Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 401/1992
Gjaldár 1990
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 2. mgr. — 59. gr. 1. mgr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 3. mgr. Lög nr. 45/1987 — 2. gr. — 4. gr. 2. tl. — 5. gr. 2. tl. — 6. gr.
Reiknað endurgjald — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Eigin atvinnurekstur — Ákvörðun reiknaðs endurgjalds — Ákvörðun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi — Reiknað endurgjald, ákvörðun skattstjóra — Reiknað endurgjald, takmörkun fjárhæðar — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Reiknað endurgjald í staðgreiðslu — Reiknað endurgjald, greinargerð í staðgreiðslu — Laun í staðgreiðslu — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Breytingarheimild skattstjóra — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt
Málavextir eru þeir, að kærandi, sem stundar sjálfstæða starfsemi við húsasmíðar, reiknaði sér endurgjald vegna vinnu sinnar við þá starfsemi á árinu 1989 535.153 kr. og færði sér til tekna í reit 24 í skattframtali sínu árið 1990. Endurgjald þetta eignfærði kærandi með byggingarkostnaði v/X.
Hinn 21. maí 1990 tilkynnti skattstjóri kæranda, að reiknað endurgjald hans hefði verið hækkað í 814.236 kr. með skírskotun til þess, að samkvæmt greinargerð um reiknað endurgjald árið 1989 ætti það að nema nefndri fjárhæð. Hækkun endurgjaldsins næmi því 279.083 kr. en sú tala ákvarðaðist sem yfirfæranlegt tap til næsta árs. Af hálfu kæranda var þessari breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 9. ágúst 1990, og vísað til þess, að í greinargerð um reiknað endurgjald 1989 væri aðeins um áætlun þess að ræða. Hins vegar hefði komið í ljós, að tekjur hefðu ekki orðið hærri en 535.153 kr. m.a. vegna verkefnaskorts. Með kæruúrskurði, dags. 24. september 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á sömu forsendum og áður, þ.e. bindandi verkunum greinargerðar um reiknað endurgjald.
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 16. október 1990. Krefst kærandi þess, að hækkun skattstjóra á reiknuðu endurgjaldi verði niður felld og færir fram sömu rök og í kærunni til skattstjóra.
Með bréfi, dags. 17. september 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Skattstjóri hefur hækkað reiknað endurgjald kæranda gjaldárið 1990 á grundvelli ákvæða 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og grein þessari var breytt með 6. gr. laga nr. 49/1987, um breyting á fyrrnefndu lögunum. Skattstjóri fór með hina kærðu breytingu eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þegar litið er til efnis 1. mgr. 59. gr. laga nr. 75/1981 og ákvarðana skattstjóra á grundvelli greinarinnar verður að krefjast skýlausrar lagaheimildar til meðferðar breytinga eftir ákvæðum hennar á grundvelli 3. ml. 1. mgr. 95. gr. nefndra laga þrátt fyrir þær breytingar, sem gerðar voru á 1. mgr. 59. gr. með 6. gr. laga nr. 49/1987. Slíkri ótvíræðri lagaheimild er ekki til að dreifa og verður því að telja, að skattstjóra hafi borið að fara eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 hygðist hann hrófla við hinum umdeilda lið framtalsins. Af þessum sökum er hinni kærðu breytingu skattstjóra hnekkt.