréfi dags. 15. apríl 1980:

„1. í tilefni af kröfu kæranda um að gjöf forseta Johns-Manville Corp. verði aðeins skattlögð að fjórða hluta, vísast í bréf ríkisskattstjóra til N.N. dags. 18. janúar 1979 þar sem fram kemur að slík greiðsla sé skattskyld og þykir því bera að krefjast staðfestingar á úrskurði skattstjóra ...“

Kærandi er starfsmaður Kísiliðjunnar h.f. sem vinnur kísilgúr úr botnleðju Mývatns. Fyrirtækið Johns-Manville, sem er aðili að framleiðslu og sölu kísilgúrsins, greiddi kæranda á árinu 1978 tiltekna fjárhæð vegna framlaga hans við þær sérstöku aðstæður sem urðu vegna eldsumbrota og jarðskjálfta á starfssvæði Kísiliðjunnar h.f., sem hófust í apríl 1977. Kærandi krefst þess, að á greiðslu þessa verði litið sem heiðurslaun í skilningi G-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt og njóti skattfrelsis í samræmi við ákvæði þess stafliðs.

Í nefndum staflið segir, að heiðurslaun, sem íslenskir skattaðilar fá, án umsóknar, frá innlendum eða erlendum stofnunum fyrir sérstök afrek, skulu aðeins teljast til skattskyldra tekna að einum fjórða hluta, enda séu slík heiðurslaun veitt sama aðila í eitt sinn. Stafliður þessi var settur í lögin um tekjuskatt og eignarskatt með lögum nr. 30/1971. í greinargerð með frumvarpinu til greindra laga segir svo um ástæður fyrir lögtöku stafliðsins:

„Loks er gert ráð fyrir nýjum lið í þessa grein laganna sem fjalli um skattlagningu heiðurslauna. Eins og kunnugt er hafa frumvörp um skattfrelsi einstakra heiðursverðlauna verið flutt og afgreidd sem lög frá Alþingi. Hefur verið talið æskilegt, að um þessi laun verði fjallað almennt í lögum um tekju- og eignarskatt fremur en samþykkja hverju sinni sérstakar undanþágur á Alþingi. Þar hefur þó mátt merkja greinilega hneigð í þá átt, að slík heiðursverðlaun verði skattfrjáls.

Í undirbúningi þessa máls hafa verið talin vandkvæði á að semja almenna skýrgreiningu fyrir heiðursverðlaun, sem væri nægilega þröng til að taka eingöngu til undantekninga, sem hæfilegt mætti telja að njóti skattfrelsis í anda þeirra frumvarpa, sem um þetta hafa verið afgreidd á þingi. Þá má færa fram rök gegn því að verðlaun af þessu tagi verði algjörlega skattfrjáls og er hér gerð tillaga um að velja í þessu efni svipaða leið og gert er í Danmörku, þar sem farið er með slík verðlaun sem eignaaukningu vegna verðhækkunar. Hér er því gerð

tillaga um, að heiðurslaun verði skattlögð með sama hætti og söluhagnaður af eignum eftir langt eignarhald, þ. e. að fjórðungur verðlauna komi til tekjuskattlagningar. Gert er ráð fyrir, að heimild til slíkrar sérstakrar sköttunar takmarkist við, að um sé að ræða verðlaun, sem veitt eru í eitt skipti hverjum aðila úr sjóðum menningarstofnana án umsóknar fyrir afburðaframmistöðu á einhverju sviði.“

Það framlag kæranda, sem áðurnefnd greiðsla var fyrir, þykir eigi hafa verið þess eðlis að það verði talið hafa almennt þjóðfélagslegt gildi og var greiðslan ekki veitt úr sjóði menningarstofnunar. Þá hafði framlag kæranda eigi hlotið almenna viðurkenningu áður en til greiðslunnar kom. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til nefndrar greinargerðar, sem er til verulegrar skýringar á inntaki ákvæða G-liðs 1. mgr. 7. gr.laga nr. 68/1971, er eigi fallist á þær kröfur kæranda að greiðslan teljist til heiðurslauna í skilningi þessa stafliðs. Greiðslan var ekki þáttur í launakjörum kæranda fyrir vinnuframlag í þágu Kísiliðjunnar h.f. Ber því ekki að líta á hana sem endurgjald fyrir vinnuframlag, heldur telst hér vera um að ræða skattskylda gjöf í skilningi B-liðs 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt.

Með framangreindum athugasemdum er þessum lið í kröfum kæranda synjað og úrskurður skattstjóra um hann staðfestur að niðurstöðu til.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja