Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 384/1980
Gjaldár 1979
Lög nr. 112/1978, 1. og 3. gr.
Sérstakur eignarskattur — Lögskýring
Kærður er til lækkunar sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði gjaldárið 1979.
Umboðsmaður kæranda telur, að meiri hluti þeirra fasteigna, er skattstjóri lagði til grundvallar við ákvörðun gjaldstofns, sé ekki gjaldskyldur. Í kæru hans er tilgreindur svofelldur rökstuðningur og kröfugerð:
„Rökstuðningur:
Lög nr. 112/1978, kveða skýrt á um að skattstofn miðist við raunverulega notkun, en gera alls ekki ráð fyrir nýjum skilningi hvað varðar skilgreiningu á því hvað teljast skuli „verslunarhúsnæði“, enda segir í athugasemdum um lagafrumvarpið, um 1. gr.:
„Í skattarétti liggur fyrir allskýr skilgreining á því, hvað teljist verslunarhúsnæði og skrifstofuhúsnæði.“
Í því sambandi er bent á skyldu til aðgreiningar á verslunar- og skrifstofuhúsnæði vegna fyrninga og í athugasemd um 3. gr. frumvarpsins segir m.a.:
„Jafnframt verður við ákvörðun á stofni að hafa hliðsjón af því eftir hvaða reglum eignir hafa verð fyrndar.“
Almennt er litið svo á að notkunartegund ráði fyrningarflokki. Ég lít svo á að orðið „verslunarhúsnæði“ beri að skilja nokkuð þröngt í þessu sambandi, nánast tengt orðinu „sölubúð“, enda er orðið verslun oft notað í þeirri mynd. Það er nánast útúrsnúningur að telja vörugeymsluhús aðeins tákna geymslustað fyrir vörur sem óháðar séu viðskiptum með þær. Eða dettur mönnum í hug að kalla birgðageymslu fyrir t.d. sement, fóðurbæti o.þ.h. „verslunarhúsnæði“ þótt vörur þessar séu jafnan seldar og afgreiddar frá slíkum stöðum.
Kröfugerðin:
Með vísan til þess sem að framan segir, geri ég þá kröfu fyrir hönd skjólstæðings míns
að:
Að einungis fasteignamat X, 8 290 000 kr., sé stofn til sérstaks eignarskatts og skatturinn verði því 116 144 kr.“
Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur:
„Skattstjóri frávísaði kæru kæranda, dags. 13. ágúst 1979. Í frávísunarúrskurði gerði skattstjóri þó leiðréttingu á gjaldi því sem kært er yfir. Telja verður að kærandi hafi því skv. 41. gr. laga nr. 68/1971 með síðari breytingum rétt á að fá efnisúrlausn ríkisskattanefndarinnar um álagningu gjaldsins í heild.
Með þessu fororði er sú krafa gerð að álagning sérstaks eignarskatts á kærandann gjaldárið 1979 verði í öllum greinum staðfest þar eð stofn hans virðist rétt ákvarðaður af skattstjóra, sbr. bréf ríkisskattstjóra dags. 15. mars 1979 og aðrar fyllingar- og skýringarreglur varðandi lög nr. 112, 1978.“
Kærandi rekur verslun og notar fasteignir þær, sem um er deilt, í þágu starfsemi sinnar. Með tillit til þessa er úrskurður skattstjóra staðfestur með vísan til 1. málsgr. 3. gr. laga nr. 112/1978 um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði.