Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 496/1980

Gjaldár 1979

Reglugerð nr. 245/1963, 36. gr.   Lög nr. 68/1971, 12. gr.  

Gjafir til trúfélags — Auglýsing ríkisskattstjóra — Sköttunarheimild

Kærð eru álögð opinber gjöld gjaldárið 1979. Í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfum sínum:

„Í úrskurði frá 12.10. 1979, þá viðurkennir skattstjóri Vesturlandsumdæmis ekki rétt umbj. míns á frádrætti vegna gjafar til Aðventista. Eins og fram kemur í úrskurði skattstjóra, þá hafa skattyfirvöld fengið bréf frá Systrafélaginu Alfa, Rvk., þar sem viðurkennd er móttaka gjafar umbj. míns. Ágreiningur er því ekki um tilvist þessarar gjafar. Ástæða neitunar skattstjóra byggist á því, að Systrafélagið Alfa hafði ekki fengið heimild til að þiggja gjafir með þeim afleiðingum að gefandi öðlist rétt til frádráttar, sbr. 36. gr. skattareglugerðar. Systrafélagið Alfa er, svo sem kunnugt er, hluti Aðventista á Íslandi og sér um ákveðinn þátt líknarmála þeirra. Gjöf umbj. míns til Aðventista var, eins og fram kemur á skattframtali, í vörum og sá systrafélagið um að koma þeim til réttra aðila.

Umbj. minn taldi sig vera að gefa umrædda gjöf til Aðventista og gjöfin þannig frádráttarbær þó svo umrætt Systrafélag sæi um að gjöfin yrði að tilætluðum notum.

Því er óskað eftir, að umrædd gjöf verði viðurkennd til frádráttar.“

Ríkisskattstjóri hefur krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.

Í auglýsingu ríkisskattstjóra, dags. 18. október 1978, kemur ekki fram að hann hafi veitt Systrafélaginu Alfa heimild til að þiggja gjafir á árinu 1978 með þeim afleiðingum að gefandinn öðlist rétt til frádráttar frá tekjum til tekjuskatts. Hins vegar kemur þar fram að hann hafi veitt Aðventistum á Íslandi slíka heimild fyrir árið 1978. Í niðurlagi auglýsingar þessarar segir svo: „Það athugist að þegar um er að ræða viðurkenningar veittar heildarsamtökum eða félagasamböndum þá ná þær aðeins til heildarsamtakanna eða félagasambandanna en ekki til einstakra aðildarfélaga eða deilda.“ Með þessum athugasemdum er kröfu kæranda synjað og úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja