Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 518/1980
Gjaldár 1979
Lög nr. 29/1980, ákvæði til bráðabirgða Lög nr. 112/1978 Lög nr. 68/1971, 22. gr.
Frádráttarbærni skatta— Leigulóð — Áætlun fasteignamatsverðs — Ákvörðun skattstofns
Kærður er úrskurður skattstjóra, dags. 27. september 1979, er varðar álögð gjöld gjaldárið 1979. Kæruefnið er sem hér segir:
1. Umboðsmaður kæranda krefst þess að sérstakur skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði verði heimilaður til frádráttar tekjum rekstrarársins 1978.
2. Skattstjóri færði til eignar áætlað fasteignamat leigulóðar. Umboðsmaður kæranda mótmælir þessu. Leigulóð sú, sem um er deilt, hafi ekki verið metin hjá fasteignamati og eigi þessi eignfærsla skattstjóra sér ekki lagastoð. 1. málsgr. A-liðar 22. gr. laga nr. 68/1971 eigi því aðeins við um eignfærslu að um eignarlóð sé að ræða.
3. Um þennan lið segir umboðsmaður kæranda svo:
„Skattstjóri hefir ekki fallist á þá skiptingu fasteignamats húss og lóðar, sem gerð er í sérstöku framtali umbj. okkar vegna sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Segir í úrskurði skattstjóra að birgðahald og vinna við geymslu og afgreiðslu á vörum verslunar verði að telja óaðskiljanlegan þátt í verslunarrekstrinum. Því sé synjað kröfu umbj. okkar um þá skiptingu, sem áður greinir. Hér tekur skattstjóri alls ekki á kæruefninu. Umbj. minn fellst algerlega á þá skoðun skattstjóra að birgðahald og vinna við geymslu og afgreiðslu á vörum sé óaðskiljanlegur þáttur í verslunarrekstrinum, þegar um er að ræða venjulegt birgðahald verslunar og venjulega afgreiðslu vara. Í kæru til skattstjóra var einmitt tekið sérstaklega fram að við skiptingu á notkun húsnæðisins væri talið með verslunarhúsnæði sá hluti húsnæðis, sem notaður væri til venjulegs birgðahalds. Hins vegar ekki það húsnæði, sem notað væri til birgðahalds, sem ella væri í vörugeymslum annars staðar, né það húsnæði, sem notað væri til þess að sníða og skera niður teppi.“
Af hálfu ríkisskattstjóra er gerð svofelld krafa með bréfi dags. 20. ágúst 1980:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
Um 1. Með vísan til ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 29/1980, um sérstakan skatt á
verslunar- og skrifstofuhúsnæði, er úrskurður skattstjóra staðfestur.
Um 2. Eigi er fallist á þá túlkun umboðsmanns kæranda sem fram kemur í kæru. Telja
verður að ákvæði 1. málsl. A-liðar 22. gr. laga nr. 68/1971 taki jafnt til leigulóðar sem
eignalóða. Er úrskurður skattstjóra staðfestur.
Um 3. Ekki er fallist á, að flokkun þess húsnæðis sem um er deilt, byggist á því hvernig birgðahaldi kæranda er háttað. Sá þáttur í sölustarfsemi kæranda að sníða og skera niður teppi eftir óskum kaupanda er óaðskiljanlegur frá verslunarrekstri. Með tilliti til þessa er úrskurður skattstjóra staðfestur.