Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 567/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 112/1978  

Sérstakur eignarskattur — Iðja — Skattskylda

Kærð er álagning sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði samkvæmt lögum nr. 112/1978.

Skattstjóri áætlaði kæranda stofn til álagningar skatts þessa gjaldárið 1979 með því að skrá yfir skattskyldar eignir samkvæmt lögum þessum hefði ekki fylgt framtali. Var stofn til skattsins áætlaður 69 150 000 kr. og hinn sérstaki skattur ákveðinn 968 000 kr. Álagningu þessa kærði umboðsmaður kæranda til skattstjóra með kærubréfi, dags. 9. ágúst 1979, og krafðist niðurfellingar hins álagða skatts með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 112/1978. Með kæru fylgdi sundurliðað yfirlit yfir rúmmálsstærðir og notkun húseigna kæranda. Af hálfu kæranda var staðhæft, að skrá þessi, sem er dagsett 19.2. 1979, hefði fylgt skattframtali hans árið 1979.

Með úrskurði, dags. 24. október 1979, ákvað skattstjóri stofn til sérstaks skatts á skrifstofu- og verslunarhúsnæði með hliðsjón af skrá kæranda, þeirri er fyrr er nefnd, og á grundvelli upplýsinga úr fasteignamati. Samkvæmt skrá kæranda var heildarhúsnæði samkvæmt fasteignamatsskrá að X-götu 29 alls 3045 rúmmetrar. Þar af kvað kærandi í skrá sinni notað sem verslunar- og skrifstofuhúsnæði 704 rúmmetra eða 23,1% af heildarhúsnæði á lóðinni X-götu 29. Heildarhúsnæði samkvæmt skrá að Y-götu 11, Reykjavík, var talið 4170 rúmmetrar. Þar af tilgreindi kærandi í notkun sem skrifstofu- og verslunarhúsnæði 921 rúmmetra, eða 22,1% af heildarhúsnæði á lóðinni Y-götu 11. Með vísan til þess, að minna en 25% rúmmáls heildareigna þeirra, er hér um ræðir á hvorri lóðinni um sig, væri nýtt til skrifstofu- og verslunarrekstrar, krafðist kærandi niðurfellingar með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 112/1978. Í úrskurði sínum tekur skattstjóri fram, að samkvæmt fasteignamatsskrá séu á lóðinni X-götu 29 sjö húseignir eða einingar, sem allar eru byggðar á mismunandi tíma á árunum 1942—1953. Þar af er 2ja hæða steypt skrifstofuhús og er samkvæmt skrá kæranda 70,9% af rúmmáli þess notað, sem verslun og skrifstofa. í Y-götu eru 3 húseignir eða einingar og er samkvæmt fasteignamatsskrá eitt húsanna — sérhæfð bygging — byggð árið 1978 og er það samkvæmt skrá kæranda allt notað sem verslun og skrifstofa og jafnframt 212 m3 eða 16,7% af verslunar- og vörugeymslu, sem byggð var árið 1967. Undanþáguákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 112/1978 taldi skattstjóri einungis taka til síðastnefndrar húseignar. Samkvæmt þessu taldi skattstjóri bera að ákveða stofn hins umdeilda skatts þannig: 71% af fasteignamatsverði skrifstofuhúss ásamt lóða að X-götu 29, er var í árslok 32 397 000 kr. eða 23 001 870 kr. að viðbættu fasteignamatsverði sérhæfðs húss ásamt lóð að Y-götu 11, 17 284 000 kr. eða samtals 40 295 000 kr.

Kærandi hefur skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með bréfi, dags. 31. október 1979, og ítrekar fyrri kröfur um niðurfellingu umrædds skatts. Mótmælir kærandi því, að eigninni X-götu 29 sé skipt niður í einingar við ákvörðun skattstofns svo sem skattstjóri hefur gert. Um sé að ræða eina samfellda byggingu sem myndi eina heild, þótt hún hafi verið byggð í áföngum á sínum tíma, enda sé einungis eitt brunabótamat á eigninni, þótt fasteignamati sé skipt í sjö matshluta.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 8. október 1980:

„Þar sem telja verður að hin sérmetna eign sem að rúmmáli til telst 70,9% skrifstofa falli að því marki undir skattstofn samkvæmt lögum nr. 112/1978 þykir bera að gera kröfu um staðfestingu á hinum kærða úrskurði.“

Þegar litið er til starfsemi þeirrar, er kærandi rekur og að virtri notkun fasteigna hans í þágu þeirrar starfsemi, verður eigi talið, að fasteignir þessar myndi að neinu leyti stofn til skatts samkvæmt lögum nr. 112/1978, um sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Verður kæranda því eigi gert að greiða sérstakan eignarskatt samkvæmt lögum þessum. Með vísan til þessa er fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja