Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 489/1980
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 10. gr.
Eigin vinna við húsbyggingu
Kærð eru álögð gjöld gjaldárið 1978. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir kærandi svofellda grein fyrir kröfu sinni:
„Í þessu máli stendur deilan um skattskyldu á eigin vinnu kæranda við húsbyggingu, sem hann síðan seldi undir kostnaðarverði. Ríkisskattstjóri virðist líta svo á, að eigin vinna fáist endurgreidd við sölu sé söluverðið jafn hátt eigin vinnunni eða hærra. Við lítum hins vegar svo á, að eigin vinna fáist því aðeins greidd við sölu, að annar byggingarkostnaður hafi áður verið jafnaður að fullu.
Hér er því farið fram á, að þér úrskurðið, hvor túlkunin teljist rétt vera.“
Samkvæmt gögnum málsins nam söluverð þeirra fasteignar, sem kærandi seldi á árinu 1977, 5 000 000 kr. Heildarbyggingarkostnaður nam 5 128 617 kr. en þar af nam eigin vinna 297 000 kr. Kærandi hefur því fengið 168 383 kr. af eigin vinnu greiddar í söluverði íbúðarinnar. Með þessari athugasemd er kröfu kæranda synjað.