Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 368/1980
Gjaldár 1979
Reglugerð nr. 81/1962, 2. mgr. 8. gr. Lög nr. 8/1972, 36. gr. og 40. gr. Lög nr. 68/1971, 11. gr.
Aðstöðugjaldsskylda — Skattlagningarstaður — Sérstök sameign — Bifreiðakostnaður
Málavextir eru þeir að kærandi taldi fram til skatts gjaldárið 1979 og skilaði undirrituðu skattframtali í framtalsfresti. Með bréfi, dags. 24. apríl 1979, tilkynnti skattstjóri kæranda eftirfarandi:
„Í atvinnurekstri yðar, þ.e. rekstri skurðgröfu og jarðýtu, þykir hæfilegt að samþykkja 350 000 kr. í frádrátt vegna aksturs á eigin bifreið, sbr. einnig skil sameignarmanns yðar.
Aðstöðugjald er látið lenda hjá H-hreppi, þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um aðstöðugjaldsskyldu annars staðar.“
Með bréfi sínu dags. 4. maí 1979 mótmælti kærandi þessum ákvörðunum skattstjóra. Krafðist hann þess að frádráttur vegna aksturs á eigin bifreið yrði látinn standa óbreyttur og að hann yrði talinn aðstöðugjaldsskyldur í K-hreppi, en þar er lögheimilissveitarfélag kæranda. Skattskrá var lögð fram 11. júlí 1979 og var bréf kæranda tekið sem kæra. Skattstjóri kvað upp úrskurð hinn 11. október 1979 og var kröfum kæranda hafnað. Segir m. a. svo í forsendum hins kærða úrskurðar:
„Atvinnureksturinn .... er rekstur jarðýtu og skurðgröfu. Vinnustaðirnir eru .... dreifðir og þess vegna er bifreið nauðsynleg og gagnleg við reksturinn. Enda er samþykktur
sambærilegur frádráttur hjá yður og Þ vegna þessa.................. Eins og þér genguð frá framtalinu
var bifreiðarekstur orðinn veigamesti þáttur starfseminnar, um 33%, en engin bein tekjuöflun er vegna bifreiðar. Bein tekjuöflun er af jarðýtu og skurðgröfu, en bifreiðin er hjálpartæki.
Vegna ofanritaðs og samkvæmt A-lið 11. gr. laga nr. 68/1971 er enn talið að afstaðan í bréfi voru 24/4 s.1. sé hæfileg.
Talið er að heimilisfesti rekstursins sé alveg eins í H-hreppi, þar sem sameignarmaður býr og kemur aðstöðugjald fram hjá honum vegna rekstursins. Hreppsnefnd K-hrepps bað ekki um álagningu aðstöðugjalds og getur það því ekki runnið þangað, sbr. einnig auglýsingu vora í Lögbirtingablaðinu dags. 25/4 s. 1. um skil á sérstöku aðstöðugjaldsframtali, en það hefur ekki borist frá yður.“
Kærandi hefur skotið kæruúrskurði þessum til ríkisskattanefndar með kæru dags. 26. október 1979. Krefst hann þess „að bifreiðakostnaðurinn verði eins og hann er í fjórða lið á skattframtali mínu“ og að álagt aðstöðugjald verði fellt niður og styður hann þá kröfu sína með svofelldum rökum:
„Ég hef alla tíð verið búsettur í K-hreppi. Þar sem hreppsnefnd K-hrepps leggur ekki á aðstöðugjald tel ég að aðstöðugjald sé ólöglega á mig lagt.
Síðastliðinn áratug höfum við Þ átt og rekið saman skurðgröfu og jarðýtu og skipt rekstrarkostnaði til helminga á milli okkar. Á árinu 1978 eru tekjur mínar af rekstri skurðgröfu og jarðýtu sem hér segir: Frá H-hreppi 676 554 kr., frá öðrum aðilum 2 660 384 kr. Þar sem svo lítill hluti af tekjum mínum er frá H-hreppi krefst ég þess að áðurnefnt aðstöðugjald verði fellt niður.“
Ríkisskattstjóri hefur í bréfi dags. 18. mars 1980 gert svofelldar kröfur í málinu: „1. Sjá má af launamiðum er borist hafa á nafn kæranda að vinna jarðvinnslutækja er í fleiru en einu sveitarfélagi. Svo virðist sem starfsstöð kæranda sé í H-hreppi. Þá hefur hann eigi fullnægt ákv. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar um aðstöðugjald. 2. Á rekstrarkostnaðaryfirliti vegna bifreiðar telur kærandi 70% kostnaðarins vera vegna öflunar tekna. Ekki gerir kærandi grein fyrir skiptingu ekinna kílómetra, þrátt fyrir að auk þess að nota bifreið sína í þágu eigin atvinnurekstrar fær hann greiðslu fyrir bílaafnot frá sjúkrasamlagi S-sýslu 116 850 kr. Samkvæmt ofanrituðu hefði honum borið að sundurliða á rekstrarskýrslunni hve marga kílómetra hann ekur í eigin þágu, vegna sjúkrasamlags og vegna eigin atvinnurekstrar.
Með hliðsjón af þeim ágöllum sem eru á framtalsskilum og vöntunar á rökstuðningi, verður að bera fram kröfur um að báðum kæruatriðum verði hafnað og úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
Kæranda var gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerð ríkisskattstjóra og gerði hann það með bréfi dags. 8. júní 1980. Segir í bréfi þessu m. a.:
„1. Ég vil enn ítreka það að ég sé ekki aðstöðugjaldsskyldur í H-hreppi þó svo að sameignarmaður minn búi þar. Ég tel að það sé ólöglega á mig lagt. Tel ég að ekki megi leggja á menn gjöld í öðru sveitarfélagi en þar sem þeir búa í. Til stuðnings þessu tel ég fram tölur um tekjur á árinu '78 og eru þær svo litlar í H-hreppi að ég ætti að borga í önnur sveitarfélög aðstöðugjöld ef ég á að borga í H-hrepp og sameignarmaður minn þá líka. Tekjur í H-hreppi 676 554, og frá öðrum aðilum 2 660 384. Það kemur ekkert fram að starfsstöð sé í H-hreppi. Það er ágiskun og ekki rétt. Til stuðnings þessu eru ofangreindar tölur.
- Sundurliðun á bifreiðarkostnaði:
Akstur í heild .................................................................................................................. 20 000 km
Akstur í þágu sjúkrasamlaga ...................................................................................... 11 000 km
Akstur í þágu atvinnu..................................................................................................... 13 000 km“
1. Kærandi á með öðrum manni bifreið, skurðgröfu og jarðýtu og á hvor sinn helming. Tæki þessi reka þeir saman. Er gerður einn sameiginlegur rekstrarreikningur og er niðurstöðu hans skipt í samræmi við eignarhlutföll. Kærandi hefur fært á skattframtal sitt árið 1979 hreinar tekjur af rekstrarreikningi þessum að sínum hlut. Á árinu 1978 fór rekstur nefndra tækja fram í ýmsum sveitarfélögum. Verður ekki talið að reksturinn hafi verið með þeim hætti að 40. gr. laga nr. 8/1972 um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. 2. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 81/1962 um aðstöðugjald, komi til skoðunar í máli þessu. Ber þá að leggja aðstöðugjald á allan reksturinn í heimilissveit aðstöðugjaldsskylds aðila. Eins og eignaraðild og rekstri umræddra tækja var háttað á árinu 1978 ber ekki að líta á samrekstur eigenda tækjanna sem sjálfstæðan aðstöðugjaldsskyldan aðila í skilningi 36. gr. nefndra laga. Verður þá að telja hvorn eigendanna sjálfstæðan aðstöðugjaldsskyldan aðila vegna rekstrar á sínum eignarhluta. En þar sem sveitarstjórn í því sveitarfélagi sem kærandi á lögheimili sitt í hefur eigi neytt lagaheimildar til álagningar aðstöðugjalds gjaldárið 1979 ber að fella niður álagt aðstöðugjald á kæranda það ár. Allt aðstöðugjald vegna samrekstrarins var lagt á sameiganda kæranda, sem búsettur er í H-hreppi. Verður því að tilkynna lækkun álagðs aðstöðugjalds á þann aðila úr 39 400 kr. í 19 700 kr.
2. Á árinu 1978 átti kærandi þrjár bifreiðar A, B og C auk helmings hlutar í bifreiðinni D á móti samrekstraraðila sínum, sem áður er getið. Rekstrarkostnaðar D er getið í sameiginlegum rekstrarreikningi eigenda. Bifreiðina C seldi kærandi í júní 1978 fyrir 1 000 000 kr. Hvorki á árinu 1977 né 1978 hefur bifreið þessi, sem er vörubifreið, verið nýtt til öflunar tekna í atvinnurekstri. Í framtalsgögnum gjaldársins 1978 er þess getið að enginn rekstur hafi verið á C á árinu 1977. Með skattframtali árið 1979 fylgir kostnaðaryfirlit árið 1978 af C, „sem stóð á bílasölu í Reykjavík“. Eru engar tekjur færðar á yfirlit þetta og heildarkostnaður 88 400 kr. er færður til frádráttar á skattframtali árið 1979. Kostnaður þessi eru tryggingar 54 660 kr„ bifreiðaskattur 32 928 kr. og þungaskattur 450 kr.
Á fylgiskjali með skattframtali árið 1979 gerir kærandi grein fyrir tekjum og kostnaði vegna bifreiðanna er báru skrásetningarnúmerin A og B á árinu 1978. Nemur heildarkostnaður á árinu 1978 1 733 211 kr., þar af í eigin þágu 30% eða 519 964 kr. og vegna vinnuveitanda 1 213 247 kr. Tekjur eru skráðar 116 890 kr. frá sjúkrasamlagi einu. Mismunur á fjárhæðum þessum, 1 096 397 kr., er færður til frádráttar á skattframtalið sem kostnaður vegna ferða á vegum vinnuveitanda. Þá fjárhæð hefur skattstjóri lækkað í 350 000 kr. og sú breyting kærð til ríkisskattanefndar.
Kærandi stundaði á árinu 1978 sjálfstæða starfsemi. Þykir rétt að skilja svo framtalsgögn hans vegna gjaldársins 1979 og kröfugerð í kærumáli þessu að hann krefjist þess að 1 096 397 kr. verði leyfðar til frádráttar frá tekjum af eignarhluta hans í áðurnefndri skurðgröfu og jarðýtu. Hreinar tekjur kæranda af rekstri þessum nema 3 336 938 kr. og er þá ekki tekið tillit til nefnds bifreiðakostnaðar.
Með hliðsjón af eðli og umfangi rekstrar kæranda er hinn kærði úrskurður staðfestur að niðurstöðu til að því er þetta kæruatriði varðar.