Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 516/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 37. gr., 40. gr., 47. gr.  

Skattkæra — Rökstuðningi úrskurðar áfátt — Viðurlög — Breyting skattframtals — Lögskýring

Kærð eru álögð gjöld 1979. Kærandi skilaði framtali í kærufresti til skattstjóra, sem tók framtalið til greina með 20% viðurlögum. Einnig gerði skattstjóri þá breytingu á framtali að heimila ekki til frádráttar útsvarsskyldum tekjum 1 360 077 kr. sem eru vextir af ýmsum skuldum.

Í kæru til ríkisskattanefndar eru gerðar svofelldar kröfur:

„Vextir af rekstrarskuldum:

Þessi gjaldaliður hefir verið fluttur af rekstrarreikningi á framtal án þess að um það væri getið í úrskurði eða mér gert aðvart um það. Því mótmæli ég og krefst lagfæringar á því.

Ég geri mér í hugarlund að þessi kostnaður hafi þótt mikill í samanburði við umfang núverandi rekstrar. Þetta veit ég þó ekki þar sem mér var ekki gefinn kostur á að gæta réttar míns eins og lög standa til. En sé svo, er því til að svara, að um er að ræða vexti og kostnað af skuldum vegna rekstrar sem ég hafði áður. Það eru skuldir vegna fyrirtækis, G h.f., sem varð gjaldþrota fyrir 10 árum og skuldir vegna tilrauna með smíði beitingavélar, sem ég fékkst við um árabil en neyddist til að hætta við, sökum fjárskorts. Sundurliðun vaxtanna er rétt tilgreind í skuldaskrá og í samræmi við fyrri framtöl.

20% viðurlög:

Framtal mitt kom of seint. Ástæðan var, eins og ég tók fram í lið G, að ég er með brjósklos í baki, sbr. læknisvottorð með fyrri framtölum. Ég er þó yfirleitt sæmilega vinnufær en fæ köst og verð þá að draga af mér. Ég fékk eitt slíkt kast s.1. vetur. Ég vinn aðallega við bókhald og gerð skattframtala, fyrir aðra. Vegna veikindanna átti ég í erfiðleikum með að ljúka framtölum, sem ég hafði lofað að gera og eigið framtal mætti afgangi.

Ég mun senda læknisvottorð um þetta, þótt seint sé, og leyfi mér að fara þess á leit að fallið verði frá viðurlögunum.“

Af hálfu ríkisskattstjóra er gerð svohljóðandi krafa í bréfi dags. 13. maí 1980:

„Að ákvörðun skattstjóra um gjaldstofna og gjöld kæranda gjaldárið 1979 verði látin óbreytt standa og vísast um rökstuðning til gagna málsins, m.a. rekstrarreiknings kæranda vegna ársins 1978. Jafnframt skal á það bent að afgreiðsla kæru kæranda á skattstjórastigi verður vart talin brjóta gegn þeim reglum sem um kærur og skattskýrslur þeim fylgjandi gilda. Hefur það og verið staðfest af ríkisskattanefndinni að hvorki sé þörf á að gefa kærendum kost á að tjá sig né að tilkynna um breytingar á „kæruframtölum“, þ.e.a.s. að efnisákvæði 37. gr. laga nr. 68/1971 hafi ekki átt við í þeim tilvikum.

Einnig skal tekið fram að veikindi kæranda „af og til veturinn 1979 og fram á vor“ virðast ekki þær vítaleysisástæður sem ákvæði 47. gr. skattalaga nr. 68/1971 tóku til (nú 106. gr. laga nr. 40/1978).“

Í kærufresti eftir útkomu skattskrár árið 1979 sendi kærandi skattframtal sitt árið 1979. Skattstjóri tók það sem kæru og kvað upp kæruúrskurð í málinu. Segir í úrskurðinum að framtalið sé „tekið til greina að viðbættum 20% viðurlögum samkvæmt 47. gr. laga um tekju- og eignarskatt.“ Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og krefst hann þess í fyrsta lagi að breytingu skattstjóra á tilgreindum lið í skattframtali sínu verði hnekkt, þar eð eigi væri um breytinguna „getið í úrskurði eða mér gert aðvart um það.“ Við athugun á umræddu skattframtali kemur í ljós að við úrskurðun kærunnar hefur skattstjóri gert breytingar á tveimur liðum þess. Annars vegar hefur skattstjóri gert þá breytingu er kærandi getur um í kæru sinni og hins vegar hefur hann lækkað gjaldfærðan viðhaldskostnað um 178 818 kr. í 7. mgr. 47. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, segir m.a. að sendi skattaðili framtal með kæru til skattstjóra skuli miða skattmat við þær tekjur og eign, sem réttar virðast samkvæmt framkomnum gögnum og rökum að viðbættum 20% viðurlögum af þannig ákvörðuðum tekjum og eign. Þá segir í 40. gr. sömu laga m. a. að kæruúrskurðir skattstjóra skuli vera rökstuddir, en í því felst m.a. að í úrskurðum skuli koma fram að hvaða marki ekki er fallist á kröfur kæranda og af hvaða ástæðum. Ákvæði 37. gr. nefndra laga, sbr. lög nr. 60/1973, um breyting á þeim lögum, varðandi fyrirspurnar- og tilkynningarskyldu skattstjóra vegna breytinga á einstökum liðum skattframtals eiga samkvæmt orðum sínum ekki við þegar svo stendur á að framtali er ekki skilað fyrr en með skattkæru. Breytingum skattstjóra verður því ekki hnekkt af þeim ástæðum að skattstjóri hafi ekki aðvarað kæranda áður en kæruúrskurðurinn var uppkveðinn. Hins vegar kemur ekki fram í úrskurðinum hvaða einstökum liðum í skattframtali kæranda var breytt og af hvaða ástæðum, heldur er einungis tekið fram að „innsent skattframtal er tekið til greina að viðbættum 20% viðurlögum samkvæmt 47. gr. laga um tekju- og eignarskatt.“ Þar eð rökstuðningur í hinum kærða úrskurði er þannig bæði rangur og ófullnægjandi að því er varðar umræddar breytingar verður ekki hjá því komist að ógilda þær. Er því þegar af þeirri ástæðu fallist á fyrri lið í kröfum kæranda.

Í öðru lagi krefst kærandi þess að fallið verði frá beitingu viðurlaga við ákvörðun skattstofna. Með tilliti til framkominna upplýsinga um veikindi kæranda framan af ári 1979 er einnig fallist á þennan þátt í kröfugerð hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja