Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 396/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 40/1978, 96., 100., 101. og 106. gr.   Lög nr. 68/1971, 37., 42. og 47. gr.  

Valdþurrð ríkisskattstjóra — Viðurlög — Vítaleysisástæður — Framfærslueyrir — Tortryggilegt framtal — Innheimta opinberra gjalda

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1979.

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts gjaldárið 1979. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár.

Með bréfi, dags. 7. október 1979, fór umboðsmaður kæranda þess á leit við skattstjóra, að felld yrði niður álagning opinberra gjalda á kæranda, er byggðist á áætlun skattstjóra og skattframtal kæranda fyrir árið 1979, er fylgdi bréfi þessu, yrði í þess stað lagt til grundvallar álagningu gjaldárið 1979. Þá var þess og óskað með skírskotun til heimildar í lokamálsgrein 47. gr. laga nr. 68/1971, að felld yrði niður viðurlög samkvæmt grein þessari, þar sem dráttur á framtalsskilum ætti rót sína að rekja til veikinda kæranda. Því til stuðnings var lagt fram læknisvottorð, dags. 2. október 1979.

Með úrskurði, dags. 16. nóvember 1979, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum, að samkvæmt innsendu skattframtali teldist framfærslueyrir kæranda aðeins 237 026 kr., er ekki fengi staðist.

Með bráðabirgðakæru, dags. 6. desember 1979, skaut umboðsmaður kæranda úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Í framhaldi af bráðabirgðakærunni barst greinargerð fyrir kæruatriðum, dags. 21. desember 1979. Er þar til skýringar á framfærslueyri getið um skuldir samtals að fjárhæð 4 609 054 kr., er vegna mistaka hafi láðst að tilgreina. Var þess farið á leit, að innsent framtal fyrir árið 1979 yrði lagt til grundvallar álagningu með nefndum breytingum vegna vantaldra skulda í stað áætlunar skattstjóra. Að öðru leyti var vísað til skýringa og gagna innsendra til skattstjóra.

Þá liggur fyrir í málinu endurákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 9. apríl 1980, á opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1979. í endurákvörðun þessari er tekið fram, að ríkisskattstjóri hafi 8. febrúar 1980, móttekið bréf umboðsmanns kæranda, þar sem fram komi skýringar á hinum lága framfærslueyri gjaldárið 1979, er rétt þyki að taka til greina. Er í endurákvörðuninni fallist á að taka framtal kæranda árið 1979 til greina, en beita 25% viðurlögum á gjaldstofna, sbr. 2. mgr. 106. gr. laga nr. 40/1978 og 47. gr. laga nr. 68/1971. Ákvarðaði ríkisskattstjóri opinber gjöld kæranda að nýju í samræmi við þetta.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 20. ágúst 1980:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd sem tilefnislausri, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um beiðni kæranda um sambærilegt efni dagsetta 9. apríl s. 1., mál 1—1—3—293.“

Með endurákvörðun sinni, dags. 9. apríl 1980, breytti ríkisskattstjóri áður álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1979 til lækkunar eftir ákvæðum 3. mgr. 101. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. ákvæði 4. mgr. 42. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er áður giltu um þetta efni. Var skattframtal kæranda árið 1979 af hálfu ríkisskattstjóra lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra í tilefni nýrra upplýsinga um framfærslueyri kæranda, en að viðbættum 25% viðurlögum á gjaldstofna. Er ríkisskattstjóri breytti ákvörðun um skattálagningu kæranda gjaldárið 1979 lá fyrir formlegur úrskurður skattstjóra, dags. 16. nóvember 1979, um álögð gjöld hans gjaldárið 1979, er skotið hafði verið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. desember 1979, og sætti kærumeðferð þar. Verður eigi talið, að endurupptaka ríkisskattstjóra hafi verið heimil eins og á stóð. Eigi er því á það fallist, að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd vegna nefndrar endurákvörðunar svo sem krafist er af hálfu ríkisskattstjóra.

Með tilliti til skýringa kæranda er fallist á að leggja innsent framtal til grundvallar álagningu án viðurlaga með vísan til læknisvottorðs, dags. 2. október 1979, er fyrir liggur í gögnum málsins.

Með því að gjöld þau, er ákveðin voru samkvæmt nefndri endurákvörðunar ríkisskattstjóra hafa þegar verið tilkynnt viðkomandi innheimtumanni, er í úrskurði þessum einungis tilgreind sú viðbótarlækkun gjalda, er leiðir af niðurfellingu viðurlaga.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja