Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 546/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 40/1978, 94., 96., 99. og 103. gr.  

Skatteftirlit — Bókhaldsathugun — Vefenging framtals — Málsmeðferð áfátt — Tilkynning um endurákvörðun — Kæruúrskurður — Vanhæfi

I.

Kærandi taldi fram til skatts gjaldárið 1979 og skilaði skattstjóra í veittum viðbótarframtalsfresti undirrituðu og staðfestu skattframtali það ár ásamt ársreikningi rekstrarársins 1978. Framtalið var lagt til grundvallar upphaflegri álagningu opinberra gjalda nefnt gjaldár með breytingum, sem hér skipta ekki máli.

Í byrjun janúar árið 1980 hóf skattstjóri m.a. athugun á bókhaldi kæranda vegna rekstrarársins 1978 og skattframtali hans árið 1979. Samkvæmt gögnum málsins mun athugun þessi hafa hafist á starfsstöð kæranda þann 8. janúar og var honum þann sama dag gert að afhenda skattstjóra bókhaldsgögn sín vegna rekstraráranna 1978 og 1979 til athugunar. Tekin var saman skýrsla um athugun þessa og er hún dags. 29. febrúar 1980. Í skýrslu þessari er greint frá starfsemi kæranda, tilhögun á skráningu tekna, söluskattsskilum, samanburði á heildarveltu samkvæmt hlaupareikningi kæranda við heildarveltu samkvæmt rekstrarreikningi og söluskattsskilum svo og yfirheyrslu yfir kæranda og þeim manni sem annaðist samningu ársreiknings ársins 1978 og skattframtals árið 1979. Loks er í niðurlagi skýrslunnar greint frá niðurstöðum athugunarinnar og áhrifum þeirra atriða, sem skýrslan fjallar um, á skattframtal kæranda árið 1979 og gjaldstofna vegna þess gjaldárs.

Með bréfi skattstjóra, dags. 29. febrúar 1980, var kæranda send framangreind skýrsla og honum m.a. tilkynnt um, að skattstjóri hefði í hyggju að taka áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1979 til endurákvörðunar þar sem telja yrði „með vísan til þess, sem fram kemur í skýrslunni um lélegt bókhald yðar og misræmi milli bankareiknings og ársreiknings, auk annars misræmis, að eigi sé unnt að byggja álagningu opinberra gjalda, gjaldárið 1979, á innsendu skattframtali yðar fyrir það ár.“ Frestur til andsvara var veittur til 14. mars s. á.

Með bréfi, dags. 14. mars 1980, gerir umboðsmaður kæranda athugasemdir við skýrslu skattstjóra og bréf hans frá 29. febrúar. Í niðurlagi bréfsins kemst umboðsmaðurinn svo að orði:

„Skýrsla sú, er um er rætt, er á flestan hátt illa unnin, morar í vitleysum og fram haldið röngum fullyrðingum.

Er hún tæpast marktæk. Ekki batnar, þegar lesinn er boðskapur í bréfi, sem fylgdi skýrslu. Ég hef sýnt fram á þá fjarstæðu að ætla að byggja eitt eða annað á hlr. á sama hátt og gert er í skýrslu og boðað er í bréfi. Mér sýnist að þessi vinnubrögð lýsi mikilli vanþekkingu á eðli bókhalds, eða þá algeru reynsluleysi.

Hvort skattstofa gerir sig bera að því að beita valdi sínu á þeim grundvelli, er að sjálfsögðu hennar mál.“

Með bréfi, dags. 30. apríl 1980, tilkynnti skattstjóri kæranda um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 1979. Í bréfi þessu segir m. a.:

„Hér með tilkynnist yður, að skattframtal yðar gjaldárið 1979 hefur verið tekið til endurálagningar og hafa skattskyldar tekjur yðar verið áætlaðar 3 600 000 kr. hærri en samkvæmt skattframtali, auk 25% viðurlaga 900 000 kr.

Af því er málavexti og rökstuðning varðar er vísað til skýrslu skattstjóra ... umdæmis, um athugun á skattframtali yðar gjaldárið 1979, bókhaldi yðar og söluskattsskilum rekstrarárið 1978 og fyrstu 10 mánuði rekstrarársins 1979, dags. 29. febr. s. 1. Í henni kemur m.a. fram, að verulegir annmarkar eru á bókhaldi yðar og söluskattsskilum, og tortryggilega mikill munur er á heildarveltu samkvæmt ársreikningi með skattframtali yðar 1979 og innborgunum á hlaupareikning yðar þ.á.

Með téðri skýrslu fylgdi bréf skattstjórans í ...umdæmi, þar sem boðuð var fyrirhuguð áætlun skattstofna yðar, gjaldárið 1979, þar sem ofangreind athugun hefði leitt í ljós, að eigi væri unnt að byggja álagningu opinberra gjalda yðar, téð gjaldár, á innsendu skattframtali.

Í athugasemdum við ofangreinda skýrslu í bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 14. mars 1980, kom ekkert það fram, sem gaf tilefni til að falla frá boðaðri áætlun. Sérstaklega þykir rétt að benda á, að skýringar á mismun heildarveltu skv. ársreikningi og innborgana á nefndan hlaupareikning eru alls ófullnægjandi. Gjöld yðar gjaldárið 1979 hafa því verið endurálögð í samræmi við þá áætlun, sem tilgreind var í upphafi þessa úrskurðar.“

Af hálfu kæranda var endurákvörðun þessi kærð til skattstjóra með kæru, dags. 26. maí 1980. Er þar gerð rökstudd grein fyrir kröfum um niðurfellingu gjaldahækkana skattstjóra. Í kæru þessari er m.a. enn gerð athugasemd við upphaflega athugun málsins og þær ályktanir, er skattstjóri dró af þeim atriðum sem skýrslan fjallar um.

Þann 6. júní 1980 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í málinu. í forsendum úrskurðarins segir svo m.a.:

„Kærandi kveðst hafa fært sjóðbók til grundvallar rekstri sínum, rekstrarárið 1978, en hún hefur ekki fengist lögð fram.

Aðrar bókhaldsbækur hafa ekki verið færðar rekstrinum til grundvallar.

Eins og fram hefur komið eru söluskráningargögn kæranda ófullnægjandi og á margan hátt tortryggileg. Meðal annars vantar fjölmarga reikninga vegna útseldrar vélavinnu inn í samfellda fyrirfram tölusetta röð og engin frumgögn eru til varðandi selda bílaþjónustu. Greind sölugögn geta því ekki talist örugg heimild til grundvallar teknahlið rekstrarreiknings.

Samkvæmt ofangreindu er eigi hægt að taka kröfu kæranda til greina, því að bókhald kæranda er það ófullkomið og tortryggilegt, að það getur eigi talist viðhlítandi grundvöllur undir skattframtali hans. Heimilt er því að áætla kæranda skattskyldrar tekjur, samkvæmt 96. gr. laga nr. 40/1978, með áorðnum breytingum í lögum nr. 7/1980, sbr. áður 37. gr. og 38. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.

Að virtum öllum málsatvikum þykir þó mega lækka áætlaðar skattskyldar tekjur í 2 200 000 kr. Viðurlög lækka því í 550 000 kr.“

II.

Að hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 3. júlí 1980. Þess er krafist, að teknaviðbót skattstjóra verði felld niður. Í kærunni er gerð allítarleg grein fyrir þeirri kröfu. Þar eru enn gerðar athugasemdir við upphaflega athugun málsins og síðari meðferð skattstjóra á því.

III.

Þann 9. júlí 1980 var ríkisskattstjóra sent myndrit af kæru kæranda. Með bréfi, dags. 1. október 1980, gerði ríkisskattstjóri svofellda kröfugerð í málinu:

„Ljóst er að skilyrði fyrir áætlun eru fyrir hendi. Gætt hefur verið réttra aðferða við hækkun gjaldstofna og gjalda samkvæmt áætlun. Með hliðsjón af öllum málavöxtum verður ekki á það fallist að skattstjóri hafi gerst „offari“ er hann ákvað fjárhæð áætlaðra gjaldstofna.

Er því gerð krafa um staðfestingu á úrskurðum skattstjóra með tilvísan til forsendna þeirra.“

Með kröfugerð sinni lét ríkisskattstjóri fylgja skattframtöl og gögn er vörðuðu hina kærðu ákvörðun skattstjóra.

IV.

Framkvæmd endurákvörðunar skattstjóra á álögðum opinberum gjöldum á kæranda gjaldárið 1979 og kærumeðferð hlítir alfarið lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum.

Í skýrslu þeirri, sem var tilefni endurákvörðunar skattstjóra á opinberum gjöldum gjaldársins 1979 er greint frá tilteknum staðreyndum, einstök atriði í skattframtali kæranda árið 1979 vefengd og þar vikið að ályktunum um áhrif þeirra atriða er hún fjallar um á gjaldstofna kæranda þetta gjaldár. Tiltekinn starfsmaður skattstjóra hefur annast um rannsóknina og aðra athugun á bókhaldi og nefndu skattframtali kæranda og samið skýrslu um hana. Sami starfsmaður undirritaði tilkynningu til kæranda, dags. 29. febrúar 1980, en um efni hennar er áður getið. Þá hefur sami starfsmaður annast endurákvörðun þeirra gjalda, sem tilkynnt voru kæranda með bréfi, dags. 30. apríl 1980, svo og hefur sá sami starfsmaður kveðið upp kæruúrskurð skattstjóra, dags. 6. júní 1980, í tilefni af kæru umboðsmanns kæranda. í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 14. mars 1980, og í skattkæru hans, dags. 26. maí 1980, eru m.a. gerðar ýmsar athugasemdir við frumathugun málsins og ályktanir þær sem af þeirri athugun voru í upphafi dregnar. Athugasemdir þessar voru hvorki teknar til sérstakrar umfjöllunar í tilkynningu skattstjóra, dags. 30. apríl, né í kæruúrskurði hans frá 6. júní.

Ljóst er að sá starfsmaður skattstjóra, sem áður er getið, hefur í margnefndri skoðunarskýrslu og í bréfinu frá 29. febrúar, borið um tilteknar staðreyndir og dregið sjálfstæðar ályktanir af þeim um áhrif þeirra á skattframtal og gjaldstofna kæranda gjaldárið 1979. Þegar þetta er virt og að öðru leyti atvik málsins og meðferð þess hjá skattstjóra, þykir umræddur starfsmaður skattstjóra hafa haft þau afskipti af málinu við upphaflega meðferð þess að þau hafi gert hann vanhæfan til þeirrar endurákvörðunar opinberra gjalda, sem hann gerði með bréfi, dags. 30. apríl 1980, sbr. 103. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Af þessum ástæðum og að öðru leyti með hliðsjón af þeirri meðferð sem mál þetta hlaut á skattstjórastigi og kemur fram í gögnum málsins, þykir bera að ógilda gjaldahækkanir þær, sem kæranda voru tilkynntar í bréfinu frá 30. apríl 1980 svo og síðari meðferð málsins hjá skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja