Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 472/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 37. og 40. gr  

Kæruúrskurður — Málsmeðferð áfátt — Ólögmætt þvingunarúrræði

Málavextir eru þeir, að kærandi taldi fram til skatts gjaldárið 1979 og skilaði skattstjóra í veittum viðbótarframtalsfresti óundirrituðu og óstaðfestu skattframtali þess árs. Fylgdi því óundirritaður ársreikningur ársins 1978. Með bréfi sínu, dags. 22. maí 1979, tilkynnti skattstjóri kæranda svofellda athugasemd vegna framtals kæranda: „Fyrningar verða bakfærðar, þar sem fyrningarskýrsla og framtal 1978 hafa ekki borist. Berist ofangreind gögn ekki má einnig búast við að áætlaðar verði tekjur vegna sölu á bústofni.“ Svarfrestur var veittur kæranda til 1. júní 1979. Hinn 26. júní 1979 hafði ekkert svar borist skattstjóra og tilkynnti hann þá að fyrningar að fjárhæð 1 327 870 kr. hefðu verið bakfærðar og söluhagnaður bústofns áætlaður. Þannig breytt var skattframtalið lagt til grundvallar við ákvörðun gjalda í skattskrá, sem lögð var fram 16. júlí 1979.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1979, kærði kærandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1979. Kvaðst hann senda nánari rökstuðning síðar. Með bréfi, dags. 2. október 1979 og mótteknu af skattstjóra 8. október, samkvæmt áritun á bréfið, barst honum nánari rökstuðningur frá kæranda. Segir svo í bréfi þessu:

„Til rökstuðnings kæru dagsettri 25. júlí s.1. vil ég fyrir hönd þessa umbjóðanda míns taka fram eftirfarandi. Vísað er til bréfs skattstjóra frá 22. maí s.1. í bréfi skattstjóra kemur fram að berist framtal 1978 ekki skattstofu verði áætlaðar tekjur vegna sölu á bústofni. Hér er verið að tengja saman tvö skattframtöl sem að mínum dómi er rangt.

Skattstjóri hefur ekki vitnað í nein lagaákvæði sem styðja hans áform þannig að þau eru órökstudd.

Samkvæmt túlkun laga um tekjuskatt og eignarskatt er sérhvert framtal sjálfstætt og geta skattyfirvöld tæpast neitað viðtöku þeirra, svo fremi þau séu ekki út í hött.

Skattframtali 1978 var ekki skilað á tilsettum tíma og voru stofnar til opinberra gjalda áætlaðir. Skattframtali 1979 var hins vegar skilað á tilsettum tíma og hefur skattstjóri ekki gert við það neina athugasemd aðra en að framan er rakið.

Þar sem hér er verið að tengja saman tvö sjálfstæð framtalsár lít ég svo á að til þess skorti lagaákvæði.

Það er því krafa mín að felld verði niður hækkun skattstjóra og framtal fært í sitt upprunalega horf og opinber gjöld reiknuð samkvæmt því.“

Hinn 12. október 1979 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í málinu og úrskurðaði hann að skattar skyldu standa óbreyttir. Segir svo í forsendum úrskurðarins:

„Með bréfi, dags. 28. júlí, kærir umboðsmaður gjaldanda álögð gjöld og boðar rökstuðning síðar. Engin frekari rök hafa borist og er því ekki forsenda fyrir skattbreytingu.“

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. október 1979. Segir í kærunni að nánari rökstuðningur verði sendur innan skamms.

Með bréfi ríkisskattstjóra, dags. 20. ágúst 1980, hefur hann gert svohljóðandi kröfu: „Að kærunni verði vísað frá þar sem rökstuðning af hálfu kæranda skortir.“

Þegar skattstjóri kvað upp kæruúrskurð sinn 12. október 1979 hafði honum þegar borist kröfugerð kæranda í bréfi hans, dags. 2. október 1979. Úrskurðurinn er því byggður á rangri forsendu og er hann af þeim sökum ógiltur. Kröfugerð kæranda í bréfi hans frá 2. október 1979 hefur eigi sætt efnislegri meðferð skattstjóra. Er því eigi fallist á kröfu ríkisskattstjóra í kærumálinu. Ef knýja á kæranda til að skila framtalsgögnum vegna gjaldársins 1978 ber að leita annarra úrræða en breyta skattframtali hans árið 1979 með þeim hætti sem skattstjóri gerði. Skattframtal kæranda árið 1979 verður eigi ófullnægjandi eða tortryggilegt af þeirri ástæðu einni að skattframtali árið 1978 hafi eigi verið skilað. Með þessari athugasemd ber að fallast á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja