Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 395/1992
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I.
Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar — Greinargerð um vaxtagjöld — Fylgigögn skattframtals — Vaxtagjöld, gjaldfallin — Gjaldfallin vaxtagjöld — Áfallin vaxtagjöld — Vaxtagjöld, áfallin — Vaxtauppgjörsaðferð — Tímaviðmiðun vaxtagjalda — Vaxtagjöld, tímaviðmiðun — Vaxtagjöld, tvífærsla — Vaxtauppgjör — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra
Málavextir eru þeir, að í framhaldi af bréfum sínum, dags. 19. janúar 1990 og 7. mars 1990, og að fengnum svarbréfum kærenda, dags. 26. janúar 1990 og 27. mars 1990, endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kærenda gjaldárið 1989 hinn 10. apríl 1990 vegna lækkunar vaxtagjalda til ákvörðunar vaxtaafsláttar af tilgreindu láni í greinargerð um vaxtagjöld af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis (RSK 3.09). Um var að ræða vaxtagjöld af skuld við X sf. Samkvæmt téðu gagni nam upphafleg lánsfjárhæð 113.434 kr., en lánið var tekið 1982, vísitölutryggt miðað við lánskjaravísitölu. Heildargreiðsla á árinu nam 127.193 kr. og afborgun 11.343 kr. Kærendur færðu áfallna vexti og nam fjárhæð áfallinna vaxta árið 1988 56.790 kr. en áfallnir vextir 1987 til frádráttar námu 12.214 kr. Samkvæmt þessu nam fjárhæð vaxtagjalda af láni þessu í skýrslunni 160.426 kr. Fram kom, að gjalddagar láns þessa voru tveir, þ.e. 30. júní 1988 og 30. desember 1988. Skattstjóri lækkaði fjárhæð vaxtagjalda af láni þessu í endurákvörðun sinni um 56.790 kr. á þeim forsendum, að sú fjárhæð hefði verið tvífærð, þ.e. annarsvegar sem hluti af heildargreiðslu á árinu í reit 10 og hinsvegar sem áfallnir reiknaðir vextir í árslok í reit 14.
Í kæru til skattstjóra mótmælti umboðsmaður kærenda endurákvörðun skattstjóra, sbr. bréf, dags. 21. apríl 1990. Lagði hann fram ljósrit kvittana og mótmælti því að um tvífærslu hefði verið að ræða. Sagði svo í kærunni: „Eins og fram kemur á meðf. ljósritum af greiðsluseðlum greiddi A kr. 127.193,40 á árinu 1988 v/skuldar við X sf. og er sú upphæð færð í reit 10. Þarna var um að ræða gjalddaga 30. desember 1987 og 30. júní 1988. Áfallnar og gjaldfallnar verðbætur og vextir v/gjalddaga 30. desember 1988 að upph. kr. 56.790 (gr. 1989) voru færð í reit 14 og því ljóst að umrædd fjárhæð var ekki tvífærð.“. Með kæruúrskurði, dags. 16. júlí 1990, synjaði skattstjóri kröfu kærenda á þeim forsendum, að við uppgjör vaxta hefðu þau annarsvegar fært vexti og verðbætur, er gjaldféllu á árinu 1987, og hinsvegar fært áfallnar verðbætur í árslok 1989. Væri því um tvífærslu að ræða.
Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 13. ágúst 1990. Í kærunni segir svo:
„Málavextir eru þeir að á árinu 1988 greiddi A og frú samt. kr. 127.193.40 af tveimur skuldabréfum v/X sf. og var það vegna gjalddaga 30/12/1987 og 30/06/1988. Frá þessari upphæð var síðan dregin afborgun lánanna að upph. kr. 11.343.- og gjaldfallnir/(áfallnir) vextir færðir á framtal 1988 að upph. kr. 12.214.- Við þetta bættist síðan gjaldfallnir vextir og verðbætur af gjalddaga 30/12/1988 að upph. kr. 56.780.70 (oftalið á framtali um kr. 10.-) og þannig fengin vaxtagjöld til frádráttar að upph. kr. 160.426.- (aurum sleppt).
Hér er því aðeins um að ræða greidda og gjaldfallna vexti og greiddar og gjaldfallnar verðbætur á árinu 1988, en alls ekki „áfallnar verðbætur í árslok 1989“ eins og fram kemur í úrskurði skattstjórans í Reykjavík frá 16. júlí s.l.
E.t.v. hefur það valdið einhverjum misskilningi að það sem var gjaldfallið var fært í reit 14 „áfallnir reiknaðir vextir“ en það breytir engu um niðurstöðuna.
Ég ítreka því kröfu mína um að skattahækkun skattstjórans í Reykjavík verði dregin til baka.“
Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:
„“Greinargerð um vaxtagjöld“, eyðublað RSK 3.09, er fylgdi skattframtali kærenda 1989, er að ýmsu leyti ábótavant. Vextir og verðbætur með gjalddaga á árinu 1987 mynda ekki stofn til vaxtabóta á árinu 1989, óháð því hvenær greiðslur fara fram. Hins vegar reiknast dráttarvextir sem á falla á árinu 1988 með því ári. Kærendur færðu á áðurnefnda greinargerð kr. 56.790 í reit 14 þar sem koma eiga áfallnir reiknaðir vextir á árinu 1988. Í kæru til ríkisskattanefndar og í gögnum málsins kemur fram að um er að ræða vexti og verðbætur sem gjaldféllu á árinu 1988 að upphæð 56.780,70 og hefði sú upphæð því átt að reiknast með fjárhæð í reit 10. Í reit 10 á einnig að færa vexti og verðbætur ásamt dráttarvöxtum sem á féllu á árinu 1988 og greiddust þá. Vaxtagjöld sem mynda stofn til útreiknings vaxtabóta vegna skuldar við X sf. og færast í reit 15 á fyrrnefndri greinargerð eru því samtals kr. 121.765,30.“
Að virtum gögnum málsins og með vísan til þeirra sjónarmiða, sem fram koma í kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu, þykja vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar af umræddu láni réttilega leidd fram í kröfugerðinni og þykir bera að byggja á þeirri fjárhæð eða 121.765,30 kr.