Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 588/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 41. gr.  

Vanreifun málsaðila — Frávísun — Bifreiðakostnaður

Kærð er álagning opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1979.

Málavextir eru þeir, að skattstjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 25.4. 1979, að fyrirhugað væri að fella niður frádreginn rekstrarhalla 92 410 kr. og færa honum til tekna 350 000 kr. vegna áætlaðra einkanota af bifreiðinni X.

Í bréfi kæranda til skattstjóra frá 2.5. 1979 segir hann m.a.:

„Bifreið mína X notaði ég eingöngu í þágu fyrirtækisins. Bifreið mína Y, Ford-Pinto árgerð 1972, nota ég til alls einkareksturs og óska ég því eftir að fallið verði frá því að færa mér til tekna kr. 350 000 vegna áætlaðra einkanota af X“.

Skattstjóri tilkynnti kæranda síðan með bréfi, dags. 20. júlí 1979, að frádreginn rekstrarhalli 92 410 kr. hefði verið felldur niður og 350 000 kr. hefðu verið færðar kæranda til tekna vegna áætlaðra einkaafnota af X.

Þessi breyting skattstjóra á framtali kæranda var kærð til skattstjóra með bréfi dags. 3. ágúst 1979. Mæltist kærandi til þess að framangreindar breytingar skattstjóra á framtali hans yrðu felldar niður og ítrekaði, að bifreiðin X væri eingöngu notuð vegna atvinnu hans, en bifreiðin Y eingöngu notuð til heimilis- og einkaþarfa.

Með úrskurði skattstjóra, dags. 10. október 1979, var kröfu kæranda hafnað. Forsendur úrskurðarins eru svohljóðandi: „Ekki er fallist á kröfu kæranda. Einkaafnot þykja hæfilega metin.“

Með bréfi, dags. 30. október 1979, skaut kærandi úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og ítrekar fyrri kröfur sínar. Telur kærandi sig alls ekki geta samþykkt mat skattstjóra varðandi útstrikun rekstrarhalla bifreiðarinnar X og áætlun tekna vegna einkanotkunar hennar um 350 000 kr., enda eigi hann aðra bifreið, sem eingöngu sé notuð til heimilis- og einkaþarfa.

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi, dags. 25. september 1980, gerð svofelld krafa í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Samkvæmt launamiða, sem borist hefur frá vinnuveitanda kæranda hefur hann greitt honum m.a. 5 746 276 kr. í laun á árinu 1978 og 1 703 500 kr. í „bílaafnot“. Launin eru tilgreind í skattframtali kæranda árið 1979, en vegna nefndrar greiðslu fyrir bílaafnot hefur kærandi samið sérstakan rekstursreikning þar sem tilfærð eru rekstrarútgjöld vegna nefndrar bifreiðar á árinu 1978 og til tekna fyrrgreind fjárhæð kr. 1 703 500 sem „leigutekjur“. Niðurstöðu rekstrarreiknings þessa sem er rekstrarhalli að fjárhæð kr. 92 410 færði kærandi til frádráttar á framtali sínu.

Í gögnum málsins er hvergi að finna lýsingu kæranda á því hvernig háttað var afnotarétti og afnotum vinnuveitanda hans á bifreiðinni á árinu 1978 og það eigi upplýst af hálfu skattstjóra eða ríkisskattstjóra. Verður því eigi hjá því komist að vísa kærumáli þessu frá sökum vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja