Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 482/1980

Gjaldár 1976, 1977 og 1978

Lög nr. 68/1971, 36. gr., 37. gr., 38. gr.  

Skýrslutaka — Ólögmæt gagnaöflun — Vefenging framtals — Meðalálagning — Endur-ákvörðun

Kærð er endurálagning opinberra gjalda gjaldárið 1976, 1977 og 1978. Málavextir eru þeir að þann 11. desember 1978 gerði skattstjóri athugun á bókhaldi og söluskattsskilum kæranda fyrir söluskattstímabilin ágúst, september og október 1978. Var gerð skrifleg skýrsla um athugun þessa og er hún dagsett 13. desember 1978. Var gerð athugun á söluskráningu í verslunum þeim, sem kærandi rekur og söluskattsskilum. Er í skýrslunni lýst á hvern hátt skráning staðgreiðslusölu hefði farið fram, en hún var þá fyrst skráð við innfærslu kæranda í sjóðbók, sem hafði verið færð til 8. desember 1978. Við samanburð á sölu samkvæmt söluskattsskýrslum fyrir nefnt tímabil við sölu samkvæmt sjóðbók kom í ljós að um samræmi var að ræða. Auk sjóðbókarinnar hafði kærandi fært í dagbók til 1. nóvember svo og viðskiptamannabók og aðalbók. Þá var gerð athugun á verðálagningu á nokkrum vörutegundum í annarri af verslunum kæranda. Er athugun þessari lýst svo í skýrslunni: „Valið var úrtak af vörum í versluninni. Teknar voru 12 vörutegundir og þess gætt að velja bæði dýrari og ódýrari vöru svo úrtak gæfi réttari mynd af meðalálagningu. Einnig var tekið tillit til þeirra vörutegunda sem mest seljast. Kaupverð og tegundaheiti voru tekin upp af nýjustu vörukaupareikningum og borið saman við verðskráningu sömu vara í versluninni.“

Niðurstaða athugunar þessarar reyndist vera sú að meðalálagning væri 51,66% á þeim vörum sem valdar voru.

Í niðurlagi skýrslunnar segir svo um niðurstöðu athugunarinnar:

„Af framansögðu er ljóst, að söluskráningu fyrirtækisins er verulega ábótavant. Engin undirgögn eru fyrir hendi um staðgreiðslusölu, sem er færð beint í sjóðbók, að því er best verður séð samkvæmt minni. Þetta brýtur í bága við 11. gr. reglug. nr. 354/1972 um bókhald og 22. gr. reglugerðar nr. 169/1970 um söluskatt. Einu gögn um sölu verslunarinnar eru færslur í sjóðbók, en sjóðbók er ekki færð daglega eins og mælt er fyrir um í 7. gr. 1. nr. 51/1968 um bókhald.

Með hliðsjón af því, sem hér hefir verið rakið, verður að telja, að söluskráning sé svo miklum annmörkum háð, að hún getur ekki verið öruggur grundvöllur til að byggja á rétt söluskattsskil.“

Þann 12. janúar 1979 var sonur kæranda, sem jafnframt er starfsmaður hans, tekinn til skýrslutöku. Segir svo í upphafi þeirrar skýrslu:

„Skýrsla þessi er tekin með stoð í 4. mgr. 36. gr. laga um tekju- og eignarskatt.

Mætti er áminntur um sannsögli og gætt er ákvæða 40. gr. laga 74/1974 um meðferð opinberra mála.

Mætta er tjáð, að hann sé kvaddur til skýrslugjafar vegna athugunar rannsóknardeildarinnar á söluskráningu fyrirtækisins og söluskattsskilum söluskattstímabilin ágúst, september og október 1978.“

Þann 13. febrúar 1979 reit skattstjóri kæranda svohljóðandi bréf:

„Hér með er yður send skýrsla rannsóknardeildar Skattstofu Reykjavíkur, sem dagsett er 13.12. 1978, en hún fjallar m. a. um athugun á bókhaldi og söluskattsskýrslum yðar fyrir söluskattstímabilin ágúst, september og október 1978.

Í skýrslunni kemur m. a. fram að söluskráningu er verulega ábótavant. Engin undirgögn eru fyrir hendi um staðgreiðslusölu, sem færð er beint í sjóðbók, en hún er ekki færð daglega.

Framkvæmd var úrtakskönnun á álagningu í versluninni. í ljós kom að meðalálagning var 82% með söluskatti eða 51,66% án söluskatts.

Eftirfarandi yfirlit sýnir meðalálagningu verslunarinnar skv. framtölum þegar tekið hefur verið tillit til niðurfærslu vörubirgða og söluskatts.

Framtal 1978 42,71%

Framtal 1977 42,94%

Framtal 1976 42,71%

Samkvæmt upplýsingum S (sonar kæranda) hefur meðalálagning verið svipuð frá árinu 1975 og hún er í dag.

Mismunur er því á álagningu samkvæmt könnuninni og skv. framtölum að jafnaði um 8,88% sem þykir vera meira en eðlilegt má telja.

Með tilvísun til 38. gr., sbr. 37. gr. laga, um tekju- og eignarskatt er hér með skorað á yður að gefa skýringar á framangreindu.

Skriflegt svar þarf að hafa borist Skattstofunni í Reykjavík innan 10 daga frá dagsetningu þessa bréfs, auðkennt: Rannsóknardeild.“

Með bréfi þessu sendi skattstjóri áðurnefnda bókhaldsskoðunarskýrslu ásamt fylgiskjölum.

Kærandi svaraði bréfi þessu með ítarlegu bréfi dags. 21. febrúar 1979. Með bréfi, dags. 16. maí 1979, tilkynnti skattstjóri kæranda um að hann hefði „ákveðið að áætla yður viðbótartekjur, sbr. heimild í 38. gr., sbr. 37. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, fyrir gjaldárin 1976, 1977 og 1978.“ Jafnframt var tilkynnt um hækkun sölugjalds vegna áranna 1975, 1976, 1977 og ágúst, september og október 1978. Ástæður kvað skattstjóri vera annmarka við færslu staðgreiðslunótna og lága meðalálagningu samkvæmt skattframtölum kæranda árin 1976, 1977 og 1978. Með kæru, dags. 25. maí 1979, kærði kærandi endurupptöku þessa til skattstjóra. Með kæruúrskurði sínum, dags. 20. september 1979, staðfesti skattstjóri umræddar gjaldahækkanir.

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 25. september 1979. Er þess krafist að hækkanir skattstjóra verði felldar niður.

Ríkisskattstjóri hefur í bréfi, dags. 20. ágúst 1980, krafist staðfestingar á kæruúrskurði skattstjóra.

Hinn 12. janúar 1979 var sonur kæranda, sem jafnframt var starfsmaður hans, kallaður fyrir starfsmenn skattstjóra og honum tilkynnt að hann væri kvaddur til skýrslugjafar vegna athugunar skattstjóra á söluskráningu fyrirtækis kæranda og söluskattsskilum hans söluskattstímabilin ágúst, september og október 1978. Ekki verður annað ráðið af bréfi skattstjóra, dags. 13. febrúar 1979, en að ákvörðun hans um endurupptöku opinberra gjalda gjaldárin 1976, 1977 og 1978 á kæranda hafi að mestu leyti verið byggð á skýrslutöku þessari. Við skýrslutökuna var syni kæranda gefin réttarstaða sakaðs manns við meðferð opinbers máls. Með því að skýrslutaka þessi fór þannig fram með ólögmætum hætti verður hún eigi reifuð nánar hér og ekkert á henni byggt.

Skýrsla starfsmanna skattstjóra, sem dagsett er 13. desember 1978, gaf ekki sjálfstætt tilefni til vefengingar á skattframtölum kæranda árin 1976, 1977 og 1978, enda tók athugun sú, sem skýrslan fjallar um, ekki til þeirra ára.

Áætlanir sínar um of lága verslunarálagningu kæranda árin 1976, 1977 og 1978 miðaði skattstjóri eingöngu við meðalálagningu á tólf tilteknum vörum sem voru til sölu í verslun kæranda 12. desember 1978, þegar athugunin fór fram. Sú meðalálagning var eingöngu reiknuð út frá álagningu sérhverrar þessarar vörutegundar, en ekki var tekið tillit til magns innkeyptra vara eða magns seldra vara, þannig að ekki hefur verið fundið út vegið meðaltal álagningar, sem unnt hefði verið að nota við sannprófun á réttmæti meðalálagningar samkvæmt áðurnefndum skattframtölum.

Þegar það er virt sem nú hefur verið rakið verður að telja að endurupptaka skattstjóra á áður álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárin 1976,1977 og 1978 sé eigi byggð á svo traustum grundvelli að viðhlítandi sé. Er því fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja